Skoðun

Hvað gerði Sölvi Tryggva?

Þórarinn Hjartarson skrifar

Fyrir skömmu kom út grein sem hélt því fram að Sölvi Tryggvason, sem var ásakaður um að hafa beitt vændiskonu ofbeldi, hafi verið sakaður um glæp sem annar maður framdi. Þetta segir Mannlíf hafa verið staðfest af lögreglunni. Miðað við samfélagslega spennustigið sem fylgdi ásökununum fyrir rúmu ári er vægast sagt áhugavert að fylgjast með látlausu viðbrögðunum sem fylgja þessum fréttum.

Sölvi Tryggvason var hafður að athlægi í samfélaginu í kjölfar þess að hann sagði grátandi frá sinni hlið á ásökununum. Þar neitaði hann að vera sá sem sögusagnirnar fjölluðu um en hvarf úr kastljósinu eftir að frétt birtist í fjölmiðlum um að tvær konur hefðu kært hann fyrir ofbeldi.

Miðað við nýlegar vendingar er vert að spyrja sig: Hvað gerði Sölvi Tryggva?

Sérstaklega ættu þau sem voru hvað aðgangshörðust í því að telja fólk í trú um að fjölmiðlar væru að hygla Sölva (geranda) og viðhalda þöggunarmenningu í málefnum kynferðisbrota, að spyrja sig þeirrar spurningar. Þau sýna hins vegar tregðu til að tjá sig um málið og hafa látið þessar fréttir sem vind um eyru þjóta.

Það er sorglegt þegar fólk nýtir sér réttindabaráttu til að hygla sjálfu sér. Krafa er gerð um að orðum þeirra skuli tekið sem heilögum sannleik, öll gagnrýni er bakslag og það er ósanngjarnt að telja málefnalegar rökræður um þessi mál vera boðlegar.

Slíkar vangaveltur eru kveðnar í kútinn með vísan til kyns og kynþáttar viðkomandi. Þau sem þekkja ekki lögin einskorðast í þeirri trú að þau geti skorið úr um hverjir séu sekir og hverjir séu saklausir og að þeir sem hafa lagt kapp á að kynna sér lögin þekki þau í raun ekki neitt og nýti sér þau til að viðhalda óréttlæti gagnvart brotaþolum.

Undirritaður veit ekki hvort Sölvi Tryggvason hafi gerst sekur um glæp eða ekki. En það breytir því ekki að ef satt reynist að Sölvi hafi verið sviptur lífsviðurværinu fyrir glæp sem annar maður framdi er vert fyrir marga að efast dálítið um eigið ágæti og horfa inn á við.

Höfundur er þáttastjórnandi hlaðvarpsins Ein pæling.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×