Skoðun

Hug­leiðing um sáttamiðlun

Ámundi Loftsson skrifar

Til Alþingis ríkisstjórnar og allra hinna sáttfúsu.

Deilur hafa lengi fylgt manninum. Þær geta komið upp innan og milli fyrirtækja, félaga, stofnana og stjórnvalda. Menn eiga í deilum af öllu tagi. Oft eru þær hatramar og leikurinn ójafn.

Verkalýðsbaráttan er samfelld deilusaga og þar skapast iðulega ástand sem verður að fá utanaðkomandi lausn og lenda þá málin í sáttamiðlun hjá Ríkissáttasemjara sem hefur það eina hlutverk að sætta vinnudeilur. Ágreiningur og ósætti eru þó hversdaglegur veruleiki í mannlífinu sem oft er aldrei til lykta leiddur. Hér vantar því víðtækari sáttamiðlun.

Dómstólar skera úr ágreiningsmálum, og oftast á þann veg að einn vinnur og annar tapar. Dómar eru því ekki trygging fyrir sátt og gremjan og úlfúðin halda áfram að eitra líf þeirra sem í deilum hafa átt. Dómur án sáttar getur ekki verið ásættanleg niðurstaða.

Frá þessum veruleika verður að finna leið. Það er alger nauðsyn. Úrskurðarnefndir, svo góðar sem þær kunna að vera, s.s. um ágreining um tryggingabætur eða hver önnur mál, duga hér ekki. Hér þarf meira til.

Það verður að koma á víðtækri sáttamiðlun. Hana ætti skipa með löggjöf og aðkomu stjórnvalda og samtökum almennings, jafnvel dómstólum. Hlutverk sáttamiðlunar yrði að hafa milligöngu um sættir í deilumálum af öllu tagi.

Vart er vafa bundið að sáttamiðlun myndi í mörgum tilfellum ná árangri og setja niður deilur og koma á sáttum. Í mörgum tilfellum myndi sáttamiðlun einnig koma í veg fyrir kostnaðarsamar og tímafrekar deilur og minnka þar með álag á deiluaðila og dómstóla og spara með því stórfé. Að stuðla að sáttum myndi líka án efa bæta ástand og andrúm í samfélaginu. Ekki veitir af.

Vilji er allt sem þarf.

Höfundur er fyrrverandi sjómaður og bóndi og fyrrum félagi í VG.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×