Körfubolti

Albert sá sögu­legan sigur strákana okkar og Martin stríddi Í­tölum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stuð hjá knattspyrnumanninum úti á leiknum.
Stuð hjá knattspyrnumanninum úti á leiknum.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann stórkostlegan útisigur á Ítölum í undankeppni EM í gærkvöldi en leikurinn fór 81-74.

Sigurinn fer án efa í sögubækurnar en liðið tapaði fyrir Ítölum í Laugardalshöllinni á föstudaginn, með 24 stigum.

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson var í PalaBigi höllinni í Reggio Emilia í gærkvöldi og sá okkar menn landa sigrinum.

Eftir leik skipti hann á treyju við körfuboltamanninn Amedeo Tessitori sem spilar með ítalska liðinu Reyer Venezia. En báðar treyjur voru með nafni Alberts aftan á.

Ef marka má Instagram þá var Albert mjög sáttur með sína menn. Albert spilar fyrir Fiorentina í ítölsku seríu A-deildinni. Það er tveggja tíma akstur frá Flórens yfir til Reggio Emilia.

Martin Hermannsson var að vonum mjög ánægður með sína menn eftir leikinn í gærkvöldi eins og hann lét í ljós á X-inu.

En Martin getur ekki leikið með íslenska landsliðinu þar sem hann er leikmaður Alba Berlin sem spilar í EuroLeague og fæst því ekki laus í landsliðsverkefni af þessum toga.

En í morgun mætti Martin á æfingu hjá liði sínu í Þýskalandi. Í liðinu spila tveir Ítalir, þeir Gabriele Procida og Matteo Spagnolo. Einnig er einn Ítali í þjálfarateymi liðsins. Martin mætti því í ítölskum búningi á æfingu í morgun, aðeins til að stríða samherjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×