Innlent

Al­var­­legar at­huga­­semdir við hækkun æfinga­­gjalda í Reykja­­vík

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skúli Helgason er formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.
Skúli Helgason er formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Stöð 2/Arnar

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar hefur gert alvarlegar athugasemdir við hækkanir einstaka íþróttafélaga í Reykjavík á æfingagjöldum. Ráðið óskar eftir því að félögin endurskoði hækkanir sínar. 

Frístundastyrkur barna í Reykjavík hækkaði um helming um áramótin eða um 25 þúsund krónur, úr fimmtíu þúsund krónum í 75 þúsund. Tilgangur styrksins er að auka virkni og þátttöku barna og ungmenna í frístundastarfi. 

„Vilji borgarinnar er klárlega að stærstur hluti hækkunarinnar renni til barna og forráðamanna þeirra,“ segir í bókun menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.

Ráðinu hefur nú borist fregnir af verulegum hækkunum æfingagjalda íþróttafélaganna að undanförnu og því var óskað eftir því að Íþróttabandalag Reykjavíkurborgar (ÍBR) tæki saman heildstætt yfirlit yfir æfingagjöld með samanburði fyrir og eftir hækkun styrksins. 

Fyrstu upplýsingar frá ÍBR benda til þess að æfingagjöld hafi almennt ekki hækkað umfram verðlag en hins vegar eru einstök dæmi um meiri hækkanir sem ráðið telur mikilvægt að bregðast ákveðið við. 

„Ráðið gerir alvarlegar athugasemdir við hækkanir æfingagjalda umfram verðbólgu og telur eðlilegt að í slíkum tilvikum taki viðkomandi félög slíkar hækkanir til endurskoðunar,“ segir í bókuninni. 

Ráðið telur það mikilvægt að íþróttafélögin, ÍBR og borgaryfirvöld vinni þétt saman að því að verja grundvöll og tilgang styrksins sem mikilvæg forsenda fyrir almennri frístundaþátttöku barna og ungmenna í borginni án þess að það sé grafið undan styrknum með óhóflegum verðhækkunum. 

Voru æfingagjöldin hjá þínu íþróttafélagi að hækka? Vísir tekur við ábendingum á netfangið [email protected]. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×