Innlent

Verstu skemmdar­verk í sögu Lystigarðsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eins og sjá má eru skemmdirnar töluverðar.
Eins og sjá má eru skemmdirnar töluverðar.

Unnar hafa verið miklar skemmdir á grasflötinni í Lystigarðinum í Hveragerði og hefur málið verið tilkynnt til Lögreglunnar á Suðurlandi. Talið er að óprúttnir aðilar hafi ekið um blautan garðinn á vespum.

Fram kemur á vef Hveragerðisbæjar að grasflötin sé sérstaklega viðkvæm um þessar mundir eftir mikla rigningartíð.

„En það virðist draga að sér skemmdarvarga sem hafa gaman af því að eyðileggja þennan fallega garð okkar,“ segir á vefnum.

Grasið verður lengi að jafna sig.

„Nýlega lauk garðyrkjudeild bæjarins við að þökuleggja í sár í garðinum en nú er mikið af þeirri vinnu unnið fyrir gíg. Ef fram heldur sem horfir þá verður þessi grasflöt endanlega að svaði og mun þá ekki nýtast til hátíðarhalda eins og verið hefur og Lystigarðurinn ekki sama prýði sem við höfum verið stolt af.“

Fram kemur að þetta sé langt því frá í fyrsta skipti sem skemmdarverk séu unnin á grasflötinni. E líklegast séu þessi þau verstu hingað til.

Þetta er ekki í fyrsta skipti skemmdir eru gerðar á Lystigarðinum.

„Þetta gerist ekki í tómarúmi og einhver veit hverjir þessir aðilar eru. Við hvetjum þá sem hafa einhverjar upplýsingar að snúa sér til Lögreglunar á Suðurlandi í tölvupóstfangið: [email protected].“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×