Skoðun

Dómara­málin inn í skóla­kerfið

Þorvaldur Örlygsson skrifar

Einn stærsti þátturinn í knattspyrnu er hlutur dómara. Góð dómgæsla er góð fyrir leikinn og þá ráðast úrslitin á leikmönnum, leikskipulagi, þjálfun og fleiri þeim þáttum sem við unnendur knattspyrnu höfum áhrif á. Léleg dómgæsla hefur að sama skapi meiri áhrif á gang knattspyrnuleikja en margir leiða hugann að. Þjálfarar og leikmenn geta lagt mikið á sig en niðurstaðan samt verið tap, óþarfa meiðsli og rangt hugarfar ef dómgæsla leiksins er ekki í hæsta gæðaflokki. Íslendingar hafa um langt skeið átt marga úrvalsdómara en því miður hefur þróunin verið sú síðustu ár að æ færri leggja fyrir sig dómgæslu og erfitt er oft á tíðum að fá hreinlega dómara í leiki eins og mörg dæmi sanna. Á þessu sviði þurfum við að girða okkur í brók og gera betur. Mun betur.

Ein leið til að bæta dómgæslu er að glæða áhuga yngri kynslóða á þessu skemmtilega starfi og fjölga þannig dómurum til framtíðar. Dómaranámskeið gætu orðið hluti af námsefni og þau þannig komist inn í skólakerfið. Nemendur fengju einingar fyrir slík námskeið sem ekki einungis myndi glæða áhuga á knattspyrnunni í heild, heldur ekki síður á dómgæslunni sem slíkri. KSÍ gæti þannig verið í fararbroddi íslenskra íþróttagreina með beinu samtali og samstarfi við skólayfirvöld og rutt veginn fyrir samskonar námskeið fyrir aðrar greinar.

KSÍ þarf jafnframt að veita íslenskum dómurum öflugan stuðning og aðstoða við skipulag þeirra hjá knattspyrnufélögunum. Með því að efla stuðning, þjálfun og utanumhald fyrir dómara, vera með meiri eftirfylgni í neðri deildum og vera með skýra stefnu um að bæta dómgæslu og koma okkar fremstu dómurum enn lengra á erlendri grundu, mörkum við djúp og skýr skref á þessu sviði.

Við þurfum að standa saman að þessu verkefni. Við þurfum að gera dómgæslu áhugaverðari fyrir fjölbreyttari hóp landsmanna, koma dómaranámskeiðum inn í skólakerfið og taka næsta skref til að gera knattspyrnuna enn betri.

Höfundur er í framboð til formanns KSÍ.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×