Skoðun

Átta milljón dauðsföll á ári

Guðlaug B. Guðjónsdóttir skrifar

Síðan 1987 hafa aðildarríki Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, helgað 31. maí baráttunni gegn reykingum og annarri tóbaksnotkun á Alþjóðlega tóbakslausa deginum. Í ár er athyglinni einkum beint að því að ræktarlönd fyrir tóbaksplöntuna ætti frekar að nýta til matvælaframleiðslu og slagorðið er „Við þurfum mat, ekki tóbak“.

Í tilefni dagsins er ástæða til að minna á nokkrar staðreyndir um notkun tóbaks. Tóbak leiðir til dauða allt að helmings þeirra sem nota það. Tóbak drepur yfir 8 milljónir manna á ári hverju. Um sjö milljónir þessara dauðsfalla má rekja beint til tóbaksnotkunar en rúmlega milljón dauðsföll eru af völdum óbeinna reykinga fólks sem ekki reykir. Í því skyni að takast á við tóbaksfaraldurinn samþykktu aðildarríki Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar rammasamning um tóbaksvarnir árið 2003 og nú hafa 182 ríki undirritað samninginn.

Að því er varðar krabbamein má minna á að tóbaksnotkun tengist að minnsta kosti tuttugu tegundum krabbameins og er helsta orsök sjúkdómsins sem hægt er að koma í veg fyrir.Tóbak veldur um fjórðungi allra dauðsfalla af völdum krabbameins.

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hefur oft ályktað um mikilvægi þess að halda áfram baráttunni gegn reykingum og annarri tóbaksnotkun, ekki síst meðal ungs fólks, og að stjórnvöld verði að bregðast við nýjum tegundum nikótínvara sem hafa komið inn á markaðinn síðustu árin.

Í tilefni af Alþjóðlega tóbakslausa deginum eru landsmenn hvattir til að huga að því hvernig viðhalda má þeim mikla árangri sem náðst hefur í tóbaksvörnum á síðustu áratugum og bregðast við aðsteðjandi vanda af hörku, til heilla fyrir landsmenn, og ekki síst ungu kynslóðina.

Höfundur er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×