Skoðun

Essin

Trausti Hjálmarsson skrifar

Bændur voru í essinu sínu þegar þeir komu saman á nýlegum deildafundi búgreinanna á Hilton í Reykjavík. Í þeim er mikill sóknarhugur enda augljós meðbyr úr ýmsum áttum á öllum vígstöðvum. Stemningin leyndi sér ekki á fundum deildanna og hún sveif ekki síður yfir vötnum „utan dagskrár“ þegar talið barst að formanns- og stjórnarkjörinu sem framundan er hjá Bændasamtökunum.

Í öllu því spjalli finnst mér ég skynja skýr skilaboð. Þau eru krafa um hreinskiptið samtal, aukið samstarf og órofa samstöðu innan Bændahreyfingarinnar. Sem sagt „essin þrjú“. Þetta eru einföld aðalatriði. Langt í frá flókin en samt svo augljós forsenda þess að við náum árangri.

Það var afar þýðingarmikill áfangi þegar það tókst að sameina allar hinar ólíku búgreinar undir merkjum Bændasamtakanna. Verkefnið hér eftir sem hingað til er að efla samstöðu hinna ólíku búgreina um sameiginleg samtök okkar bænda. Það er langstærsta áskorun þeirrar forystu sem tekur við í framhaldi stjórnarkjörsins.

Það er brýnt að valdið yfir hagsmunamálum landbúnaðarins sé hjá bændum sjálfum. Grasrótin heima í héraði hefur skýra sýn á mikilvægustu málefni sín og forystumönnum bænda ber að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess hrinda áherslumálum þeirra i framkvæmd. Ég treysti engu betur en lýðræðislegum ákvörðunum bænda til þess að leggja línurnar fyrir formann og stjórn Bændasamtaka Íslands. Í þeim efnum er hægt að gera betur og það vil ég gera.

Formaður Bændasamtaka Íslands á að upplifa sig, hugsa og haga sér eins og starfsmaður bænda. Stjórn samtakanna á að ganga sömu erinda. Essin þrjú eru jafn mikilvæg innan veggja stjórnarherbergisins eins og utan þeirra: Samtal, samstarf og samstaða.

Höfundur er frambjóðandi til formennsku í Bændasamtökum Íslands.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×