Menning

Sumarhýran dugir til vors

"Ég næ oftast að safna mér góðum pening á sumrin og yfirleitt á ég afgang á vorin. Þó er ég dugleg að kaupa mér föt, fara í bíó og gera það sem mig langar til. Ég hef bara haft það góð laun á sumrin og síðan fæ ég dreifbýlisstyrk tvisvar á ári," segir Kristín Lilja Friðriksdóttir, 19 ára nemi við Kvennaskólann í Reykjavík. Hún kemur frá Grundarfirði og hefur þess vegna þurft að vera dugleg að vinna á sumrin til að geta séð fyrir sér á veturna hér í höfuðborginni. Hún segist þó hafa fengið góða fjárhagslega aðstoð frá foreldrum sínum en þau búa í Grundarfirði. "Fyrstu tvo veturna bjó ég hjá ömmu minni. Þá fékk ég oftast í kringum fimm þúsund krónur á viku í vasapening sem ég lét duga og var það ekkert mál. Núna bý ég með kærastanum mínum í íbúð sem hann og foreldrar mínir eiga og þarf ég því ekki að borga neina leigu sem munar auðvitað mikið um. Ég þarf samt sem áður að borga fæði, símareikninga og annað sem týnist til," segir hún. Tvö síðustu sumur vann Kristín Lilja í frystihúsi í Grundarfirði en í sumar vinnur hún á Hlölla bátum upp á Höfða og líkar vel. "Ég vann þar einmitt í vetur með skólanum aðra hverja helgi en það var líka í fyrsta skipti sem ég gerði það. Það gekk bara vel og bitnaði vinnan ekkert á náminu," segir hún. Kristín Lilja segist þekkja nokkra sem hafa þurft að safna sér pening á sumrin til að eiga fyrir skólagöngu á veturna. "Ein vinkona mín hefur verið í skóla á Akranesi og þurft að leigja íbúð þar. Hún þarf að vera mjög dugleg á sumrin að vinna sér inn pening því það er auðvitað dýrt að þurfa að leigja og halda sér uppi að öllu leyti. Þetta gengur upp ef krakkar fara vel með peningana sína og eyða þeim ekki í óþarfa vitleysu," segir Kristín Lilja. [email protected]





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.