Íslenski boltinn

Jóhann semur og heldur Jóhanni í teyminu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Kristinn Gunnarsson og Jóhann Hreiðarsson vinna áfram saman og stýra Þór/KA í Bestu deild kvenna.
Jóhann Kristinn Gunnarsson og Jóhann Hreiðarsson vinna áfram saman og stýra Þór/KA í Bestu deild kvenna.

Jóhann Kristinn Gunnarsson hefur framlengt samning sinn sem þjálfari Þór/KA í Bestu deild kvenna í fótbolta um tvö ár.

Jóhann Kristinn tók við liðinu fyrir 2023 tímabilið og nýji samningurinn nær nú til ársins 2026.

Jóhann þjálfaði Þór/KA einnig frá 2012 til 2016 og næsta sumar verður því hana áttunda sumar með liðið.

Öll árin sem Jóhann Kristinn hefur þjálfað Akureyrarliðið hefur hann náð flottum árangri en liðið vann meðal annars Íslandsmeistaratitilinn 2012 og komst í bikarúrslitin 2013. Í sumar endaði Þór/KA í fjórða sæti.

Það verða áfram nafnar í þjálfarateyminu hjá Þór/KA því Jóhann Hreiðarsson verður aðstoðarþjálfari liðsins.

Jóhann Hreiðarsson kom inn í þjálfarateymi Þórs/KA síðastliðið vor og kom að starfinu í öllum flokkum félagsins, meistaraflokki, 2. flokki U20 og 3. flokki. Hann á þátt í Íslands- og bikarmeistaratitlum yngri flokka félagsins á árinu.

Jóhann hefur áður starfað sem þjálfari og aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Dalvík/Reyni og þjálfun yngri flokka hjá Val og Breiðabliki. Hann á jafnframt að baki leiki með Val, Dalvík, Víkingi og fleiri félögum á árunum 1997 til 2015.

Þór/KA var þó ekkert að flýta sér að tilkynna um framlenginguna.

„Nokkuð er síðan nafnarnir skrifuðu undir nýja samninga og hafa þeir því einfaldlega haldið áfram starfi sínu frá því að keppnistímabilinu lauk í byrjun október enda eru núna tæpar þrjár vikur síðan meistaraflokkur kom aftur saman til æfinga,“ segir í frétt á heimasíðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×