Skoðun

Hvers eiga bændur að gjalda?

Alexandra Rós Jóhannesdóttir skrifar

Nú hefur Matvælastofnun boðað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldskyld verkefni. Sauðfjárbúskapur á í vök að verjast og ef að gjaldskrárhækkun gengur í gegn er víst að horft sé fram á mikinn kostnaðarauka fyrir atvinnugreinina í heild sinni og eftirlitskostnað í kjölfarið. Má þá spyrja sig hvort að markmiðið með þessu sé að útrýma litlum og miðlungsstórum fjárbúum í landinu. Stuðningur við smáframleiðendur virðist vera af skornum skammti ef marka má nýja gjaldskrá og má ætla að með þessu sé vilji fyrir því að slátrun fari einungis fram í stórum sláturhúsum þar sem að fáir einstaklingar græða meira.

Hér má ég til með að nefna kolefnissporið sem fylgir því að senda allt á stóru sláturhúsin í staðin fyrir þau sem eru í héraði eða slátra heima fyrir. Þetta verður til þess engin sala verður hjá þeim sem selja kjötafurðir milliliðalaust og fjölbreytni í landinu fer minnkandi. Það er vaxandi eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum og er því tækifæri til nýsköpunar fyrir íslenskar sauðfjárafurðir. Einnig er mikil aukning vinsælda er á vörum sem eru beint frá býli um þessar mundir þar sem íslenskir bændur leggja mikið upp úr góðu ræktunarstarfi.

Í 2. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 er skýrt tekið fram að markmið laganna sé að stutt sé við almenn starfsskilyrði við framleiðslu og vinnslu búvara ásamt stuðningi ríkisins stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði. Tel ég að með breyttri gjaldskrá að forsendur séu að breytast og ekki sé verið að hugsa um hag bænda. Ef að við almúginn gætum ekki að velferð smáframleiðanda og látum okkur íslenska matvælaframleiðslu varða hver gerir það þá?

Höfundur skipar 2. sæti á L-listanum og er sveitarstjórnarfulltrúi í Hrunamannahreppi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×