Skoðun

Ríkis­stjórnin kastar 5 þúsund heimilum út úr vaxta­bóta­kerfinu

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur finnur alltaf leið til að demba aðhaldinu í ríkisfjármálum á lágtekju- og millitekjuheimili en hlífa þeim tekjuhærri.

Í síðustu fjárlögum var þetta gert með því að hækka flöt krónutölugjöld um 7,7 prósent, hækkun sem kom harðast niður á þeim efnaminni og lak beint út í verðlag og verðtryggð lán heimila.

Í fjárlögum næsta árs er m.a. farin sú leið að draga úr stuðningi við heimili sem glíma við íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Ríkisstjórnin ætlar að skerða 5 þúsund heimili út úr vaxtabótakerfinu með því að láta eignamörk kerfisins rýrna að raunvirði. Þannig verður dregið úr stuðningi við skuldsett heimili um 700 milljónir króna milli ára.

Að sama skapi er fólk á leigumarkaði skilið eftir: ekkert bólar á leigubremsu né lagabreytingum til að styrkja réttarstöðu leigjenda þrátt fyrir margítrekuð loforð frá gerð síðustu kjarasamninga. Húsnæðisbætur verða lægri árið 2024 heldur en gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs.

Þetta gerist á sama tíma og vextir og verðbólga eru í hæstu hæðum og æ fleiri heimili eiga erfitt með að ná endum saman.

Þegar Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar spurði innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins um þennan niðurskurð á húsnæðisstuðningi í fyrirspurnatíma á Alþingi svaraði hann m.a. á þá leið að vonandi gætu samtök launafólks samið um nógu miklar launahækkanir til að ekki yrði þörf á „bótum og bótahugsun frá ríkinu“.

Þannig sló ráðherra á útrétta hönd verkalýðshreyfingarinnar sem hefur gert sig líklega til að stilla launakröfum í hóf gegn því að tilfærslukerfin verði styrkt og húsnæðisstuðningur efldur.

Við afgreiðslu síðustu fjárlaga lögðum við í Samfylkingunni fram og fengum samþykkta breytingatillögu um 50 prósenta hækkun á eignaskerðingarmörkum vaxtabóta. Þetta varð til þess að vaxtabætur hækkuðu hjá hátt í 7 þúsund heimilum, sérstaklega hjá ungu fólki með þunga greiðslubyrði, og að meðaltali um meira en 90 þúsund krónur.

Vonandi næst samstaða á Alþingi um að stíga enn frekari skref í sömu átt við afgreiðslu fjárlaga næsta árs frekar en að íþyngja heimilunum með skertum húsnæðisstuðningi þegar síst skyldi.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×