Menning

Til hvers að spara?

Í síðasta pistli benti ég á hvað það væri auðvelt að spara peninga og að fátt væri skemmtilegra nema ef til vill að eyða þeim. Þar liggur einmitt svarið við spurningunni: Hvað á að gera við sparnaðinn? Eyða honum! Í grófum dráttum má segja að það séu þrjár ástæður fyrir því að maður ætti að spara. Í fyrsta lagi til þess að eiga peninga fyrir því sem maður ætlar að kaupa. Í öðru lagi til þess að tryggja öryggi fjölskyldunnar ef eitthvað kemur upp á og í þriðja lagi til þess að fjárfesta og láta peningana vinna fyrir mann. Sá sem kaupir allt á krít er að tapa peningum á því að greiða vexti af láninu. Sá sem getur borgað afborganirnar ásamt vöxtum, hlýtur að hafa efni á því að kaupa og ætti því að geta lagt sömu upphæð fyrir. Ekki satt? Jú, en svo koma mótbárurnar: "Maður verður að fá hlutinn strax. Það er ekki hægt að bíða endalaust eftir því að hafa sparað fyrir honum." Það dapurlega við þessar mótbárur er að sá sem leggur fyrir eignast hlutina í raun og veru á undan þeim sem kaupir allt á krít. Það tekur einhvern tíma að safna í góðan sjóð en þegar hann er kominn er hægt að kaupa strax það sem vantar, græða vexti og jafnvel semja um góðan staðgreiðsluafslátt. Stofnaðu sérstaka bók fyrir þennan sparnað og kallaðu hann "neyslusparnað". Önnur ástæða til sparnaðar er að koma sér upp "öryggissjóði" sem getur staðið undir 6 til 12 mánaða útgjöldum heimilisins. Þrátt fyrir almannatryggingar og alls konar einkatryggingar geta komið upp óhöpp í fjölskyldunni sem falla undir "smáa letrið" eða fjölskyldan fer út í einkarekstur eða tekur aðra áhættu sem ekki verður bætt ef allt fer á verri veg. Það er gott fyrir fjárhaginn, heilsuna og fjölskyldulífið að eiga "öryggissjóðinn" ef illa fer. Að lokum er sparnaður sem fer í fjárfestingar eina leiðin sem er öllum fær til þess að auka við tekjur og eignir fjölskyldunnar. Það eru ekki allir sem komast í álnir með því að vinna sig upp í starfi, erfa ríka frændur eða vinna í lottó. Hins vegar geta allir notað sparnaðinn sinn í fjárfestingar. Meira um það síðar . Sumarkveðja, Ingólfur Hrafnkell Vantar þig góð ráð? Sendu Ingólfi bréf á [email protected].





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.