Skoðun

Baldur er leið­togi og manna­sættir

Karl Ágúst Ipsen skrifar

Það er margt sem ber að huga að þegar velja skal fólk til leiðtogastarfa. Viðkomandi þarf að hafa persónutöfra sem hrífur fólk með sér til góðra verka. Hann þarf að vera mannasættir, geta leitt saman ólíka hópa til sameiginlegrar niðurstöðu sem öll geta verið sátt við og hann þarf að vera fróður um verkefnin. Baldur hefur sýnt alla þessa eiginleika í lífi og starfi.

Þegar réttindabarátta samkynhneigðra innan Háskóla Íslands var rétt að líta dagsins sá hópur ungs fólks, nemenda við skólann að það þyrfti að vera til vettvangur fyrir hinsegin fólk til að berjast fyrir réttindum sínum. Frumkvæðið að stofnun félags hinsegin fólks við Háskóla Íslands kom þó ekki frá nemendunum sjálfum heldur frá Baldri Þórhallssyni, kennara þeirra. Baldur sá að til þess að rétta hlut nemendanna þyrfti sterkan samstöðuvettvang, en líka stað fyrir fólk að kynnast og koma saman á eigin forsendum. Þannig hreif Baldur nemendur með sér og leiddi þá saman til þess að stofna þetta frábæra félag sem enn í dag lifir. Q félag hinsegin stúdenta er öflugt félag og mikilvægi þess hefur síst minnkað.

Það var Baldur sem var fenginn til þess af hálfu Þjóðkirkjunnar að sætta kirkjuna og hinsegin fólk eftir áralöng særindi í kjölfar framkomu og jaðarsetningu kirkjunnar gagnvart hinsegin fólki. Baldur tók þetta erfiða verkefni að sér og nú ríkir mun meiri sátt á milli þessara ólíku hópa en áður þekktist. Baldur er maður sátta og hann kann öðrum betur að leiða fólk saman.

Baldur er fremstur fræðimanna á sviði smáríkja og sem slíkur stofnaði hann Rannsóknasetur um smáríki. Til marks um yfirgripsmikla þekkingu Baldurs var hann kallaður til ráðgjafar af skoskum stjórnvöld sem um langt árabil hafa stefnt að sjálfstæði. Baldur er einnig fjölfróður um embætti forseta Íslands sem stjórnmálafræðingur og hefur ítrekað verið kallaður til útskýringa á málefnum þess í fjölmiðlum og víðar. Það er leitun að manni með meiri þekkingu á verkefnum og eðli embættisins og hlutverki Íslands sem smáþjóðar á meðal þjóða.

Það er ekki algengt að þjóðir hafi val um að leiða mann til forystu sem er slíkum afburðakostum gæddur. Það hefur íslenska þjóðin núna, það er mikilvægt að við látum ekki það happ úr hendi sleppa. Kjósum Baldur Þórhallsson þann 1. júní.

Höfundur er kjósandi í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×