Skoðun

Kjósum Katrínu

Kjartan Ragnarsson skrifar

Ein helsta ástæða þess að margur maðurinn/konan hikar við og jafnvel hafnar því að taka þátt í pólitík er að þá á viðkomandi nánast fyrir víst von á að fá yfir sig skítkast, fúkyrði og allskyns gróusögur. Þó er sú manneskja sem hefur einna helst sloppið við þetta sá frambjóðandi í þessum forsetakosningum sem sem ég styð; Katrín Jakobsdóttir. Enda hefur það einkennt hennar framgöngu í stjórnmálum að hún hefur nánast aldrei hallað styggðaryrði að nokkrum manni. Hún hefur svo til alltaf farið í boltann en ekki manninn, svo þessi góða samlíking úr fótboltanum sé notuð. Það er örugglega einsdæmi í sögu íslenskra stjórnmálamanna að þó svo flokkur hennar hafi oftar en einu sinni farið niður fyrir tíuprósent í skoðanakönnunum þá hefur gjarnan meirihluti þjóðarinnar kosið hana vinsælasta stjórnmálamann landsins. En stjórnmálamaður/kona samt. Þrátt fyrir allt þá hefur hún þennan voðalega skammarblett að hafa verið í stjórnmálum.

Það væri hægt að rekja mörg dæmi um merkilega framgöngu Katrínar við stjórnvölinn. En ég læt nægja þá djörfu ákvörðun að láta klára Hörpuna í miðju hruninu (ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur) og nú síðast aðkoma hennar að kjarasamningunum í janúar. Henni er helst legið á hálsi fyrir að hafa ekki komið í gegn mörgum hugarefnum sínum sem hún talaði fyrir þegar hún var í stjórnarandstöðu. Það veit hvert mannsbarn að í samsteypustjórn fær maður ekki allt sem maður vill. Katrín á stórmerkilegan feril að baki í pólitíkinni. Sá ferill er kostur en ekki galli. Þekking hennar á öllu stjórnkerfinu er sér á parti meðal frambjóðendanna. Sambönd hennar á erlendri grundu og gott orðspor er ómetanlegt.

Bent hefur verið á að fyrri forsetar hafi ýmist komið úr stjórnmálunum (Sveinn Björnsson, Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Ragnar Grímsson) og svo aftur menningunni (Kristján Eldjárn, Vigdís Finnbogadóttir og Guðni Th. Jóhannesson). Katrín á feril að baki á báðum þessum sviðum. Hún er ekki bara fráfarandi stjórnmálamaður heldur er hún menntuð í íslenskum bókmenntum. Katrín hefur yfirburða þekkingu og reynslu til að gegna embætti forseta Íslands. Ég styð Katrínu Jakobsdóttur.

Höfundur er forstöðumaður Landnámsseturs Íslands.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×