Skoðun

Sveltistefna

Guðbrandur Einarsson skrifar

Að skoða framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er sorglegt og ekki er hægt að lesa út úr því annað en að ólin sé svo hert að það bitnar verulega á íbúum svæðisins, og hafi gert um langt árabil. Samantekt Deloitte staðfestir þetta. Þegar fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eru skoðaðar kemur í ljós að þær hafa hækkað um 10% frá árinu 2008 til 2022. Séu þessi framlög skoðuð miðað við fjölda íbúa kemur hins vegar í ljós að framlögin hafa lækkað um 22%. 

Fjárveitingar vegna sjúkrasviðs sem sinnir m.a. slysa- og bráðaþjónustu hafa lækkað talsvert á tímabilinu 2008 – 2022 og nemur lækkunin 23% en þegar skoðuð eru framlög á hvern íbúa er lækkunin heil 45%. Á tímabilinu hefur íbúum á Íslandi fjölgað um 17% en á sama tíma hefur íbúum Suðurnesja fjölgað um 36,6%. Þá er einnig rétt að minnast á að kröfur til heilbrigðisstofnana hafa aukist mikið m.a. með stofnun geðheilsuteyma.

Það gefur því augaleið að möguleikar stofnunarinnar til þess að veita þá þjónustu sem veita þarf, hafa verið skertir verulega og í raun miklu meira en kemur fram í þessum tölum. Og það er ekki eins og svigrúm stofnunarinnar til þess að auka við þjónustuna sé mikið. Launavísitala opinberra starfsmanna hefur hækkað um 129% og launakostnaður skv. samantektinni nemur 88% af heildarútgjöldum HSS. Þessar tölur mála upp skýra en jafnframt afar dökka mynd.

Það er bersýnlega ekki til hagsbóta fyrir nokkurt samfélag að viðhalda slíkri sveltistefnu í heilbrigðisþjónustu og íbúar Suðurnesjanna eiga betra skilið. Það er því miður stundum eins og ríkisstjórnin sé blind á stöðuna á Suðurnesjum, þá mikla fólksfjölgun sem á sér stað þar og hversu miklu meiri hún er þar miðað við aðra staði á landinu. Það þarf að gera ráð fyrir öllu því fólki sem býr á staðnum og því krefst ég þess að þetta verði leiðrétt í fjárlögum ársins 2023. 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×