Skoðun

Að meðaltali frekar fínt

Guðbrandur Einarsson skrifar

Á síðustu árum hefur fasteignaverð margfaldast og það hafa vextir af lánum gert sömuleiðis. Þess vegna ekki að furða þótt hlutfall fyrstu kaupenda hafi minnkað gífurlega. Það er einfaldlega of erfitt að komast inn á markaðinn. Fyrir vikið safnast snjóhengja af ungu fólki í húsnæðisþörf sem fyrr eða síðar mun þurfa að komast í íbúð, sama hvað.

Á sama tíma og þetta er staðan mætir seðlabankastjóri á opinn fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og tilkynnir að skuldastaða heimilanna sé almennt góð, eða að meðaltali 150% af ráðstöfunartekjum. Hvað segir svona tala okkur?

Ung fjölskylda fjárfestir í íbúð á höfuðborgarsvæðinu sem kostar 70 milljón krónur. Þessi fjölskylda er með eina milljón í ráðstöfunartekjur eftir að búið er að greiða skatta. Hún greiðir út 20% af kaupverði, eða 14 milljónir, sem hún hafði safnað í mörg ár og tekur lán fyrir eftirstöðvunum upp á 56 milljón krónur. Ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar eru 12 milljónir á ári og skuldin því 466% af ráðstöfunartekjum heimilisins. Langt frá meðaltalinu sem seðlabankastjóri talar um. Þau þyrftu að skulda 18 milljónir en ekki 56 til að hanga í meðaltali Seðlabankans.

Einstaklingur með 600 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði, eða 7,2 milljónir á ári, kaupir sér íbúð á 50 milljónir. Hann greiðir 20% út og tekur lán fyrir eftirstöðvunum, 40 milljón krónum. Þessi einstaklingur skuldar 555% af ráðstöfunartekjum sínum og er enn lengra frá 150% meðaltalinu sem Seðlabankinn ber á borð. Þessi einstaklingur mætti skulda 10,8 milljónir en ekki 40 til að vera í meðaltalinu.

Fólk sem hefur fjárfest í húsnæði á undanförnum árum býr í allt öðrum veruleika en þeim sem Seðlabankinn miðar við. Þótt skuldahlutfall sé að meðaltali ásættanlegt þá er staðreyndin að í þessu landi búa tvær þjóðir: Þau sem eiga og þau sem skulda.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×