Skoðun

Vin í eyði­mörkinni

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir skrifar

Eitt mesta uppvaxtarskeiðið í sögu Hveragerðis er hafið sem ekkert lát virðist vera á. Fjölgunin kallar á uppbyggingu innviða og hefur byggingu nýs leikskóla í Kambalandi verið flýtt. Eins hefur tveggja áfanga viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði verið sameinuð í eina og er því markvisst unnið að hönnun þeirra byggingar. Með því náum við að bregðast við þeirri fólksfjölgun sem verið hefur. Einnig er það verkefni næstu mánaða að fylgja eftir ákvörðunum um uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja með það að markmiði að þjóna betur þörfum íþróttastarfsins og bæjarbúa.

Fram undan eru áframhaldandi útboð á lóðum í eigu sveitarfélagsins til að mæta eftirspurn og þörf um húsnæði. Einnig vinna einkaaðilar að byggingu húsnæðis, fjöldi íbúða verður byggður við Lindarbrún og þá eru áform um að byggð verði fjölbýlishús á Tívolíreitnum. Fjölbreytt húsnæði mun því verða í boði í Hveragerði allt frá minni íbúðum í einbýlishús og markmið ríkisstjórnar um að auka framboð og jafna stöðuna á markaði höfð til hliðsjónar.

Þeir innviðir sem í uppbyggingu eru verða til þess fallnir að anna þeirri fjölgun íbúa sem gert er ráð fyrir. Fram að því verður verkefnið að takast á við vaxtarverki. Meðal annars með því að bjóða upp á foreldragreiðslur til að mæta þeirri stöðu fái barn ekki vist á leikskóla 12 mánaða gamalt.

Það er ákaflega ánægjulegt að sjá og upplifa áhuga fólks á því að búa í sveitarfélaginu og þar með velja sér Hveragerði til búsetu. Meðalaldur íbúa hefur farið lækkandi, fleira og fleira fólk með ung börn sækir í Hveragerði enda fjölskylduvænn bær og hafa bæjaryfirvöld skýr markmið um að hlúa enn betur að fjölskyldufólki. Við íbúar erum þakklát fyrir þennan mikla áhuga og hlýju sem Hveragerði er sýndur enda bærinn umvafinn einstökum náttúruperlum sem og fjölbreytileika tengdum heilsu- og þjónustu þar sem frumkvöðlar fá sín notið. Kannski er þetta einmitt umhverfið sem dregur fram það allra besta enda Hveragerði sannkölluð vin í hugum margra.

Höfundur er oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Hveragerði.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×