Körfubolti

Aðalkeppinautar Ís­lands um sæti á EM skoruðu ó­trú­lega körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Hanga í leik með ungverska landsliðinu. Hann var útsjónarsamur í einni körfu sinni á dögunum.
Adam Hanga í leik með ungverska landsliðinu. Hann var útsjónarsamur í einni körfu sinni á dögunum. Getty/Altan Gocher

Adam Hanga skoraði ótrúlega körfu fyrir Ungverja í síðasta leik liðsins í undankeppni EM en Ungverjar eru að berjast við íslenska landsliðið um sæti á Eurobasket á næsta ári.

Ungverjar þurftu reyndar að sætta sig við 76-81 tap á heimavelli á móti Tyrkjum á sama tíma og íslensku strákarnir sóttu stórbrotin sigur á Ítalíu. Úrslitin þýða að Ísland er með tveggja sigra forskot á Ungverja þegar aðeins tveir leikir eru eftir í riðlinun.

Ungverjar voru nálægt sigri í leiknum á móti Tyrkjum en þau úrslit hefðu verið slæm fyrir íslenska liðið. Tyrkir kláruðu dæmið og hjálpuðu íslenska strákunum.

Staðan var hins vegar jöfn, 54-54, eftir fyrstu þrjá leikhlutana og það var þökk sé ótrúlegri körfu Hanga.

Hanga tók þá innkast þegar aðeins 1,3 sekúnda var eftir af leikhlutanum. Allir Tyrkirnir voru að fylgjast með hinum fjórum leikmönnum Ungverja til að reyna að stela boltanum eða koma í veg fyrir skot hjá þeim.

Hunga var klókur og henti boltanum í rassinn á Tyrkja sem var ekki að fylgjast með. Hunga fékk boltann til sín aftur og var þá enn fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hann greip boltann og náði að setja niður skotið áður en tyrknesku leikmennirnir áttuðu sig á því hvað hefði gerst. Boltinn söng síðan í netinu um leið og leikklukkan gall.

Það má sjá þessa mögnuðu körfu hér fyrir neðan.

Hanga skoraði tvo þrista í leiknum en þetta var án efa besta karfa leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×