Skoðun

Er það góð hugmynd?

Haraldur F. Gíslason skrifar

Það er ljóst að leikskólar verða ekki starfræktir án kennara. Í tilfelli leikskólans er það bundið í lög að að lágmarki 2/3 hlutar þeirra sem sinna uppeldi og menntun í leikskólum eigi að hafa leyfisbréf. Það þýðir að það er lögbundið að kennarar í leikskólum eigi að hafa menntun. Í dag er það samt þannig að eingöngu tæplega 1/3 hluti þeirra sem starfa í leikskólum hafa til þess tilskilda menntun eins og lögin kveða á um. Það eru ekki nýjar fréttir.

Þessi lagalega krafa um 2/3 er ekki ný. Hún kom fyrst inn í lögin 2008. Fyrir þann tíma voru lögin þannig að allir þeir sem sinntu uppeldi og menntun í leikskólum skyldu hafa til þess menntun. Það má því alveg segja að árið 2008 hafi verið gerð minni krafa til menntunar í leikskólum en á öðrum skólastigum þar sem þetta 2/3 lágmark er ekki til staðar.

Eðlilega má spyrja hvort sveitarfélögin séu að gera nægilega mikið til þess að uppfylla lögin og fjölga kennurum. Auðvitað gera þau helling en það er samt þannig að hlutfallið er ekki að hækka. Stutta svarið hlýtur þá að vera nei. Þau eru ekki að gera nóg.

Sveitarfélögunum finnst ekki gaman að hafa þessa lagalegu kröfu á sér um menntun starfsmanna í leikskólum. Þeim finnst ekki gaman að vera sífellt minnt á að þeim takist ekki að uppfylla þetta lagalega ákvæði. Þess vegna fannst þremur fulltrúum sveitarfélaganna, með væntanlega umboði og eða fyrirmælum frá sínum yfirmönnum, góð hugmynd að leggja það til í starfshópi menntamálaráðuneytisins um styrkingu leikskólastigsins að taka út úr lögunum kröfuna um 2/3 hlutana. Með því hefði sveitarfélögum verið í sjálfvald sett hvort þau ráði inn kennara. Hvernig það átti að styrkja leikskólastigið er hulin ráðgáta. Er það góð hugmynd?

Við þurfum að gera betur hvað varðar starfsaðstæður barna og kennara í leikskólum. Það er staðreynd að víða er rými í leikskólum fyrir börn og starfsfólk ábótavant. Bæta þarf inn í reglugerð um leikskóla lágmarksviðmiði um stærð leikrýmis sem tilheyrir leikskóladeild. Á því hafa sveitarfélögin ekki áhuga þar sem það setur á þau auknar kröfur. Á því hefur löggjafinn ekki heldur áhuga þar sem að sveitarfélögin eru því mótfallin. Er það góð hugmynd?

Við þurfum sums staðar að gera betur í framkvæmd betri vinnutíma í leikskólum, þó sannarlega mörg sveitarfélög hafi tekið málið föstum tökum, og því ber að fagna og hrósa.

Samið var um í kjarasamningi um sérstakt fylgiskjal um framkvæmd betri vinnutíma í leikskólum. Í stuttu máli er fylgiskjal um betri vinnutíma í leikskólum um markvissa vinnu samningsaðila að ná fullri styttingu vinnuvikunnar án þess að það valdi óhóflegu álagi á starfsfólk. Sá mælikvarði sem notaður er á óhóflegt álag er svokallað hlutfall dvalartíma barna af vinnutíma starfsfólks. Í fylgiskjalinu er útlistað og tímasett hvernig markvisst er unnið að þessu verkefni. Það ber að hrósa framkvæmdaaðila verkefnisins, samninganefnd sveitarfélaganna, sem í samvinnu við FL vann faglega að verkefninu. Það var hins vegar skortur á fagmennsku of víða í sveitarfélögunum sjálfum hvað framkvæmd og úrlausn varðar.

Skussaverðlaunin fær Garðabær, sem samkvæmt fylgiskjali um betri vinnutíma í leikskólum, átti að skila inn tímasettri áætlun um hvernig markmiðum fylgiskjalsins yrði náð í síðasta lagi 31. mars síðastliðinn. Enn bólar ekkert áætluninni þrátt fyrir ítrekanir.

Á meðan tekur Garðabær áhættuna á því að „blæða“ kennurum til annarra sveitarfélaga sem er erfitt að hafa samúð með þegar að bærinn stendur sig jafn illa og raun ber vitni hvað þetta verkefni varðar. Er það góð hugmynd?

Við þurfum að gera betur í jöfnun launa á milli markaða. Síðastliðið vor var undirritað áfangasamkomulag vegna jöfnunar launa á milli markaða. Sveitarfélögin lögðu til 948 milljónir í fyrsta skref verkefnisins sem skiptist niður á heildarsamtök opinberu stéttarfélaganna og þar niður á ákveðin starfsheiti. Er það afrakstur vinnu sem kölluð hefur verið 7. greinar vinnan. Þann 19. september 2016 var nefnilega undirritað samkomulag Kennarasambands Íslands, Bandalags háskólamanna og BSRB, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Meðal markmiða samkomulagsins var að jafna bæði lífeyrisréttindi og laun milli almenns og opinbers vinnumarkaðar.

Um jöfnun launa er fjallað í 7. grein samkomulagsins. Þar kemur meðal annars fram að samráðshópur skuli setja fram tillögur um hvernig markmiðum um jöfnun launa skuli náð með útfærslu í kjarasamningum á 6 til 10 árum. Enn hefur ekki náðst samstaða í samráðshópnum um slíkar tillögur, nú um sjö árum frá því að samkomulagið var undirritað. Náist slíkt samkomulag ekki fyrir 15. janúar 2024 mun málið fara á kjarasamningsborðið. Það þýðir í raun að fullreynt er að ná sátt með samtali um málið. Gerist það er því eðlilegt að spyrja sig hvort sveitarfélögin vilji ekki uppfylla undirritað loforð nema um það verði átök. Er það góð hugmynd? Það finnst mér ekki.

Höfundur er formaður Félags leikskólakennara.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×