Innlent

Lykilsönnunargagn ófundið í lífs­hættu­legri skot­á­rás

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Blóð úr hinum skotna í anddyri fjölbýlishúss við Silfratjörn í Úlfarsárdal.
Blóð úr hinum skotna í anddyri fjölbýlishúss við Silfratjörn í Úlfarsárdal. Stöð 2/Arnar

Héraðssaksóknari hefur ákært Shokri Keryo, karlmann á 21. aldursári, fyrir tilraun til manndráps við Silfratjörn í Úlfarsárdal í nóvember síðastliðnum. Miskabótakrafa fimm einstaklinga sem ýmist urðu fyrir skoti eða stóð ógn af skotunum hljóðar upp á samanlagt níu milljónir króna. Skotvopnið er ófundið.

Shokri er ákærður fyrir tilraun til manndráps, hættubrot og eignaspjöll með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 2. nóvember í fyrra, á gatnamótum Skyggnisbrautar og Silfratjarnar, skotið fjórum skotum í áttina að fjórum ónafngreindum einstaklingum.

Fram kemur í ákærunni að skotvopnið sem beitt var og væri því lykilsönnunargagn í málinu sé ófundið. Þar segir að Shokri hafi beint óþekktu skotvopni með níu millimetra hlaupi í átt að þeim þar sem þeir stóðu utandyra við fjölbýlishús við Silfratjörn og hleypt af byssunni. Skot hafnaði í fæti karlmanns, annað í bifreið sem stóð framan við húsið og tvö í íbúðarhúsnæði handan götunnar.

Fram kom í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Shokri á dögunum að hann hefði skotið úr bíl. Sjö voru upphaflega handteknir vegna málsins, sex úrskurðaðir í gæsluvarðhald, fljótlega fækkaði þeim niður í tvo og enn situr Shokri í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Sá sem varð fyrir skoti, Gabríel Douane sem komist hefur endurtekið í kast við lögin undanfarin ár, hlaut sár á hægri sköflung. Þá brotnaði afturrúða og myndaðist dæld í afturhlera bílsins. Rúða botnaði í íbúð fjölskyldu og hafnaði skotið í vegg í íbúð þar sem fjögurra manna fjölskylda svaf, þar á meðal fjögurra og átta ára börn.

Með háttsemi sinni er Shokri sagður hafa stofnað lífi og heilsu fólksins í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.

Krafist er 3,5 milljóna króna í miskabætur fyrir þann sem varð fyrir skoti. Þrír aðrir karlmenn sem skotið var í áttina að fara ýmist fram á eina, eina og hálfa eða tvær milljónir króna í miskabætur.

Þá fer kona, sem að líkindum var íbúi í íbúðinni þar sem rúðan brotnaði, fram á milljón króna í miskabætur.

Mikið af púðri á peysu og hönskum Shokri

Í nýlegum gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Shokri segir að lögregla hafi aflað upptaka í grennd við árásina og rakið ferðir mannsins og þeirra sem voru með honum. Fullyrt er að Shokri þekkist á upptökum og að fyrir liggi framburðir um að hann hafi verið á vettvangi og skotið úr byssunni. Að því sem fram kemur í úrskurðinum var Shokri ekki einn í bílnum.

Jafnframt kemur fram að Shokri hafi fyrir árásina haft aðgang að skotvopni sambærilegu því sem er talið að hafi verið notað við árásina. Niðurstöður úr DNA rannsókn og púðurleyfarannsókn benda til þess að mikið var af púðurleyfum á peysu mannsins og á hönskum sem maðurinn klæddist samkvæmt DNA rannsókninni.

Í skýrslu sem var tekin af Shokri daginn eftir árásina kvaðst hann ekkert vita um málið. Hann sagði jafnframt að það kæmi lögreglu ekki við hvar hann hefði verið nóttina þegar árásin átti sér stað. Í annarri skýrslutöku nokkrum dögum síðar neitaði hann að mestu að tjá sig. Það var síðan í enn einni skýrslutöku í janúar þar sem niðurstöður púðurrannsóknanna voru bornar undir hann. Hann kvaðst hafa mátað hanskana en neitaði að tjá sig að öðru leyti.

Shokri bar fyrir sig að hafa setið í framsæti bílsins og vísar til framburðs eins brotaþola mannsins sem sagði að skotið hafi verið úr aftursæti bílsins. Bent er á að hanskarnir sem um ræðir hafi fundist á heimili annars einstaklings, og að DNA úr Shokri væri vegna þess að hann hafi handleikið þá. Þar að auki er bent á að mun minni púðurleyfar hafi verið á peysunni en á hönskunum.

Litlar upplýsingar er að finna um ákærða Shokri Keryo á vefmiðlum. Hann virðist óvirkur á samfélagsmiðlum og ekki er að finna dóm á hendur honum í gagnaskrá dómstólanna.

Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur á morgun.


Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á netfangið [email protected] eða í tölvupósti á einstaka blaðamenn. Fullum trúnaði er heitið.



Tengdar fréttir

Hnífstunguárás í nótt sögð tengjast árásinni á Litla-Hrauni

Hnífstunguárás sem framin var í nótt tengist annarri árás á Litla-Hrauni í gær. Þetta herma heimildir Ríkisútvarpsins. Eggvopni var sömuleiðis beitt í árásinni á Litla-Hrauni og sú árás er sögð tengjast skotárásinni í Úlfarsárdal í byrjun mánaðar. 

Þremur sleppt en gæsluvarðhald tveggja framlengt

Tveir hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í tengslum við skotárásina í Silfratjörn í Úlfarsárdal í byrjun mánaðar. Þremur var sleppt úr haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×