Skoðun

Rétt­lætingar og lygar Ísraels

Yousef Tamimi skrifar

Það er sorglegt að fylgjast með því hversu langt íslensk stjórnvöld leyfa Ísrael að draga sig á asnaeyrunum. Ísrael fjöldaframleiðir lygar til að réttlæta árásir sínar á innviði Gaza og Ísland hefur hingað til tekið orð Ísraels undantekningarlaust sem sannleika og án neinnar gagnrýnnar hugsunar. Pólitíska elítan á Íslandi hefur tekið afstöðu með Ísrael og þjóðarmorði í Palestínu en á sama tíma hunsað algjörlega óskir alþjóðasamfélagsins um varanlegt vopnahlé og tækifæri fyrir Palestínu að dafna sem frjálst og fullvalda ríki.

Síðustu mánuði hefur raunar hver einasta staðhæfing og réttlætingar Ísraels varðandi þjóðernishreinsanir þeirra á Gaza reynst ósannar. Ein stærsta lygi Ísraels eru ásakanir um að starfsmenn UNRWA hafi tekið virkan þátt í árásum á Ísrael. Ísrael hefur lengi haft horn í síðu UNRWA en segja má að UNRWA sé hryggjarstykki innviða Palestínu. UNRWA hefur sinnt hlutverki sem að í eðlilegum aðstæðum ríkið sjálft myndi sjá um en vegna hernáms Ísraels hefur Palestína ekki fengið að móta og þróa þau innviði sem nauðsynleg eru. UNRWA hefur því sinnt þessum grundvallar hlutverkum og séð til þess að palestínska þjóðin fái viðeigandi menntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu ásamt því að tryggja fæðuöryggi. Það sem gerir UNRWA einstakt er að stærsti hluti starfsfólks eru innfæddir Palestínumenn sem gerir það að verkum að gríðarleg þekking og reynsla hefur myndast í gegnum árin í Palestínu. Við frjálsa Palestínu er því líklegt að starfsemi UNRWA leggist niður í núverandi mynd og að einhverju leyti sameinist Palestínska ríkinu.

Þetta eiga Ísraelsk stjórnvöld mjög erfitt með en markmið Ísrael er að koma í veg fyrir að Palestína þróist og þroskist sem þjóð. Skýrasta dæmið er höfnun Ísraels á tilvist Palestínu og sjálfstæði þrátt fyrir viðurkenningu Palestínu á Ísrael fyrir 35 árum. Það er því mikilvægt markmið fyrir Ísrael að losna við UNRWA og tryggja að Palestína verði algjörlega háð utanaðkomandi aðstoð, t.d. World Food Kitchen, sem kemur í veg fyrir að reynsla og þekking myndist og haldist í Palestínu.

Ásakanir Ísraels snúast um að 12 starfsmenn UNRWA (0.1%) áttu að hafa tekið virkan þátt í árásum 7 október. Hins vegar þegar Colonnaskýrslan var gefin út í lok apríl kom í ljós að þrátt fyrir ítrekaðar óskir Sameinuðu Þjóðanna þá hefur Ísrael aldrei getað framvísað neinum sönnunargögnum fyrir þessum staðhæfingum og standast því þessar ásakanir enga skoðun. Líklegt þykir að Ísrael hafi pyntað palestínska starfsmenn UNRWA til að fá fram falskar játningar. Það var á grundvelli þessara ákvarðanna sem Ísland ákvað að frysta greiðslur til UNRWA og stefna þar með milljónum Palestínumanna í hættu. Ísland sat þannig ekki bara hjá, heldur tók beinharða afstöðu með Ísrael og þáverandi utanríkisráðherra hóf að ræða þann möguleika á að styrkja aðrar stofnanir, allt saman samkvæmt handriti Ísraels.

Lygar Ísraels snúast þó ekki eingöngu um UNRWA. Til að mynda þurfti að reyna að réttlæta árásir og eyðileggingu heilbrigðiskerfisins á Gaza. Undir stærsta sjúkrahúsi Gaza, Al Shifa, átti samkvæmt Ísrael að liggja höfuðstöðvar Hamas. Með tölvugerðu myndbandi um hugsanlegt útlit og staðsetningu þessarar höfuðstöðvar náði Ísrael að sannfæra heiminn um þá miklu ógn sem steðjaði af sjúkrahúsinu sem myndi réttlæta aðgerðir í og við sjúkrahúsið. Með þöglu samþykki Íslands, gjöreyðilagði Ísrael sjúkrahúsið í tveimur stórfelldum árásum, framkvæmdi fjöldaaftökur á börnum og fullorðnum og pyntaðiyfirlækni til bana. Ísland samþykkti þessar aðgerðir og hefur aldrei efast um réttmæti Ísraels að framkvæma þennan hryllings sem átti sér stað. Það er mjög líklegt að Utanríkisráðuneytið hafi verið fullkomlega meðvitað um að staðhæfingar Ísraels stæðist enga skoðun en ákvað engu að síður að nýta ekki rödd sína til að reyna stöðva árásina á sjúkrahúsið, stofnun sem vernduð er samkvæmt Genfarsáttmálanum.

Það er þyngra en tárum taki að vita að Al-Shifa sjúkrahúsið er alls ekki það eina sem Ísrael hefur lagt í rúst. Rúmlega 400 árásir hafa verið gerðar á heilbrigðiskerfi Gaza, yfir 480 heilbrigðisstarfsfólk myrt og minnst 160 handtekin. Aðeins 11 sjúkrahús af 36 eru með fulla virkni og þarf starfsfólk að sinna sjúkum og slösuðum með takmarkaðar byrgðir. Það má ekki gleymast að fyrir utan stöðugt flæði slasaðara síðustu 7 mánuði þá þurfa 2.2 milljón íbúa Gaza einnig á almennri heilbrigðisþjónustu á að halda, eitthvað sem ekki er hægt að veita á viðeigandi hátt. Til samanburðar má vísa til talna bráðamóttöku Landspítalans sem tók á móti 23 þúsund einstaklingum frá janúar til mars og það á friðartímum. Árásir Ísraels á heilbrigðisinnviði eru alvarlegir stríðsglæpir sem Ísland hefur ekki tekiði alvarlega. Ísland hefur hundsað þær hörmulegu afleiðingar sem sprengingar á sjúkrahúsum og takmörkun á neyðaraðstoð hefur haft í för með sér, og þannig staðið við hlið Ísraels í að ekki einungis sprengja Palestínumenn í loft upp, heldur tryggja það hreinlega að þau deyji án aðgengis að læknisþjónustu.

Nýjasta útspil Ísraels er að ráðast inn í Rafah, undir því gamalkunnuga yfirskini að Rafah sé notað undir hryðjuverkastarfsemi, og því einnig nauðsynlegt að taka yfir landamærastöðina við Rafah og stöðva allan flutning þaðan af nauðsynjavörum til Gaza. Ísrael vísvitandi minnist ekki á það að enginn innflutningur fer í gegnum Rafah nema með ítarlegu eftirliti og samþykki Ísraels. Rafah liggur við landamærin að Egyptalandi og er íbúafjöldi að jafnaði um 220 þúsund. Í dag hýsir borgin um 1.2 milljón manns í neyðarskýlum, eftir að Ísrael neyddi Palestínubúa að flýja þangað frá norðurhluta Gaza svæðisins, þar sem Rafah átti að vera öruggt svæði. Nú hefur Ísrael hins vegar snúist hugur og þrátt fyrir að Hamas hafi samþykkt vopnahlé, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir frá vinum sínum Bandaríkjunum og Þýskalandi að ráðast ekki inn í Rafah, þrátt fyrir að helstu hjálparstofnanir heims vara við hörmulegum afleiðingum innrásar, þá ákveður Ísrael að ráðast inn á svæðið með sprengjum, skriðdrekum og herdeildum. Viðbrögð Íslands eru dræm að venju og byggjast líklegast á því að Ísland samþykkir aðgerðir Ísraels og neitar að beita neinum raunverulegum þrýsting til að tryggja öryggi Palestínumanna.

Það hefur verið marg sannað að Ísrael stundar pyntingar, handtekur og dæmir börn í fangelsi í herdómstólum. Ísrael stundar aðskilnaðarstefnu, þjóðarmorð og arðrán á landi Palestínu, Ísrael rífur niður hús, sundrar fjölskyldum og sprengir í sundur, fólk sem er læst inni á Gaza eins og dýr í búri. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir helstu mannréttindastofnana heimsins um hungursneyð af mannavöldum, hópmorð, nauðganir og pyntingar, þá hefur Ísland aldrei sagt Ísrael til syndana. Ísland hefur aldrei staðið með mannréttindum Palestínu, hvorki á „fríðartímum“ né þegar Ísrael ræðst á Gaza. Ísland leyfir Ísrael að komast upp með nær hvað sem er.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórn Íslands lítur ekki á Palestínufólkið sem jafningja Ísraela, eða jafninga Íslendinga. Á meðan Ísrael fær að komast upp með að drepa 34 þúsund manns, þar af 15 þúsund börn, gjöreyðileggja innviði Gaza, sprengja alla háskóla, spítala, vegi, bryggjur og heimili, þá eru það Palestínumenn sem standa röngu megin. Ísrael pyntar, beitir kynferðislegu ofbeldi og notar Palestínumenn sem mannlega skildi. Allt saman sem Palestínumenn fá miklar ávítur fyrir en skrásettar og linnulausar árásir og óviðeigandi beitingu valds Ísrael gegn öllum Palestínumönnum hefur ekki fengið Ísland til að bregðast við. Hins vegar hafa óljósar og ósannaðar ásakanir og lygar Ísraels dugað til að Ísland skrúfi fyrir peningaaðstoð til Palestínu og gagnrýni á Hamas nær hæstu hæðum.

Ísrael, síðasta nýlenduríki Evrópu, hefur stuðning frá álfunni sama hvað það kostar. Nýlendutíminn er ekki eitthvað sem við lesum um í sögubókum - við erum ennþá stödd á nýlendutíma. Tímabili sem er litað af ofbeldi, morðum, nauðgunum og misþyrmingu Evrópubúa á infæddum. Staðreyndin er að þrátt fyrir að við viljum trúa öðru, þá leið nýlendustefnan aldrei undir lok og er Ísrael síðasta vígi þessa óhugnalegra tíma. Það er kominn tími til að stoppa þennan óhugnað sem framkvæmdur er undir verndarhendi Íslands og Evrópu. Tryggja þarf að Ísrael viðurkenni tilvist Palestínu, leiðrétti og biðjist afsökunar á kúguninni og ofbeldinu og tryggi það að Palestína fái það frjálsa og sjálfstæða ríki sem það á rétt á, laust við ofbeldi, hernám og arðrán.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur. 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×