Skoðun

Ekki brenni­merkja börn!

Viðar Eggertsson skrifar

Það er mik­il­vægt að öll börn njóti þess að vera í skóla og það sé ekki kvíðvæn­legt að mæta öðrum börn­um þar. Það er lífsnauðsynlegt fyrir börn að þau öll njóti jafn­ræðis og góðs at­læt­is og að skól­inn verði ekki jarðsprengju­svæði mis­mun­un­ar og einelt­is.

Einu sinni sat ég til borðs í há­deg­is­verði með stjórn­anda sviðslista­stofn­un­ar­inn­ar Kenn­e­dy Center í Washingt­on í boði hans. Það fór mjög vel á með okk­ur, en það runnu á mig tvær grím­ur þegar hann fór að tala um „ópí­um“. Hversu mik­il­vægt það væri að fara vel með „ópí­um“ sem manni væri trúað fyr­ir. Hann hélt áfram þessu tali eins og ekk­ert væri og ég varð æ kind­ar­legri. Hvert var maður­inn að fara?!

Það var liðið ansi langt á orðræðuna þar til rann upp fyr­ir mér ljós. Maður­inn var ekki að tala um eit­ur­lyfið ópí­um! Hann var að tala um al­manna­fé sem er á ensku „Ot­her Peop­les Mo­ney“, skammstafað OPM. Allt annað mál!

Nú vor­um við sko að tala sam­an. Ég gat tekið heils­hug­ar und­ir með hon­um að ef maður er í þeirri stöðu að vera trúað fyr­ir al­manna­fé þá ber manni að um­gang­ast það af nær­gætni og virðingu. Útdeil­ir því af sterkri siðferðis­vit­und og rétt­lætis­kennd. Eyðir því ekki held­ur ver því til góðra verka/​góðverka.

Sterk siðferðis­vit­und

Al­mennt er ég hlynnt­ur því að op­in­bert fé, skatt­fé, sé notað til tekju­jöfn­un­ar og ráðstöf­un þess til ein­stak­linga sé þá tekju­tengd. En það er ekki ein­hlítt og á ekki að vera það. Þar þarf einnig að koma til sterk siðferðis­vit­und. Ekki setja sig bara í hin auðveldu og já­kvæðu spor gef­and­ans, held­ur og ekki síður, í spor þess sem sit­ur uppi með hlut­skipti þiggj­and­ans. Það get­ur verið afar erfitt hlut­skipti að vera þiggj­andi, ekki síst þegar bent er á þig og þú merkt­ur hlut­skipti þínu. Siðferði þess sem gef­ur er afar mik­il­vægt, að það sé vandað og gjöf­in verði ekki til vansa fyr­ir þann sem þigg­ur í neyð.

Börn eru viðkvæm­ur hóp­ur

Þegar kem­ur að börn­um þá þarf að ráðstafa al­manna­fé til þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu þannig að það verði þeim ekki til hneisu. Börn eru sjálf­stæðir ein­stak­ling­ar sem bera enga ábyrgð á fjár­hags­legri stöðu for­eldra sinna.

Um 13% barna á Íslandi al­ast upp í fá­tækt. Það eru um 10.000 börn. Það er þeim erfitt að skera sig ekki úr. Því flest þeirra eru flesta daga inn­an um önn­ur börn og sam­an­b­urður á stöðu verður oft svo aug­ljós að þau verða ber­skjölduð. Þau skera sig auðveld­lega úr og það er okk­ar sem sam­fé­lag að vera opin fyr­ir því og bregðast þannig við að þau þurfi ekki að upp­lifa dag­lega hneisu vegna þeirr­ar stöðu sem þau eru í, stöðu sem þau bera enga ábyrgð á.

Skól­inn á ekki að vera jarðsprengju­svæði

Það er mik­il­vægt að öll börn njóti þess að vera í skóla og það sé ekki kvíðvæn­legt að mæta öðrum börn­um þar. Að öll börn njóti jafn­ræðis og góðs at­læt­is og að skól­inn verði ekki jarðsprengju­svæði mis­mun­un­ar og einelt­is. Börn eru auðveld­lega út­sett fyr­ir slíku ef við gríp­um ekki inn í. Skyldu­nám á ekki að vera þeim kval­ræði vegna fá­tækt­ar sem ger­ir þau út­sett fyr­ir dag­legri niður­læg­ingu. Öll börn eiga að njóta gjald­frjálsr­ar skóla­göngu og jafn­ræðis án til­lits til fjár­hags for­ráðamanna.

Það er mikið fagnaðarefni að sitj­andi stjórn­völd skuli loks vera til­bú­in til að gefa í til­færslu­kerfi okk­ar. Stærstu tíðind­in eru frí­ar skóla­máltíðir fyr­ir öll börn, án til­lits til efna­hags for­eldra. Börn fá að njóta vaf­ans.

Brenni­merkj­um þau

Ekki síður eru það stór tíðindi, en þó ekki svo óvænt, að áhrifa­mikið sveit­ar­stjórn­ar­fólk á veg­um Sjálf­stæðis­flokks­ins vítt og breitt um allt land rís upp unn­vörp­um og bregst illa við og hef­ur uppi há­reysti gegn þessu fyr­ir­komu­lagi. Þeim finnst að ekki eigi að leggja öll börn að jöfnu. Stéttamun­ur­inn verði að sjást og frétt­ast. Aðeins börn­um frá fá­tæk­um heim­il­um eigi að vera skammtað á diska af drýldni skammt­ar­ans og yf­ir­læti: „Sko, hvað ég er góður við aum­ingj­ann, þetta fær hann ókeyp­is af því að ég er svo góður.“

Því það skal sko sjást hvað það er svo miklu sælla að gefa en þiggja. Það eigi að sjást skýrt í skóla­mötu­neyt­inu, upp á hvern dag, hvaða börn eru frá fá­tæk­um heim­il­um og þiggja ölm­us­ur. Niður­lægja þau. Minna þau á og aðra hver þau séu. Brenni­merkja þau fá­tækt.

Ég var eitt sinn fátækt barn svo ég þekki það af eigin raun sem barn að vera ofurseldur „góðmennsku“ Sjálfstæðisflokksins og það var raun, sársaukafull raun.

Höfundur er leikstjóri og varaþingmaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×