Skoðun

Er barnið þitt í ofbeldissambandi?

Drífa Snædal skrifar

Ef börn eða unglingar verða fyrir ofbeldi er ekkert víst að þau segi foreldrum eða öðrum fullorðnum frá því. Reyndar er það sjaldgæft að það gerist. Sjúktspjall er nafnlaust spjall þar sem ungmenni geta leitað aðstoðar, fengið svör við vangaveltum sínum og fengið ábendingar um næstu skref. Í gegnum það fáum við innsýn inn í ofbeldissambönd ungmenna og oft eiga þau mjög erfitt með að skilja og skilgreina reynslu sína. Það kemur fyrir að ungmenni koma inn á spjallið til að ræða vini eða vinkonur en eftir því sem líður á spjallið kemur í ljós að ungmennið á hinum enda línunnar hefur orðið fyrir nauðgun.

Foreldrar geta ekki treyst því að börnin eða unglingarnir segja frá og því er mikilvægt að þekkja einkennin. Þau geta verið að unglingurinn þarf stöðugt að láta vita af sér, getur ekki tekið ákvarðanir nema bera það undir hinn aðilann og svo mætti áfram telja. Við höfum sett af stað foreldrapróf þar sem foreldrar og forráðamenn geta kannað þekkingu sína á ofbeldissamböndum og vísbendingum þar um: stigamot.is/einkenni.

Við leitum líka til almennings um að styrkja eitt samtal við ungmenni, en hvert samtal á sjuktspjall kostar um 2.500 krónur. Stór hluti starfsemi Stígamóta er fjármagnaður fyrir fé frá einstaklingum. Þannig hjálpar almenningur okkur að hjálpa öðrum.

Á þessu ári sem sjúktspjall hefur verið starfandi höfum við fengið staðfestingu á hvað það er mikilvægt og það er ósk okkar að geta eflt spjallið fyrir fleiri ungmenni. Þannig er vonandi hægt að koma í veg fyrir ofbeldi ungs fólks, þau hafi rými til að ræða mörk og samþykki og allt annað sem þau eru að velta fyrir sér varðandi samskipti.

Við viljum þakka öllum þeim þúsundum sem hafa styrkt okkur síðustu ár og eflt Stígamót þannig að við getum veitt fleirum ráðgjöf og frætt fleiri um heilbrigð samskipti.

Höfundur er talskona Stígamóta




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×