Skoðun

Fyrir hverja eru Betri samgöngur?

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Í liðinni viku funduðum við þingmenn á höfuðborgarsvæðinu með Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Á dagskrá voru m.a. samgöngumál, enda ofarlega í hugum íbúa svæðisins sem sitja fastir í umferð alla daga. Við fengum kynningu frá Betri samgöngum og skiptumst svo á skoðunum um verkefnin framundan. Í kynningunni var að finna þekkta mynd af bílaröð frá austri til vesturs að morgni dags. Mynd sem við íbúar austurhlutans þekkjum vel af eigin raun.

Það er eitt brýnasta verkefnið á svæðinu að leysa þetta taktleysi í umferðarflæðinu. Lausnirnar þurfa því að taka mið af þörfum þeirra sem eiga að nýta sér þær; þeirra sem sitja fastir í umferðarteppunni sem þarf að leysa úr. Ég vakti því athygli á því, enn og aftur, að sveitarfélögin, einkum Reykjavíkurborg, þyrftu að temja sér nýjan hugsunarhátt. Af hverju eru þessir íbúar fastir, hver í sinni bifreið, á hverjum degi?

Á þeim nánast samfelldu 25 árum sem vinstristjórn hefur verið í Reykjavík hefur nærþjónusta nánast horfið úr úthverfum borgarinnar. Foreldrar leikskólabarna þurfa að sækja þjónustu langt utan hverfis, jafnvel sveitarfélagsins, og opnunartími á leikskólum hefur verið styttur. Frístundaheimili borgarinnar þjónusta aðeins hluta af þeim börnum sem þurfa á því að halda. Og flestir sækja áfram vinnu í vesturhluta borgarinnar, það hefur lítið breyst.

Við sem búum í austurhluta Reykjavíkurborgar veljum flest eða neyðumst til að ferðast aðallega um á bíl. Við keyrum þvert á enda borgarinnar til og frá vinnu og sækjum flest alla þjónustu utan hverfisins okkar. Börnin okkar fá ekki leikskóla- og frístundapláss í sínu hverfi fyrr en seint um síðir og það púsluspil bætist við ferðatímann til og frá vinnu. Af þessu litast afstaða okkar til ferðamáta, þ.m.t. til háleitra hugmynda um Betri samgöngur.

Það er ágætt að sveitarfélögin hafi náð saman um umbætur í samgöngumálum. En það er algjör grundvallarforsenda fyrir breytingunum sem boðaðar eru að þær séu hugsaðar út frá hag notenda. Að íbúum svæðisins sem sitja fastir í þessari umferð sé raunverulega gert kleift að losna undan farginu. Þar er ábyrgð Reykjavíkurborgar mikil.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×