Eini fatlaði starfsmaðurinn hjá Netflix Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar 3. febrúar 2024 08:01 Þrátt fyrir að vera einungis 22 ára hefur Magnús þegar landað stórum verkefnum í kvikmyndageiranum og hann hefur aldrei látið fötlun sína stoppa sig í að láta drauma sína rætast. Vísir/Vilhelm „Fatlaðir geta gert hina ýmsu hluti sem aðrir kannski fatta ekki eða bara geta ekki. Og það eiga allir rétt á því að vera þeir sjálfir, bæði fatlaðir og ófatlaðir,“ segir Magnús Orri Arnarsson kvikmyndagerðarmaður. Þrátt fyrir að vera einungis 22 ára gamall hefur hann verið afkastamikill í kvikmynda-, sjónvarps- og auglýsingageiranum undanfarin ár og starfar nú við hljóðblöndun fyrir vinsæla sjónvarpsþætti á Netflix. Magnús, sem margir þekkja úr sjónvarpsþáttunum Með okkar augum á RÚV, er greindur með Tourette og einhverfu en hann lítur ekki á fötlunina sem hindrun, heldur hefur hann lært að nýta hana sér til góðs. Réttindamál fatlaðra er honum hugleikin en hann er afar þakklátur fyrir þau tækifæri sem hann hefur fengið í gegnum tíðina. „Ég hef lært að vera alltaf ég sjálfur, og að gefast aldrei upp í því sem ég tek mér fyrir hendur,“ segir Magnús í samtali við blaðamann Vísis. Öðlaðist gott líf á Íslandi Magnús fæddist árið 2001 á fæðingarheimili í Kalkútta á Indlandi en frá umræddu heimili eru langflest þau börn sem ættleidd hafa verið til Íslands frá Indlandi undanfarin ár. Magnús ásamt foreldrum sínum, þeim Erni B. Sverrissyni og Ingibjörgu G. Marísdóttur.Aðsend Í Kalkútta eru aðstæðurnar allt annað en mannsæmandi; 70 prósent íbúa lifa við eða undir fátækramörkum og fjöldi heimilislausra barna sem búa á götunni skipta tugum þúsunda. Á fæðingarheimilið, þar sem Magnús fæddist, koma barnshafandi einstæðar konur til að fæða börnin sín og skilja þau svo eftir til ættleiðingar. Hins vegar er það þannig að einungis tæplega helmingur barnanna sem fæðast eru ættleidd. Og Magnús var einn af þeim heppnu. Hann var níu mánaða gamall þegar foreldrar hans, Örn. B. Sverrisson og Ingibjörg G. Marísdóttir, ættleiddu hann og komu með hann til Íslands. „Það vildi svo heppilega til að hjón á Íslandi vildu ættleiða barn og ég varð fyrir valinu. Þegar ég kom til Íslands fékk ég að kynnast mínum ættingjum sem ég hef alltaf kallað ættingja mína þó þau séu ekki blóðskyld mér,“ segir hann. Þegar Magnús var lítill strákur var aldrei farið leynt með uppruna hans og hvaðan hann kæmi. „Mamma og pabbi pössuðu líka upp á öll skjöl og pappíra sem þau fengu við ættleiðinguna. Ég á til dæmis enn þá indverska vegabréfið, og ég á meira að segja bolinn sem ég var í þegar þau fengu mig í hendurnar.“ Magnús var níu mánaða gamall þegar hann kom til Íslands.Aðsend Lítið um svör Fyrir nokkrum árum horfði Magnús á sjónvarpsþættina Leitin að upprunanum á Stöð 2 og í kjölfarið vaknaði hjá honum löngun til að vita meira um uppruna sinn. Það reyndist þó hægara sagt en gert. „Eftir að ég horfði á þættina þá fór ég rosalega mikið af velta þessu fyrir mér og á tímabili var ég pínu heltekinn af þessu. Ég vildi vita meira, allavega reyna og mamma hafði meðal annars samband við Íslenska ættleiðingu til að reyna að grennslast fyrir um þetta. En því miður er það algengt að margar af konunum sem koma og fæða börnin sín þarna á fæðingarheimilinu gefa upp rangt nafn á pappírunum, líklegast til að koma í veg fyrir að börnin nái að hafa uppi á þeim í framtíðinni. Það er mjög líklegt að það hafi verið gert í mínu tilfelli. Þess vegna hef ég aldrei fengið að vita hver blóðmóðir mín er, og ég er ekki viss um að ég muni nokkurn tímann fá að vita það.“ Magnús tekur fram að vissulega hafi það verið leiðinlegt að geta ekki fengið botn í málið en það plagar hann ekki í dag. Hann er fyrst og fremst gífurlega þakklátur fyrir að hafa fengið að alast upp á Íslandi, þar sem hann gat öðlast gott og hamingjuríkt líf. Það hefði hann líklegast aldrei fengið í Kalkútta. „Ég hef fengið alveg frábært líf hér á okkar litla Íslandi og er ég mjög heppin að eiga yndislega foreldra sem ég get kallað pabba og mömmu,“ ritaði Magnús í færslu sem hann birti á Facebook á dögunum, þar sem hann tjáði sig stuttlega um reynslu sína af því að vera ættleiddur og alast upp á Íslandi. „Ég elska mömmu og pabba meira en allt, og ég hef kallað þau mömmu og pabba alveg frá því ég byrjaði að tala.“ Í gegnum tíðina hafa margir spurt Magnús frá hvaða landi hann sé og hvers vegna hann sé dökkur á hörund. Hann hefur einnig oft verið spurður hvers vegna hann tali svona góða íslensku. „Ég hef stundum lent í því að fólk sem þekkir mig ekki, þá aðallega eldra fólk, byrjar að tala við mig á ensku, áður en það heyrir mig tala, og verður svo rosalega hissa þegar ég svara þeim á íslensku og segi þeim að ég sé íslenskur,“ segir hann jafnframt. „Stundum er maður reyndar svo mikill kjáni að maður svarar ósjálfrátt á ensku til baka,“ segir hann hlæjandi. „En ég veit líka alveg að þetta er ekkert illa meint hjá fólki, þannig að það særir mig ekkert.“ Hann er líka þakklátur fyrir að það var aldrei farið leynt með uppruna hans þegar hann var yngri. Á árum áður var það ef til vill algengara, skömmin og leyndin var meiri, enda annar tíðarandi í samfélaginu. „Ég held líka að það sé ofboðslega mikilvægt, hjá börnum sem eru ættleidd að þetta sé rætt opinskátt og ekki falið fyrir þeim. Það er örugglega rosalega erfitt að fá þessar upplýsingar allt í einu upp úr þurru.“ Aðspurður segist hann lítið hafa fundið fyrir fordómum eða aðkasti í gegnum tíðina. „En ég hef samt ekki mikið verið að tjá mig mikið um þessi mál,“ segir hann. „En ég hef stundum tekið eftir því að fólk er að gera grín að Indverjum, það eru einhverjar svona steríótýpur af Indverjum og þannig. Það er kannski þess vegna sem ég er ekkert endilega að auglýsa það að ég sé frá Indlandi.“ Magnús lætur málefni fatlaðra sig varða og er mikið í mun að fatlaðir fái sömu tækifæri og aðrir í samfélaginu.Vísir/Vilhelm Drullukúl að vera með einhverfu Líkt og fyrr segir er Magnús greindur með einhverfu og Tourette. En hann sér fötlun sína ekki sem hindrun. Þvert á móti telur hann sig heppinn; fötlunin gerir honum kleift að hugsa öðruvísi en flestir og nálgast hlutina út af frá öðru sjónarhorni. Einhverfugreininguna fékk hann þrettán ára gamall. Líkt og hann bendir á er einhverfa allskonar og einkennin eru mismunandi hjá hverjum og einum. Hann hefur nýtt krafta sína til góðs og hefur meðal annars komið að auglýsingagerð fyrir Einverfusamtökin. „Ég verð að segja að það er bara drullukúl að vera með einhverfu,“ segir hann. „Það sem ég hef alltaf sagt að ef ég væri ekki einhverfur eða með mínar þroskahamlanir þá væri ég ekki að gera þessa frábæru hluti sem ég er að brillera í núna í dag. Þannig ég er bara mjög heppinn með það.“ Þegar Tourette berst í tal segir Magnús að vissulega geti það oft á tíðum verið mjög krefjandi að lifa með Tourette. Aðstæður á borð við margmenni geti valdið einstaklingum með Tourette miklum kvíða, þar sem viðkomandi sé stöðugt hræddur um að gert verði grín að honum vegna kækjanna. Tourette heilkenni kemur yfirleitt í ljós fyrir 18 ára aldur og lýsir sér helst í síendurteknum, ósjálfráðum, snöggum og merkingalausum hreyfingum en eins og Magnús bendir á eru einkennin eru mismunandi á milli einstaklinga. Algengir kækir hjá þeim sem eru með tourette er til dæmis að depla augum, hrukka á sér nefið og gretta sig. Aðspurður um hvernig tourette lýsi sér hjá honum segist Magnús vera með mikið af hljóðkækjum. „Mér finnst það stundum mjög óþægilegt, sérstaklega þegar fólk horfir skringilega á mig, ég lendi mjög oft í því,“ segir hann og bætir við að þó svo að tourette sé ekki lífshættulegur sjúkdómur þá séu þeir sem greindir eru með hann í mikilli hættu á að þróa með sér alvarlegt þunglyndi og jafnvel sjálfsvígshugsanir, enda mæti þeir oft gífurlegu mótlæti og fordómum. „Það getur verið alveg ótrúlega erfitt og leiðinlegt að fæðast með eitt stykki Tourette,“ segir hann. „En eins og ég þá er ég farinn að lifa með því. Af mínu mati þá langar mig bara „semí“ að vera með Tourette. Það getur verið verið erfitt á köflum. En einhvern veginn þá hef ég alltaf bara komist yfir það. Þó að ég haldi stundum að fólk sé að horfa á mig eða hlæja að mér, þá veit ég innst inni að flestir eru farnir að gera sér grein fyrir að fólk með Tourette er mismunandi. Að vera með vissa þroskahömlun í sínu lífi getur verið mjög krefjandi. En það er samt alltaf skemmtilegt þegar nýjar áskoranir koma til manns á hverjum einasta degi. Stundum eru þær mis erfiðar en alltaf nær maður á endanum að sigrast þær. Og ef ég væri ekki með þennan eiginleika í mínu lífi þá væri ég til dæmis ekki kominn svona langt í sjónvarpsgerðinni,“ bætir hann við. Mikilvægt að sýna nærgætni Honum er mikið í mun um að fræða aðra um Tourette og bendir á að það sé mikilvægt sé að sýna aðgát í nærveru sálar. Hann er ávallt tilbúinn til að svara spurningum frá þeim sem leita til hans og vilja vita meira. „Þegar ég sé fólk pósta myndböndum á samfélagsmiðla til þess eins að vera með leiðindi gagnvart fólki með Tourette þá stendur mér ekki á sama. Ef fólk er að læka þessi myndbönd og deila þeim þá er fólki að taka þátt í þessum leiðindum. Fólk með Tourette ræður ekki við hvernig það er,“ segir hann jafnframt. Á seinasta ári hélt Magnús haldið fyrirlestur fyrir ungt fólk þar sem hann sagði meðal annars frá lífi sínu með fötlun, áskorunum sem hann hefur mætt, og störfum sínum tengd sjónvarpi, kvikmyndagerð og réttindabaráttu fatlaðra. Hann segir mörg ungmenni hafa leitað til sín, spurt hann nánar út í störf hans og leitað ráða hjá honum. Hann rifjar upp þegar þrettán ára strákur kom til hans einn daginn. „Hann heilsaði mér og sagðist vera mikill aðdáandi þáttanna Með okkar augum. Hann sagði að ég væri besta fyrirmyndin hans í sjónvarpinu og að hann langaði hann að verða alveg eins og ég þegar hann yrði stór. Þarna táraðist ég.“ Í ljós að kom að strákurinn hafði horft á hvern einasta þátt sem Magnús hafði komið fram í og séð nánast hvert einasta myndband sem Magnús hafði klippt og tekið upp. „Hann sagði hann einnig við mig: „Ég veit ekki hvar ég væri ef þú hefðir ekki byrjað í sjónvarpi og útskýrt fyrir fólki hvað Tourette er.“ Hann var semsagt líka með Tourette og einhverfu, og hafði orðið fyrir miklu einelti.“ Í fremstu röð Magnús var þriggja ára gamall þegar hann byrjaði að æfa fimleika og hann æfði með afrekshópum þar til árið 2015. „Þá byrjaði ég sem iðkandi í grunnhóp Special Olympics en þjálfarinn minn sagði að ég of góður til þess að vera í grunnhóp og þá var mér bent á áfrekshóp Special Olympics í fimleikum og átti ég svo sannarlega heima þar. Ég æfði þar í rúm 1 ár þar til ég vann minn fyrsta Íslandmeistaratitil en ég hafði víst góðan grunn þar sem ég æfði með afrekshópum ófötluðum einstaklingum áður fyrr. Til að gera langa sögu stutta tókst Magnúsi að verja titilinn fimm sinnum í röð. Í kjölfarið var han valinn í landsliðið til þess að keppa á Heimsleikum Special Olymics í Abu Dhabi árið 2019. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru Special Olympics íþróttamót og viðburðir fyrir fólk með þroskahamlanir og er ætlunin sú að allir fái á taka þátt. Heimsleikarnir eru síðan haldnir fjórða hvert ár. Í mars á seinasta ári fór Magnús á sína aðra heimsleika, í Berlín, en í þetta sinn fór hann sem sjónvarpskynnir og tökumaður fyrir hönd RÚV. Þar framleiddi hann ásamt sex öðrum sjónvarpsþátt um þáttöku Íslands á leikunum. Þrátt fyrir miklar annir í vinnu er Magnús enn í dag að æfa á fullu með Special Olympics hópnum og er stefnan sett á næsta stórmót sem fer fram í Ástralíu og eru það Heimsleikarnir sjálfir sem verða haldnir árið 2027. „Ég á samtals átta Íslandsmeistaratitla en mér það ekki vera aðalmálið. Aðalmálið er þessi æðislegu vinahópur sem hefur myndast og er ég mest þakklátur fyrir hann.“ Það má segja að sjónvarpsþættirnir Með okkar augum hafi komið Magnúsi á kortið, og hann er stoltur af því að vera hluti af þeim hópi.Vísir/Vilhelm Boltinn fór að rúlla Magnús byrjaði að læra kvikmyndagerð í framhaldskóla og tók þar áfanga utanbrautar í klippivinnslu, myndbandstökum og í hljóðvinnslu. Eftir útskrift af starfsbraut Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum hélt hann áfram mennta sig sjálfur í kvikmyndagerð, meðal annars hjá Stúdíó Sýrlandi og í gegnum fjarnám við kvikmyndaskóla í Kanada. „Þeir sem hafa verið á starfsbraut geta ekkert alltaf haldið áfram og farið í háskóla, en ég tók af skarið. Og ég er ennþá að mennta mig, ég er ekkert hættur því, enda er ég bara 22 ára og þó svo að ég sé búinn að vinna við þetta í sex ár þá er ég bara rétt að byrja.“ Eftir að Magnús gekk til liðs við hópinn í Með okkar augum varð hann fastagestur á skjám landsmanna og margir kannast við hann þaðan. Hann er að eigin sögn gífurlega stoltur og þakklátur fyrir að vera hluti af þáttum sem hafa þann tilgang að fræða, opna heima og brjóta múra. „Þetta byrjaði eiginlega þannig að árið 2018 fór ég í samstarfsverkefni hjá henni Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur hjá Íþróttasambands fatlaðra og Special Olympics á Íslandi. Verkefnið var að búa til kynningarmyndband á vegum Special Olympics leikanna sem haldnir voru svo í Abu Dhabi árið á eftir. Ég vann það verkefni jafnt og þétt og það var allt tekið upp á Samsung-síma, en það var ekkert að stoppa mig.“ Myndbandið var síðan notað í kynningu hér á landi og í kjölfarið byrjaði Magnús að skapa sér nafn í „bransanum.“ Í kjölfarið hafði Elín Sveinsdóttir, framleiðandi þáttanna Með okkar augum samband við Magnús. Hún sá hvað í honum bjó og bauð honum að ganga til liðs við hópinn. Magnús stökk á tækifærið og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hann hefur nú tekið þátt í fimm seríum af þáttunum. „Árið 2021 byrjaði ég síðan að vinna sem tæknimaður á Hringbraut og sem sem ljósmyndari fyrir Fréttablaðið og ég vann þar jafnt og þétt í tvö ár. Svo bara hélt þetta áfram, það fóru fleiri og fleiri fyrirtæki að hafa samband við mig og biðja mig um að vinna efni, semsagt verkefni tengd upptökum og eftirvinnslu á myndefni.“ Þegar verkefnin voru farin að hlaðast upp varð Magnúsi ljóst að það væri kominn tími til að stofna fyrirtæki í kringum þetta allt. Í kjölfarið varð til MOA productions, þar sem Magnús er eini starfsmaðurinn, allavega enn sem komið. Síðan hann stofnaði fyrirtækið í febrúar 2022 hefur hann fengið hátt í fjörutíu verkefni inn á borð til sín. Hann tekur fram að hann sé mjög þakklátur öllu því trausti sem honum hefur verið sýnt í gegnum tíðina, og aðstoðinni sem hann hefur fengið frá fjölmörgum einstaklingum. „Ég er rosalega þakklátur, öllum þeim sem hafa gefið mér tækifæri á að koma mér alltaf lengra og lengra inn í bransann,“ segir hann og nefnir sérstaklega Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra Speical Olympics á Íslandi. Hún hafi lagt sig fram við að koma honum á framfæri, og það hafi svo sannarlega skilað sér. „Eins og hún hefur margoft sagt við mig: „Framtíðin er þeirra sem láta drauma sína rætast.“ Stefnir hátt Árið 2022 fékk Magnús stórt tækifæri í hendurnar þegar framleiðandi bresku Netflix-þáttanna Heartstopper setti sig í samband við hann. Framleiðandinn hafði séð efni sem Magnús hafði unnið og bauð Magnúsi starf við hljóðvinnslu á Heartstopper-þáttunum. Í kjölfarið vann Magnús hljóðbrot fyrir þætti í annarri seríu þáttaraðarinnar. Það átti síðan eftir að vinda verulega upp á sig. Magnús kom síðan einnig að gerð þriðju þáttaraðarinnar af Heartstopper og var í kjölfarið beðinn um að taka að sér fleiri verkefni fyrir Netflix, þar á meðal hljóðblöndun fyrir Netflix þættina Night Agent. Í dag er hann kominn í 45 prósent verktakavinnu hjá Netflix UK og Netflix Nordic. Magnús fékk seinna meir að vita að hann enn sem komið eini starfsmaðurinn með fötlun hjá Netflix, en fyrirtækið hefur lagt ríkari áherslu á það undanfarin misseri að auka fjölbreytileika innan starfsmannahópsins. Hann sinnir kvikmyndagerðarverkefnunum nær alfarið heimanfrá þar sem hann hefur komið sér upp góðri aðstöðu. Verkefnin eru þess eðlis að hann getur í raun unnið hvar sem er í heiminum, enda auðvelt að taka fjarfundi í Zoom. Hann viðurkennir að það geti verið dálítið einangrandi og einmanalegt að sitja löngum stundum einn við tölvuna og vinna. „Þess vegna ákvað ég að sækja um vinnu í Gerðaskóla, gamla skólanum mínum og í dag er ég að vinna þar alla virka daga frá 11 til 13:30 og er að sjá um krakkana í frístund. Það er rosalega gott að hafa smá rútínu, og vera innan um fólk,“ segir hann. Hann gerir sér grein fyrir að það eru ekki allir fatlaðir einstaklingar sem fá þau tækifæri sem hann hefur fengið. Hann tekur starfi sínu þess vegna alvarlega; leggur upp með að vinna verkefnin fagmannlega og af samviskusemi. „Draumurinn minn er að stækka fyrirtækið mitt, og gera kvikmyndagerðina að fullu starfi. Ég vil halda áfram að mennta mig og bæta mig,“ segir hann og bætir við að það væri ekkert leiðinlegt að fá Óskarinn einhvern daginn. „Ég lít rosalega mikið upp til hennar Hildar Guðnadóttur. Hún er mín fyrirmynd. Hún sýndi mér að þetta er í alvörunni hægt. Ég stefni mjög hátt.“ Magnús stefnir hátt í framtíðinni. Hann er bara rétt að byrja.Vísir/Vilhelm Magnús er einnig virkur á TikTok og Instagram þar sem hann segir frá lífi sínu og ræðir um fatlanir og fjölbreytileika. „Það breytir rosalega miklu, ef fólk sér einhvern sem er kannski með kæki eða hagar sér skringilega, að það spyrja viðkomandi manneskju, tali við hana. Í stað þess að stara á viðkomandi eða fara að hvísla um hann við næsta mann. Um daginn horfði ég á bíómyndina Wonder og þar kom þessi setning: „Þeir sem eru fatlaðir geta ekki breytt því hvernig þeir eru, en fólk getur breytt því hvernig það sér þessa einstaklinga.“ Ósk Magnúsar er að hans saga geti opnað augu fólks fyrr því að fötlun er ekki það sem skilgreinir einstaklinginn. Margir fatlaðir einstaklingar búi yfir ótrúlegum hæfileikum, og með því að gefa fötluðum ekki verðskulduð tækifæri sé samfélagið að fara á mis við gífurlega öfluga starfskrafta. Kvikmyndagerð á Íslandi Málefni fatlaðs fólks Netflix Helgarviðtal Einhverfa Mest lesið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Frægar í fantaformi Lífið „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Lífið Barry Keoghan leikur Bítil Bíó og sjónvarp Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Lífið Fleiri fréttir Húðrútína Birtu Abiba Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Arnaldur tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna Hefndi sín með því að missa meydóminn Spurt var um fyrirbæri sem Tommi á Búllunni framkvæmdi fyrst hér á landi Kappleikar: „Ég er í alvörunni að reyna mitt besta“ Pantaði viskí og kókaín skömmu fyrir andlátið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Umbreyttist í Guðna Ágústsson og Ólaf Ragnar „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Kynbomba og reynsluboltar í Melodifestivalen Söfnunarþáttur UNICEF í beinni útsendingu á þremur stöðvum í einu Segir að gengið hafi verið nærri hjónabandinu, gögnum stolið og allt túlkað á versta veg Lyftu barninu upp eins og hann væri Simbi Lára og lyfjaprinsinn opinbera kynið Tilfinningar þvælast fyrir tiltektinni Frægar í fantaformi Ofurpar úr tennisheiminum á Íslandi Gervigreindin stýrði ferðinni Ein glæsilegasta skvísa landsins komin á fast Gervigreindin heillar Ólaf Ragnar upp úr skónum Reykti pabba sinn Er ESB og Sameinuðu þjóðunum stjórnað af valdaklíku? Dóttir Anítu og Hafþórs komin í heiminn Sér lífið í nýju ljósi eftir móðurmissinn Ragga Sveins snýr aftur til Íslands Sjá meira
Magnús, sem margir þekkja úr sjónvarpsþáttunum Með okkar augum á RÚV, er greindur með Tourette og einhverfu en hann lítur ekki á fötlunina sem hindrun, heldur hefur hann lært að nýta hana sér til góðs. Réttindamál fatlaðra er honum hugleikin en hann er afar þakklátur fyrir þau tækifæri sem hann hefur fengið í gegnum tíðina. „Ég hef lært að vera alltaf ég sjálfur, og að gefast aldrei upp í því sem ég tek mér fyrir hendur,“ segir Magnús í samtali við blaðamann Vísis. Öðlaðist gott líf á Íslandi Magnús fæddist árið 2001 á fæðingarheimili í Kalkútta á Indlandi en frá umræddu heimili eru langflest þau börn sem ættleidd hafa verið til Íslands frá Indlandi undanfarin ár. Magnús ásamt foreldrum sínum, þeim Erni B. Sverrissyni og Ingibjörgu G. Marísdóttur.Aðsend Í Kalkútta eru aðstæðurnar allt annað en mannsæmandi; 70 prósent íbúa lifa við eða undir fátækramörkum og fjöldi heimilislausra barna sem búa á götunni skipta tugum þúsunda. Á fæðingarheimilið, þar sem Magnús fæddist, koma barnshafandi einstæðar konur til að fæða börnin sín og skilja þau svo eftir til ættleiðingar. Hins vegar er það þannig að einungis tæplega helmingur barnanna sem fæðast eru ættleidd. Og Magnús var einn af þeim heppnu. Hann var níu mánaða gamall þegar foreldrar hans, Örn. B. Sverrisson og Ingibjörg G. Marísdóttir, ættleiddu hann og komu með hann til Íslands. „Það vildi svo heppilega til að hjón á Íslandi vildu ættleiða barn og ég varð fyrir valinu. Þegar ég kom til Íslands fékk ég að kynnast mínum ættingjum sem ég hef alltaf kallað ættingja mína þó þau séu ekki blóðskyld mér,“ segir hann. Þegar Magnús var lítill strákur var aldrei farið leynt með uppruna hans og hvaðan hann kæmi. „Mamma og pabbi pössuðu líka upp á öll skjöl og pappíra sem þau fengu við ættleiðinguna. Ég á til dæmis enn þá indverska vegabréfið, og ég á meira að segja bolinn sem ég var í þegar þau fengu mig í hendurnar.“ Magnús var níu mánaða gamall þegar hann kom til Íslands.Aðsend Lítið um svör Fyrir nokkrum árum horfði Magnús á sjónvarpsþættina Leitin að upprunanum á Stöð 2 og í kjölfarið vaknaði hjá honum löngun til að vita meira um uppruna sinn. Það reyndist þó hægara sagt en gert. „Eftir að ég horfði á þættina þá fór ég rosalega mikið af velta þessu fyrir mér og á tímabili var ég pínu heltekinn af þessu. Ég vildi vita meira, allavega reyna og mamma hafði meðal annars samband við Íslenska ættleiðingu til að reyna að grennslast fyrir um þetta. En því miður er það algengt að margar af konunum sem koma og fæða börnin sín þarna á fæðingarheimilinu gefa upp rangt nafn á pappírunum, líklegast til að koma í veg fyrir að börnin nái að hafa uppi á þeim í framtíðinni. Það er mjög líklegt að það hafi verið gert í mínu tilfelli. Þess vegna hef ég aldrei fengið að vita hver blóðmóðir mín er, og ég er ekki viss um að ég muni nokkurn tímann fá að vita það.“ Magnús tekur fram að vissulega hafi það verið leiðinlegt að geta ekki fengið botn í málið en það plagar hann ekki í dag. Hann er fyrst og fremst gífurlega þakklátur fyrir að hafa fengið að alast upp á Íslandi, þar sem hann gat öðlast gott og hamingjuríkt líf. Það hefði hann líklegast aldrei fengið í Kalkútta. „Ég hef fengið alveg frábært líf hér á okkar litla Íslandi og er ég mjög heppin að eiga yndislega foreldra sem ég get kallað pabba og mömmu,“ ritaði Magnús í færslu sem hann birti á Facebook á dögunum, þar sem hann tjáði sig stuttlega um reynslu sína af því að vera ættleiddur og alast upp á Íslandi. „Ég elska mömmu og pabba meira en allt, og ég hef kallað þau mömmu og pabba alveg frá því ég byrjaði að tala.“ Í gegnum tíðina hafa margir spurt Magnús frá hvaða landi hann sé og hvers vegna hann sé dökkur á hörund. Hann hefur einnig oft verið spurður hvers vegna hann tali svona góða íslensku. „Ég hef stundum lent í því að fólk sem þekkir mig ekki, þá aðallega eldra fólk, byrjar að tala við mig á ensku, áður en það heyrir mig tala, og verður svo rosalega hissa þegar ég svara þeim á íslensku og segi þeim að ég sé íslenskur,“ segir hann jafnframt. „Stundum er maður reyndar svo mikill kjáni að maður svarar ósjálfrátt á ensku til baka,“ segir hann hlæjandi. „En ég veit líka alveg að þetta er ekkert illa meint hjá fólki, þannig að það særir mig ekkert.“ Hann er líka þakklátur fyrir að það var aldrei farið leynt með uppruna hans þegar hann var yngri. Á árum áður var það ef til vill algengara, skömmin og leyndin var meiri, enda annar tíðarandi í samfélaginu. „Ég held líka að það sé ofboðslega mikilvægt, hjá börnum sem eru ættleidd að þetta sé rætt opinskátt og ekki falið fyrir þeim. Það er örugglega rosalega erfitt að fá þessar upplýsingar allt í einu upp úr þurru.“ Aðspurður segist hann lítið hafa fundið fyrir fordómum eða aðkasti í gegnum tíðina. „En ég hef samt ekki mikið verið að tjá mig mikið um þessi mál,“ segir hann. „En ég hef stundum tekið eftir því að fólk er að gera grín að Indverjum, það eru einhverjar svona steríótýpur af Indverjum og þannig. Það er kannski þess vegna sem ég er ekkert endilega að auglýsa það að ég sé frá Indlandi.“ Magnús lætur málefni fatlaðra sig varða og er mikið í mun að fatlaðir fái sömu tækifæri og aðrir í samfélaginu.Vísir/Vilhelm Drullukúl að vera með einhverfu Líkt og fyrr segir er Magnús greindur með einhverfu og Tourette. En hann sér fötlun sína ekki sem hindrun. Þvert á móti telur hann sig heppinn; fötlunin gerir honum kleift að hugsa öðruvísi en flestir og nálgast hlutina út af frá öðru sjónarhorni. Einhverfugreininguna fékk hann þrettán ára gamall. Líkt og hann bendir á er einhverfa allskonar og einkennin eru mismunandi hjá hverjum og einum. Hann hefur nýtt krafta sína til góðs og hefur meðal annars komið að auglýsingagerð fyrir Einverfusamtökin. „Ég verð að segja að það er bara drullukúl að vera með einhverfu,“ segir hann. „Það sem ég hef alltaf sagt að ef ég væri ekki einhverfur eða með mínar þroskahamlanir þá væri ég ekki að gera þessa frábæru hluti sem ég er að brillera í núna í dag. Þannig ég er bara mjög heppinn með það.“ Þegar Tourette berst í tal segir Magnús að vissulega geti það oft á tíðum verið mjög krefjandi að lifa með Tourette. Aðstæður á borð við margmenni geti valdið einstaklingum með Tourette miklum kvíða, þar sem viðkomandi sé stöðugt hræddur um að gert verði grín að honum vegna kækjanna. Tourette heilkenni kemur yfirleitt í ljós fyrir 18 ára aldur og lýsir sér helst í síendurteknum, ósjálfráðum, snöggum og merkingalausum hreyfingum en eins og Magnús bendir á eru einkennin eru mismunandi á milli einstaklinga. Algengir kækir hjá þeim sem eru með tourette er til dæmis að depla augum, hrukka á sér nefið og gretta sig. Aðspurður um hvernig tourette lýsi sér hjá honum segist Magnús vera með mikið af hljóðkækjum. „Mér finnst það stundum mjög óþægilegt, sérstaklega þegar fólk horfir skringilega á mig, ég lendi mjög oft í því,“ segir hann og bætir við að þó svo að tourette sé ekki lífshættulegur sjúkdómur þá séu þeir sem greindir eru með hann í mikilli hættu á að þróa með sér alvarlegt þunglyndi og jafnvel sjálfsvígshugsanir, enda mæti þeir oft gífurlegu mótlæti og fordómum. „Það getur verið alveg ótrúlega erfitt og leiðinlegt að fæðast með eitt stykki Tourette,“ segir hann. „En eins og ég þá er ég farinn að lifa með því. Af mínu mati þá langar mig bara „semí“ að vera með Tourette. Það getur verið verið erfitt á köflum. En einhvern veginn þá hef ég alltaf bara komist yfir það. Þó að ég haldi stundum að fólk sé að horfa á mig eða hlæja að mér, þá veit ég innst inni að flestir eru farnir að gera sér grein fyrir að fólk með Tourette er mismunandi. Að vera með vissa þroskahömlun í sínu lífi getur verið mjög krefjandi. En það er samt alltaf skemmtilegt þegar nýjar áskoranir koma til manns á hverjum einasta degi. Stundum eru þær mis erfiðar en alltaf nær maður á endanum að sigrast þær. Og ef ég væri ekki með þennan eiginleika í mínu lífi þá væri ég til dæmis ekki kominn svona langt í sjónvarpsgerðinni,“ bætir hann við. Mikilvægt að sýna nærgætni Honum er mikið í mun um að fræða aðra um Tourette og bendir á að það sé mikilvægt sé að sýna aðgát í nærveru sálar. Hann er ávallt tilbúinn til að svara spurningum frá þeim sem leita til hans og vilja vita meira. „Þegar ég sé fólk pósta myndböndum á samfélagsmiðla til þess eins að vera með leiðindi gagnvart fólki með Tourette þá stendur mér ekki á sama. Ef fólk er að læka þessi myndbönd og deila þeim þá er fólki að taka þátt í þessum leiðindum. Fólk með Tourette ræður ekki við hvernig það er,“ segir hann jafnframt. Á seinasta ári hélt Magnús haldið fyrirlestur fyrir ungt fólk þar sem hann sagði meðal annars frá lífi sínu með fötlun, áskorunum sem hann hefur mætt, og störfum sínum tengd sjónvarpi, kvikmyndagerð og réttindabaráttu fatlaðra. Hann segir mörg ungmenni hafa leitað til sín, spurt hann nánar út í störf hans og leitað ráða hjá honum. Hann rifjar upp þegar þrettán ára strákur kom til hans einn daginn. „Hann heilsaði mér og sagðist vera mikill aðdáandi þáttanna Með okkar augum. Hann sagði að ég væri besta fyrirmyndin hans í sjónvarpinu og að hann langaði hann að verða alveg eins og ég þegar hann yrði stór. Þarna táraðist ég.“ Í ljós að kom að strákurinn hafði horft á hvern einasta þátt sem Magnús hafði komið fram í og séð nánast hvert einasta myndband sem Magnús hafði klippt og tekið upp. „Hann sagði hann einnig við mig: „Ég veit ekki hvar ég væri ef þú hefðir ekki byrjað í sjónvarpi og útskýrt fyrir fólki hvað Tourette er.“ Hann var semsagt líka með Tourette og einhverfu, og hafði orðið fyrir miklu einelti.“ Í fremstu röð Magnús var þriggja ára gamall þegar hann byrjaði að æfa fimleika og hann æfði með afrekshópum þar til árið 2015. „Þá byrjaði ég sem iðkandi í grunnhóp Special Olympics en þjálfarinn minn sagði að ég of góður til þess að vera í grunnhóp og þá var mér bent á áfrekshóp Special Olympics í fimleikum og átti ég svo sannarlega heima þar. Ég æfði þar í rúm 1 ár þar til ég vann minn fyrsta Íslandmeistaratitil en ég hafði víst góðan grunn þar sem ég æfði með afrekshópum ófötluðum einstaklingum áður fyrr. Til að gera langa sögu stutta tókst Magnúsi að verja titilinn fimm sinnum í röð. Í kjölfarið var han valinn í landsliðið til þess að keppa á Heimsleikum Special Olymics í Abu Dhabi árið 2019. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru Special Olympics íþróttamót og viðburðir fyrir fólk með þroskahamlanir og er ætlunin sú að allir fái á taka þátt. Heimsleikarnir eru síðan haldnir fjórða hvert ár. Í mars á seinasta ári fór Magnús á sína aðra heimsleika, í Berlín, en í þetta sinn fór hann sem sjónvarpskynnir og tökumaður fyrir hönd RÚV. Þar framleiddi hann ásamt sex öðrum sjónvarpsþátt um þáttöku Íslands á leikunum. Þrátt fyrir miklar annir í vinnu er Magnús enn í dag að æfa á fullu með Special Olympics hópnum og er stefnan sett á næsta stórmót sem fer fram í Ástralíu og eru það Heimsleikarnir sjálfir sem verða haldnir árið 2027. „Ég á samtals átta Íslandsmeistaratitla en mér það ekki vera aðalmálið. Aðalmálið er þessi æðislegu vinahópur sem hefur myndast og er ég mest þakklátur fyrir hann.“ Það má segja að sjónvarpsþættirnir Með okkar augum hafi komið Magnúsi á kortið, og hann er stoltur af því að vera hluti af þeim hópi.Vísir/Vilhelm Boltinn fór að rúlla Magnús byrjaði að læra kvikmyndagerð í framhaldskóla og tók þar áfanga utanbrautar í klippivinnslu, myndbandstökum og í hljóðvinnslu. Eftir útskrift af starfsbraut Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum hélt hann áfram mennta sig sjálfur í kvikmyndagerð, meðal annars hjá Stúdíó Sýrlandi og í gegnum fjarnám við kvikmyndaskóla í Kanada. „Þeir sem hafa verið á starfsbraut geta ekkert alltaf haldið áfram og farið í háskóla, en ég tók af skarið. Og ég er ennþá að mennta mig, ég er ekkert hættur því, enda er ég bara 22 ára og þó svo að ég sé búinn að vinna við þetta í sex ár þá er ég bara rétt að byrja.“ Eftir að Magnús gekk til liðs við hópinn í Með okkar augum varð hann fastagestur á skjám landsmanna og margir kannast við hann þaðan. Hann er að eigin sögn gífurlega stoltur og þakklátur fyrir að vera hluti af þáttum sem hafa þann tilgang að fræða, opna heima og brjóta múra. „Þetta byrjaði eiginlega þannig að árið 2018 fór ég í samstarfsverkefni hjá henni Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur hjá Íþróttasambands fatlaðra og Special Olympics á Íslandi. Verkefnið var að búa til kynningarmyndband á vegum Special Olympics leikanna sem haldnir voru svo í Abu Dhabi árið á eftir. Ég vann það verkefni jafnt og þétt og það var allt tekið upp á Samsung-síma, en það var ekkert að stoppa mig.“ Myndbandið var síðan notað í kynningu hér á landi og í kjölfarið byrjaði Magnús að skapa sér nafn í „bransanum.“ Í kjölfarið hafði Elín Sveinsdóttir, framleiðandi þáttanna Með okkar augum samband við Magnús. Hún sá hvað í honum bjó og bauð honum að ganga til liðs við hópinn. Magnús stökk á tækifærið og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hann hefur nú tekið þátt í fimm seríum af þáttunum. „Árið 2021 byrjaði ég síðan að vinna sem tæknimaður á Hringbraut og sem sem ljósmyndari fyrir Fréttablaðið og ég vann þar jafnt og þétt í tvö ár. Svo bara hélt þetta áfram, það fóru fleiri og fleiri fyrirtæki að hafa samband við mig og biðja mig um að vinna efni, semsagt verkefni tengd upptökum og eftirvinnslu á myndefni.“ Þegar verkefnin voru farin að hlaðast upp varð Magnúsi ljóst að það væri kominn tími til að stofna fyrirtæki í kringum þetta allt. Í kjölfarið varð til MOA productions, þar sem Magnús er eini starfsmaðurinn, allavega enn sem komið. Síðan hann stofnaði fyrirtækið í febrúar 2022 hefur hann fengið hátt í fjörutíu verkefni inn á borð til sín. Hann tekur fram að hann sé mjög þakklátur öllu því trausti sem honum hefur verið sýnt í gegnum tíðina, og aðstoðinni sem hann hefur fengið frá fjölmörgum einstaklingum. „Ég er rosalega þakklátur, öllum þeim sem hafa gefið mér tækifæri á að koma mér alltaf lengra og lengra inn í bransann,“ segir hann og nefnir sérstaklega Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra Speical Olympics á Íslandi. Hún hafi lagt sig fram við að koma honum á framfæri, og það hafi svo sannarlega skilað sér. „Eins og hún hefur margoft sagt við mig: „Framtíðin er þeirra sem láta drauma sína rætast.“ Stefnir hátt Árið 2022 fékk Magnús stórt tækifæri í hendurnar þegar framleiðandi bresku Netflix-þáttanna Heartstopper setti sig í samband við hann. Framleiðandinn hafði séð efni sem Magnús hafði unnið og bauð Magnúsi starf við hljóðvinnslu á Heartstopper-þáttunum. Í kjölfarið vann Magnús hljóðbrot fyrir þætti í annarri seríu þáttaraðarinnar. Það átti síðan eftir að vinda verulega upp á sig. Magnús kom síðan einnig að gerð þriðju þáttaraðarinnar af Heartstopper og var í kjölfarið beðinn um að taka að sér fleiri verkefni fyrir Netflix, þar á meðal hljóðblöndun fyrir Netflix þættina Night Agent. Í dag er hann kominn í 45 prósent verktakavinnu hjá Netflix UK og Netflix Nordic. Magnús fékk seinna meir að vita að hann enn sem komið eini starfsmaðurinn með fötlun hjá Netflix, en fyrirtækið hefur lagt ríkari áherslu á það undanfarin misseri að auka fjölbreytileika innan starfsmannahópsins. Hann sinnir kvikmyndagerðarverkefnunum nær alfarið heimanfrá þar sem hann hefur komið sér upp góðri aðstöðu. Verkefnin eru þess eðlis að hann getur í raun unnið hvar sem er í heiminum, enda auðvelt að taka fjarfundi í Zoom. Hann viðurkennir að það geti verið dálítið einangrandi og einmanalegt að sitja löngum stundum einn við tölvuna og vinna. „Þess vegna ákvað ég að sækja um vinnu í Gerðaskóla, gamla skólanum mínum og í dag er ég að vinna þar alla virka daga frá 11 til 13:30 og er að sjá um krakkana í frístund. Það er rosalega gott að hafa smá rútínu, og vera innan um fólk,“ segir hann. Hann gerir sér grein fyrir að það eru ekki allir fatlaðir einstaklingar sem fá þau tækifæri sem hann hefur fengið. Hann tekur starfi sínu þess vegna alvarlega; leggur upp með að vinna verkefnin fagmannlega og af samviskusemi. „Draumurinn minn er að stækka fyrirtækið mitt, og gera kvikmyndagerðina að fullu starfi. Ég vil halda áfram að mennta mig og bæta mig,“ segir hann og bætir við að það væri ekkert leiðinlegt að fá Óskarinn einhvern daginn. „Ég lít rosalega mikið upp til hennar Hildar Guðnadóttur. Hún er mín fyrirmynd. Hún sýndi mér að þetta er í alvörunni hægt. Ég stefni mjög hátt.“ Magnús stefnir hátt í framtíðinni. Hann er bara rétt að byrja.Vísir/Vilhelm Magnús er einnig virkur á TikTok og Instagram þar sem hann segir frá lífi sínu og ræðir um fatlanir og fjölbreytileika. „Það breytir rosalega miklu, ef fólk sér einhvern sem er kannski með kæki eða hagar sér skringilega, að það spyrja viðkomandi manneskju, tali við hana. Í stað þess að stara á viðkomandi eða fara að hvísla um hann við næsta mann. Um daginn horfði ég á bíómyndina Wonder og þar kom þessi setning: „Þeir sem eru fatlaðir geta ekki breytt því hvernig þeir eru, en fólk getur breytt því hvernig það sér þessa einstaklinga.“ Ósk Magnúsar er að hans saga geti opnað augu fólks fyrr því að fötlun er ekki það sem skilgreinir einstaklinginn. Margir fatlaðir einstaklingar búi yfir ótrúlegum hæfileikum, og með því að gefa fötluðum ekki verðskulduð tækifæri sé samfélagið að fara á mis við gífurlega öfluga starfskrafta.
Kvikmyndagerð á Íslandi Málefni fatlaðs fólks Netflix Helgarviðtal Einhverfa Mest lesið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Frægar í fantaformi Lífið „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Lífið Barry Keoghan leikur Bítil Bíó og sjónvarp Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Lífið Fleiri fréttir Húðrútína Birtu Abiba Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Inga Sæland vill komast í fjármálaráðuneytið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Arnaldur tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna Hefndi sín með því að missa meydóminn Spurt var um fyrirbæri sem Tommi á Búllunni framkvæmdi fyrst hér á landi Kappleikar: „Ég er í alvörunni að reyna mitt besta“ Pantaði viskí og kókaín skömmu fyrir andlátið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Umbreyttist í Guðna Ágústsson og Ólaf Ragnar „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Kynbomba og reynsluboltar í Melodifestivalen Söfnunarþáttur UNICEF í beinni útsendingu á þremur stöðvum í einu Segir að gengið hafi verið nærri hjónabandinu, gögnum stolið og allt túlkað á versta veg Lyftu barninu upp eins og hann væri Simbi Lára og lyfjaprinsinn opinbera kynið Tilfinningar þvælast fyrir tiltektinni Frægar í fantaformi Ofurpar úr tennisheiminum á Íslandi Gervigreindin stýrði ferðinni Ein glæsilegasta skvísa landsins komin á fast Gervigreindin heillar Ólaf Ragnar upp úr skónum Reykti pabba sinn Er ESB og Sameinuðu þjóðunum stjórnað af valdaklíku? Dóttir Anítu og Hafþórs komin í heiminn Sér lífið í nýju ljósi eftir móðurmissinn Ragga Sveins snýr aftur til Íslands Sjá meira