Skoðun

Ölfusið ljómað regn­boga­litunum

Elliði Vignisson skrifar

Frelsið er yndislegt. Frelsið til að fylgja eigin hjarta, frelsið til að ráða sér sjálfur, frelsið til að fylgja eigin kynhneigð, frelsið til að elska. Hinsegin dagar, sem hófust í morgun, eru áminning til okkar allra að taka ekki frelsinu sem sjálfsögðu. Áminning um að það þarf að verja mannréttindi. Þessa viku berjumst við öll fyrir réttindum þeirra sem eru „hinsegin“.

Fordómar eru andstyggilegir

Að hafa skoðanir á kynhneigð annarra er eins og að velta sé upp úr háralit þeirra, hæð eða lengd vísifingurs. Fordómar eru andstyggilegir, fordómar vegna persónubundinna eiginda eins og kynhneigðar eru ef til vill verstir.

Látum ekki sundra okkur

Þrátt fyrir að margt hafi áunnist hér á landi þá lifum við enn á tímum þar sem samfélagið vill skilgreina okkur út frá sundurgreinanlegum þáttum. Ekki síst út frá kynhneigð. Slík nálgun á persónur skiptir okkur upp í flokka. Hún sundrar okkur. Etur okkur saman. Það er engu að síður fallegt að sjá hvernig þessi samfélagslega flokkun birtist samtímis í stolti af sjálfsmynd þess fólks sem fyrir flokkununni verður. Hinsegin dagar eru skýrt dæmi um slíkt.

Ölfusið fagnar frelsinu

Á sama tíma og hinsegindagar eru haldnir í borginni höldum við í Ölfusi bæjarhátíðina okkar undir nafninu „Hamingjan er hér“. Af því tilefni viljum við fagna þeirri hamingju sem fólgin er í því að huga að réttindum hinsegin fólks. Við viljum styðja eindregið við það persónufrelsi sem fólgið er í því að lifa í sátt við sjálfan sig og samfélagið hver sem kynhneigð fólks er. Þau skilaboð sendum við nú við sveitarfélagamörkin. Á meðan á hinsegindögum og bæjarhátíðinni „Hamingjan er hér“ stendur verður Ölfusskiltið ljómað regnbogalitunum.

Til hamingju með þessa daga - lifi frelsið - lifi fjölbreytnin.

Höfundur er bæjarstjóri í Ölfusi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×