Skoðun

Með ósk um vel­gengni, Halla Hrund

Viðar Hreinsson skrifar

Þessi kosningabarátta hefur verið áhugaverð. Tími yfirvegaðra stefnuyfirlýsinga er löngu liðinn og við hefur tekið samfelldur kliður á samfélagsmiðlum sem fjölmiðlar sleikja upp í misjöfnum tilgangi. Stundum hefur þetta tekið á sig mynd hatrammra skothríða þar sem orðfæri hefur gengið fram af viðkvæmu og grandvöru fólki.

Rifrildi um elítu eða ekki hefur verið upplýsandi – kjarkaður og heiðarlegur pistill Auðar Jónsdóttur í Heimildinni leysti úr læðingi flóð skrifa þar sem einmitt þessi elíta sór af sér það að vera elíta, og hélt svo áfram í vitsmunalegu göfuglyndi að segja fólki til um hvernig það skyldi hugsa. Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að þar hafi sitthvað verið sagt gegn betri vitund og horft framhjá því að einlæg skrif eins og Auðar eru sársaukafull og ekki sett fram í eiginhagsmunaskyni. Takk elsku elíta fyrir fölskvalausa ást ykkar á lýðræðinu!

Um leið og Halla Hrund Logadóttir gaf kost á sér til embættis forseta ákvað ég að kjósa hana. Ég hafði tekið eftir einarðri vörn hennar fyrir almannahag í embætti orkumálastjóra og persónutöfrar, dugnaður og skörp dómgreind komu strax í ljós. Þegar ég fór að fylgjast með stuðningsmannasíðu hennar á Fésbókinni tók ég eftir öðru. Þar hljóma óteljandi raddir í einlægum stuðningi við Höllu Hrund, fólk úr öllum kimum samfélagsins fylkir sér um hana með fjölbreyttum, fallegum og einlægum yfirlýsingum, auk þess sem mörg hundruð stuðningsmanna leggja hönd á plóg í verki.

Mín tilfinning er sú að Halla Hrund nái betur til fleira fólks en nokkur annar frambjóðandi. Og það er dýrmætt, kannski mikilsverðara framlag til brothætts lýðræðis en margan grunar. Mér finnst ótækt að forseti komi beint úr hringiðu stjórnmálanna, langþæfður í hrossakaupum, málamiðlunum milli stjórnmálahreyfinga, hagsmunahópa og annarra aðila með tilheyrandi afslætti á hugsjónum ef einhverjar voru. Vald spillir, og pólitískt þóf mótar jafnvel besta og greindasta fólk lævíslegar fólk heldur, mælska þess verður liprari en um leið innantómari þegar allir kraftar fara í að verja misjafnar gerðir. Útsýnið úr stjórnmálabaráttunni er þröngt, þess vegna þarf að vera til önnur sýn og víðari.

Forsetaembættið getur skipt máli sé það vel setið. Með því að kjósa forseta sem stendur utan flokkapólitíkur getur hann myndað mikilvægt viðnám við þeirri samþjöppun valds, sama graut í sömu skál, sem yrði ef pólitíkus væri kosinn. Halla Hrund Logadóttir er fljúgandi greind og velviljuð, óvenju hæf til að mynda heilbrigt og skapandi mótvægi við það argaþras sem stjórnmálin óneitanlega eru. Hún nær til litrófs mannlífsins, hefur yfirlætislausa þekkingu á náttúrunni og landinu og yfirsýn til að leggja okkur gott til. Ekki veitir af.

Höfundur er bókmenntafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×