Skoðun

„Heim­ferða- og fylgdadeild“

Eiríkur Rögnvaldsson skrifar

Ég hafði aldrei heyrt minnst á Heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra fyrr en í gær og einu eldri dæmi sem ég finn á netinu eru í frétt frá því í júlí og annarri frá í ágúst. Á vef Lögreglunnar er vissulega síða með fyrirsögninni „Heimferða- og fylgdadeild“ og í upphafi textans á síðunni segir: „Heimferða- og fylgdadeild (áður Stoðdeild) ríkislögreglustjóra annast framkvæmd lögreglufylgda úr landi þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni og hafa ekki annan rett til dvalar á Íslandi.“ Þetta er þó í eina skiptið sem heitið Heimferða- og fylgdadeild er notað í textanum – aftur á móti er eldra heitið stoðdeild notað tólf sinnum í honum, og slóð síðunnar endar ennþá á /stoddeild/.

Heitið Stoðdeild segir vissulega ekki mikið en deildin var stofnuð 2016 og var orðin vel þekkt undir þessu nafni – hefur verið margoft í fréttum að undanförnu og flestum því væntanlega vel kunnugt hvert hlutverk hennar væri. Það virðist því vera eitthvað annað en ógagnsæi orðsins stoðdeild sem hefur rekið Ríkislögreglustjóra til að breyta heiti deildarinnar sem hefur greinilega verið gert nýlega í allnokkrum flýti – eða kannski væri nær að segja óðagoti. Hvergi kemur fram hver ástæðan hafi verið fyrir nafnbreytingunni – vitanlega má segja að Heimferða- og fylgdadeild sé mjög gagnsætt heiti á yfirborðinu, en gagnsætt heiti er því aðeins gagnlegt að það gefi ekki rangar eða villandi hugmyndir um merkinguna, eins og það gerir í þessu tilviki.

Í mörgum tilvikum er nefnilega hvorki verið að fylgja fólki né fara með það heim til sín. Orðið fylgd er í Íslenskri orðabók skýrt ʻþað að fylgja, leiðsögn, samfylgdʼ en í þessu tilviki er oftast fremur um að ræða þvingaðan flutning undir eftirliti – nauðungarflutning – en vinsamlega samfylgd. Þar að auki er oftast ekki verið að senda fólk heim til sín enda á það yfirleitt ekkert heimili utan Íslands, heldur iðulega til lands þar sem það hefur af einhverjum ástæðum fengið tímabundið dvalarleyfi en á engar rætur eða tengsl – eins og í því máli sem nú er mest rætt um. Og jafnvel þótt fólk sé sent til upprunalands síns er það einmitt landið sem það flúði frá og lítur ekki á sem heimaland sitt lengur – og telur sig iðulega vera í hættu komi það þangað aftur.

Nafnbreyting deildarinnar er því ekki í þágu gagnsæis heldur þvert á móti. Hins vegar leikur varla nokkur vafi á því að henni er ætlað að skapa jákvæðari ímynd af deildinni og verkefnum hennar í huga almennings – bæði fylgd og heimferð eru orð sem hafa á sér jákvæðan og notalegan blæ. Heimferða- og fylgdadeild bætist því í hóp veigrunarorða eða skrauthvarfa eins og rafvarnarvopn, afbrotavarnir, lokað búsetuúrræði og fleiri sem stungið hafa upp kollinum á undanförnum misserum og eru notuð í sama tilgangi. Óháð því hvaða skoðun fólk hefur á umsækjendum um alþjóðlega vernd og brottvísunum þeirra er hagræðing dómsmálayfirvalda á tungumálinu til að hafa áhrif á almenningsálitið stóralvarlegt mál og mikið áhyggjuefni.

Höfundur er uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði og málfarslegur aðgerðasinni.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×