Það er svo stutt út á hafið, sko - Björk í viðtali um Volta 22. mars 2007 09:34 Björk Guðmundsdóttir er á barmi heimsreisu með stóra hljómsveit til að kynna nýtt safn tíu laga sem koma á út hinn 7. maí. Safnið kallar hún Volta. Nú standa yfir æfingar og undirbúningur fyrir heimsferðina og hefur listakonan þegar bókað sig á lykilhátíðir vorsins og sumarsins, vestan hafs og austan. Volta markar einn eitt skref í þroska þessa séríslenska en alþjóðlega listamanns. Páll Baldvin Baldvinsson hitti hana stundarkorn í gær og heyrði hvernig hún er stemmd á þessum áfanga. Vindurinn blæs sín óvissu skil vors og vetrar. Það er fátt á ferli kringum þinghús og dómkirkju, menn vefja sig enn yfirhöfnum, skástinga sér gegnum strengina sem verða í Kvosinni þegar áttin er þessi skömmu eftir hádegi. Með litlum fyrirvara er boðaður blaðamannafundur með viðtalsbilum og hlustun á Volta, nýju söngvasafni Bjarkar Guðmundsdóttur, sem kemur út í byrjun maí. Listakonan verður til viðtals fyrir innlenda og erlenda blaðamenn í heimilislegum húsakynnum veitingastaðarins Við tjörnina og fyrst af öllu er gefinn kostur á að heyra safnið - ríflega fimmtíu mínútur af nýrri tónlist með þessari rödd sem auðþekkt er á öllum Vesturlöndum. Raunar rennur lagasafnið í gegn nánast sem heilt verk, nokkuð sem hún neitar staðfastlega að hafi verið ætlunin þegar á hólminn er komið og við sest inn yfir hvíta duka og gamalt stell ósamstætt. Hún segist enn vera óforbetranleg í poppinu og meirihluti þess sem hún hlustar á sé popp: „Ég elska popplög." Í upphafi langrar ferðar Hvað sem listakonan segir er þetta nýja verk heildstætt eins og fyrri tónverkasöfn hennar hafa verið: Medúlla, Vespertine, Homogenic, jafnvel tónlistin sem hún samdi við Drawing Restraint, tilraunakennda úttekt Matthews eiginmanns hennar um samvistir Japans og Bandaríkjanna, gjafir og gjald, fórnir og friðþægingu. Varla er sest niður við að hlusta á verkið þegar Björk mætir í vinnugallanum: fram undan er átján mánaða langferð til að kynna Volta og upphaf þeirrar ferðar er tónleikar hennar hér í Reykjavík annan í páskum þar sem öllu verður tjaldað: ljós- og hljómburðartæki, fullmönnuð sveit samstarfsmanna, íslenskra og erlendra, og er þar fyrir miðju blásarasveit tíu kvenna. Og úr Laugardalnum liggur leiðin vestur um haf: í dag hefst forsala á www.bjork.com á tónleika hennar í San Francisco hinn 19. maí, en hún mun halda þrjá tónleika í New York 2., 5. og 8. maí og verða þeir fyrstu í Radio City Music Hall. Þá spilar hún í Chicago, Denver og fer yfir landamærin og leikur í Vancouver. Ferðinn þjófstartar hún hér heima og á Coachella-hátíðinni. Hlé verður á tónleikahaldinu í mánuð („ég lærði það af Sigur Rós," segir hún, „spila í mánuð og hvílast í mánuð"). Síðan hefst Evrópuleggur ferðarinnar á Glastonbury: „Þetta stendur meira og minna í eitt og hálft ár," segir hún keik. Nafnið Við erum varla sest niður, hún búin að biðja um að hurð sé hallað, en spurt er um nafnið á safninu, Volta, hvað er það? „Ég er alltaf að leita að einhverju orði sem hefur svona orku. Venjulegast kemur nafnið bara svona, úr einhverju blaði eða einhver segir eitthvað. Ég var búin að bíða í ár við vinnu á plötunni og það var ekki komið. Í textunum kemur fyrir orðið „voltage" og „voodoo", sem mér fannst orðið ofnotað einhvern veginn. Ég hef alltaf reynt að velja titla sem eru svona latína eða eitthvað, eru ekki enskir, sem er svolítið fyndið því fyrir okkur Evrópubúum er latína svona hlutlausa málið, en í Bandaríkjunum hefur það allt annan farangur: þar talar 51% ensku en 49% tala spænsku. Þannig að allt í einu er maður farinn að halda með þeim þó maður viti ekkert af því. En mér fannst Volta... ég man ekki hvernig það kom til, en svo gúglaði ég það og þá þýðir það bæði nafn á vísindamanni á Ítalíu sem fann upp batteríið, mjög fyndið batterí sem var þá eins og skápur að stærð eða eitthvað, og líka á í Afríku sem hefur verið virkjuð af mönnum og lón byggt af mönnum sem heitir Lake Volta. Svo það voru komnir ýmsir hlutir þarna inn. Ég ætla ekki að nefna neitt en menn geta getið sér til hvað það er. Svo er það líka dans á miðöldum sem ber þetta nafn, einhver mjög fyndinn dans, sem var mikið mál að læra. Þannig að ég var komin með margt í einu orði: dans, á í Afríku sem búið er að virkja og batteríið. Svo ókei - þetta passar. Innilokun og útrás Björk kvartar yfir að þetta séfyrsta viðtalið sitt á íslensku í langan tíma og nú verði hún að fara að þýða: „Hvað er „cabin fever?" spyr hún. „Ég var búin að vinna svo mikið heima í herbergi þar sem ég var með tölvuna, og svo var ég ólétt og átti barn og svona, þannig að ég var komin með nettan snert af „cabin fever" - hvað heitir það sem sjómenn fá þegar þeir eru búnir að vera lengi á sjó? Aðaldrifið í þessari plötu er „cabin fever" - að komast út á allan mögulegan hátt, hljóðfærin sem eru valin, staðirnir sem var tekið upp á og tilfinningalega, að langa í ævintýr. Á plötunum þremur á undan var ég komin með ramma svona tónlistarlega séð um hvað ég vildi mjög snemma: á Homogenic vildi ég fá svona techno-beat sem hljómaði eins og eldfjöll, svona íslenskt techno ef það er til með rómantískum fiðlum - augun þín og augun mín - svona. Á Vespertine var ég undir sterkum áhrifum frá kjöltutölvu, ég var nýbúin að kaupa svoleiðis og var svo spennt fyrir litlu hátölurunum, hljóðheimi sem væri svona tilbúinn, allt væri „static". Hvaða hljóðfæri hljómuðu best eftir svona niðurhal, harpa, klukkuspil og svoleiðis. Þar var ég komin með hjóðheim sem ramma. Þar eru allar raddir hvíslaðar." Hátt og í hljóði Í fyrstu slá mann tvær andstæður í Volta: annars vegar hávær dansinn með þungum ryþma og hins vegar sönglög sem eru mjög prívat, náin: Björk segir að á Homogenic hafi tekist á „hávær" tónlist, segir hún sposk, og lágvær, fjöll og dalir hafi skipst á til að ná í verkið dínamík, spennu. Vespertine og Medulla hafi verið lágstemmdari verk. Eftir launkofatímann hafi hún haft ríka þörf til að ná sambandi með tónlist sinni, eftir tvær plötur sem hún hafi gert í sínu horni „með sitt krosssaumsverk í kjöltunni" hafi hún viljað ná ákafa í samskipti sín við áheyrandur, þó allt sé á fullu blasti með ryþma og dóti vilji hún að sama ákafanum stafi af stilltari tónsmíðum verksins og nærgætnari. Eitt laganna á Volta heitir Wanderlust - Ferðaþrá. Ég minni hana á gamalt viðtal þar sem hún lýsti vilja sínum til að festa stemninguna við gömlu höfnina í Reykjavík, en í laginu er ort um höfn og blásarar líkja eftir skipum á útsiglingu og heimkomu: „Þetta er ekki um Ísland. Mér hafði ekki einu sinni dottið það í hug. Við kærastinn minn keyptum bát og búum á Manhattan - á bát. Það er alveg frábært. Þegar ég er hérna heima næ ég alveg náttúrusambandinu, en það er stundum erfitt að búa á Manhattan. Ég fæ stundum innilokunarkennd á Manhattan. Ég hélt að ég væri bara svona frík en ég fór í barnaafmæli í Brooklyn og í svoleiðis afmælum hittir maður alla vega fólk en allt Íslendinga, fólk úr öllum áttum. Þar var skrifstofufólk sem vann á Manhattan og sagði frá því að eftir einhverjar vikur í vinnunni hafi það orðið að komast burt, kallað á leigubíl og beðið: „Keyrðu mig að sjó, sama hvert er, alveg sama hvað það kostar." Að búa í borginni er því meira að heyra gjálfur og geta á kvöldin eða um helgar siglt burt - út á hafið. Það er ekki svo langt og þá er maður kominn út á Atlantshaf - það er stutt í það sko. Bumban og bomba Ég spyr hana um lagið Hope þar sem hún líkir saman bumbu og bomu: tilefnið var kona í Palestínu sem klæddi sig eins og hún væri vanfær en bar á sér sprengju. Allir hneyksluðust á aðferð hennar en sljákkaði í þeim þegar í ljós kom að hún var í raun vanfær: „Ég krotaði þennan texta hjá mér. Það var eiginlega fréttaflutningurinn sem furðaði mig, viðbrögðin. Þetta eru svo undarleg stríð sem við upplifum núna. Landamærin eru ekki lengur til, það er orðið svo loðið hver er með og hver er á móti. Hvernig gat þessi kona leikið sér með eitthvað jafn heilagt og líf, sögðu menn. Svo nokkrum dögum seinna þegar hið sanna kom í ljós þá var henni fyrirgefið. Ég skildi þetta ekki." Það er margt að finna á Volta: söng um óttann og hvernig þroskinn getur yfirunnið hann (Innocence), ástaróður (I See Who You Are), sjálfstæðishvöt við þéttan danstakt (Declare Independence), blíðukvæði (Dull Flame of Desire) sem hún syngur með Antony, og lag um unglingsárin, slit milli móður og barns: „Þegar maður er unglingur er maður ósigrandi. Það getur ekkert komið fyrir mann. Svo gerist eitthvað og maður reynir að fá það inn í hausinn á sér. Sakleysi er svo afstrakt orð. Það er mikill hroki að segja ég er ekki saklaus lengur. Heimurinn er svo flókinn og margbreytilegur. Ég veit ekkert um hindúisma. Þar er ég saklaus. Eða í skrifstofuhaldi í Víetnam. Þar yrði ég mjög saklaus. Þessi plata er svolítið um það, að fara út og prófa nýja hluti. Maður getur verið saklaus þangað til maður deyr, ef maður prófar ekki nýja hluti." „Þegar ég vissi hvað ég vildi..." Björk viðurkennir að hún yrki á plötunni um Sindra son sinn og samband sitt við hann, textinn er aftur ekki sértækur heldur almennur um samband foreldra og unglings. Svo er komið í lífi Bjarkar að yrkisefni hennar eru sótt í þá reynslu líka að eiga son sem er fullorðinn maður orðinn. Á nýju plötunni er talsvert um blásaraútsetningar, en hún segist vera að færa sig upp á skaftið í útsetningum fyrir flóknari skipan stærri sveita. Raunar er margt á Volta sem vísar beint í bigband-tónlist en með afar nútímalegu sniði. Í tímahraki viðtalsbilsins spyr ég hana hvernig standi á að hún sé að leggja í langferð með tíu manna blásarasveit skipaða ungum konum íslenskum. Það stendur ekki á svari: hljómsveitin hafi í grunn verið skipuð körlum eingöngu - því hafi hún kosið að kalla til blásarasveit skipaða konum og það hafi tekist að manna hana hér á landi: hún sjái líka formlega heild kórsins sem mikilvæga í tónleikahaldinu sem fram undan er. Rétt eins og í óperunni, R&B-tónlistinni og grískum harmleikjum sé nauðsynlegt að hafa kórinn einsleitan: af sama kyni, af svipuðum aldri og í útliti. Það fari best í útliti tónleikaferðarinnar. Tíminn okkar er búinn: margt mætti spyrja Björk um. Volta er enn eitt skrefið á þroskaferli hennar sem manneskju og listamanns. Hún sýnir okkur þann heiður að hefja hana hér á landi, fyrst með upptroðslu á tónleikum til styrktar samtökum gegn átröskun, og síðar með fullskipaðri sveit og öllum búnaði heimsferðarinnar í Laugardal annan í páskum. Þá verður stutt í að Volta komi út hinn 7. maí Mest lesið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Ragnhildur og Hanna Katrín kveðja Búseta Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Fleiri fréttir Kunna ekki að slaka á og heyrðu í Svölu Björgvins Live in a fishbowl: Dr. Gunni alltaf á leiðinni til að drepa þig „Látið jólaljós ykkar skína skært“ Auður einhleypur og skýtur á yfirvöld vegna Yazans Fyrstur kemur, fyrstur fær: Magnúsi Eiríkssyni fagnað og þjóðinni boðið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Daði Freyr tekur stefnuna til Íslands eftir áratug úti Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi Sjá meira
Björk Guðmundsdóttir er á barmi heimsreisu með stóra hljómsveit til að kynna nýtt safn tíu laga sem koma á út hinn 7. maí. Safnið kallar hún Volta. Nú standa yfir æfingar og undirbúningur fyrir heimsferðina og hefur listakonan þegar bókað sig á lykilhátíðir vorsins og sumarsins, vestan hafs og austan. Volta markar einn eitt skref í þroska þessa séríslenska en alþjóðlega listamanns. Páll Baldvin Baldvinsson hitti hana stundarkorn í gær og heyrði hvernig hún er stemmd á þessum áfanga. Vindurinn blæs sín óvissu skil vors og vetrar. Það er fátt á ferli kringum þinghús og dómkirkju, menn vefja sig enn yfirhöfnum, skástinga sér gegnum strengina sem verða í Kvosinni þegar áttin er þessi skömmu eftir hádegi. Með litlum fyrirvara er boðaður blaðamannafundur með viðtalsbilum og hlustun á Volta, nýju söngvasafni Bjarkar Guðmundsdóttur, sem kemur út í byrjun maí. Listakonan verður til viðtals fyrir innlenda og erlenda blaðamenn í heimilislegum húsakynnum veitingastaðarins Við tjörnina og fyrst af öllu er gefinn kostur á að heyra safnið - ríflega fimmtíu mínútur af nýrri tónlist með þessari rödd sem auðþekkt er á öllum Vesturlöndum. Raunar rennur lagasafnið í gegn nánast sem heilt verk, nokkuð sem hún neitar staðfastlega að hafi verið ætlunin þegar á hólminn er komið og við sest inn yfir hvíta duka og gamalt stell ósamstætt. Hún segist enn vera óforbetranleg í poppinu og meirihluti þess sem hún hlustar á sé popp: „Ég elska popplög." Í upphafi langrar ferðar Hvað sem listakonan segir er þetta nýja verk heildstætt eins og fyrri tónverkasöfn hennar hafa verið: Medúlla, Vespertine, Homogenic, jafnvel tónlistin sem hún samdi við Drawing Restraint, tilraunakennda úttekt Matthews eiginmanns hennar um samvistir Japans og Bandaríkjanna, gjafir og gjald, fórnir og friðþægingu. Varla er sest niður við að hlusta á verkið þegar Björk mætir í vinnugallanum: fram undan er átján mánaða langferð til að kynna Volta og upphaf þeirrar ferðar er tónleikar hennar hér í Reykjavík annan í páskum þar sem öllu verður tjaldað: ljós- og hljómburðartæki, fullmönnuð sveit samstarfsmanna, íslenskra og erlendra, og er þar fyrir miðju blásarasveit tíu kvenna. Og úr Laugardalnum liggur leiðin vestur um haf: í dag hefst forsala á www.bjork.com á tónleika hennar í San Francisco hinn 19. maí, en hún mun halda þrjá tónleika í New York 2., 5. og 8. maí og verða þeir fyrstu í Radio City Music Hall. Þá spilar hún í Chicago, Denver og fer yfir landamærin og leikur í Vancouver. Ferðinn þjófstartar hún hér heima og á Coachella-hátíðinni. Hlé verður á tónleikahaldinu í mánuð („ég lærði það af Sigur Rós," segir hún, „spila í mánuð og hvílast í mánuð"). Síðan hefst Evrópuleggur ferðarinnar á Glastonbury: „Þetta stendur meira og minna í eitt og hálft ár," segir hún keik. Nafnið Við erum varla sest niður, hún búin að biðja um að hurð sé hallað, en spurt er um nafnið á safninu, Volta, hvað er það? „Ég er alltaf að leita að einhverju orði sem hefur svona orku. Venjulegast kemur nafnið bara svona, úr einhverju blaði eða einhver segir eitthvað. Ég var búin að bíða í ár við vinnu á plötunni og það var ekki komið. Í textunum kemur fyrir orðið „voltage" og „voodoo", sem mér fannst orðið ofnotað einhvern veginn. Ég hef alltaf reynt að velja titla sem eru svona latína eða eitthvað, eru ekki enskir, sem er svolítið fyndið því fyrir okkur Evrópubúum er latína svona hlutlausa málið, en í Bandaríkjunum hefur það allt annan farangur: þar talar 51% ensku en 49% tala spænsku. Þannig að allt í einu er maður farinn að halda með þeim þó maður viti ekkert af því. En mér fannst Volta... ég man ekki hvernig það kom til, en svo gúglaði ég það og þá þýðir það bæði nafn á vísindamanni á Ítalíu sem fann upp batteríið, mjög fyndið batterí sem var þá eins og skápur að stærð eða eitthvað, og líka á í Afríku sem hefur verið virkjuð af mönnum og lón byggt af mönnum sem heitir Lake Volta. Svo það voru komnir ýmsir hlutir þarna inn. Ég ætla ekki að nefna neitt en menn geta getið sér til hvað það er. Svo er það líka dans á miðöldum sem ber þetta nafn, einhver mjög fyndinn dans, sem var mikið mál að læra. Þannig að ég var komin með margt í einu orði: dans, á í Afríku sem búið er að virkja og batteríið. Svo ókei - þetta passar. Innilokun og útrás Björk kvartar yfir að þetta séfyrsta viðtalið sitt á íslensku í langan tíma og nú verði hún að fara að þýða: „Hvað er „cabin fever?" spyr hún. „Ég var búin að vinna svo mikið heima í herbergi þar sem ég var með tölvuna, og svo var ég ólétt og átti barn og svona, þannig að ég var komin með nettan snert af „cabin fever" - hvað heitir það sem sjómenn fá þegar þeir eru búnir að vera lengi á sjó? Aðaldrifið í þessari plötu er „cabin fever" - að komast út á allan mögulegan hátt, hljóðfærin sem eru valin, staðirnir sem var tekið upp á og tilfinningalega, að langa í ævintýr. Á plötunum þremur á undan var ég komin með ramma svona tónlistarlega séð um hvað ég vildi mjög snemma: á Homogenic vildi ég fá svona techno-beat sem hljómaði eins og eldfjöll, svona íslenskt techno ef það er til með rómantískum fiðlum - augun þín og augun mín - svona. Á Vespertine var ég undir sterkum áhrifum frá kjöltutölvu, ég var nýbúin að kaupa svoleiðis og var svo spennt fyrir litlu hátölurunum, hljóðheimi sem væri svona tilbúinn, allt væri „static". Hvaða hljóðfæri hljómuðu best eftir svona niðurhal, harpa, klukkuspil og svoleiðis. Þar var ég komin með hjóðheim sem ramma. Þar eru allar raddir hvíslaðar." Hátt og í hljóði Í fyrstu slá mann tvær andstæður í Volta: annars vegar hávær dansinn með þungum ryþma og hins vegar sönglög sem eru mjög prívat, náin: Björk segir að á Homogenic hafi tekist á „hávær" tónlist, segir hún sposk, og lágvær, fjöll og dalir hafi skipst á til að ná í verkið dínamík, spennu. Vespertine og Medulla hafi verið lágstemmdari verk. Eftir launkofatímann hafi hún haft ríka þörf til að ná sambandi með tónlist sinni, eftir tvær plötur sem hún hafi gert í sínu horni „með sitt krosssaumsverk í kjöltunni" hafi hún viljað ná ákafa í samskipti sín við áheyrandur, þó allt sé á fullu blasti með ryþma og dóti vilji hún að sama ákafanum stafi af stilltari tónsmíðum verksins og nærgætnari. Eitt laganna á Volta heitir Wanderlust - Ferðaþrá. Ég minni hana á gamalt viðtal þar sem hún lýsti vilja sínum til að festa stemninguna við gömlu höfnina í Reykjavík, en í laginu er ort um höfn og blásarar líkja eftir skipum á útsiglingu og heimkomu: „Þetta er ekki um Ísland. Mér hafði ekki einu sinni dottið það í hug. Við kærastinn minn keyptum bát og búum á Manhattan - á bát. Það er alveg frábært. Þegar ég er hérna heima næ ég alveg náttúrusambandinu, en það er stundum erfitt að búa á Manhattan. Ég fæ stundum innilokunarkennd á Manhattan. Ég hélt að ég væri bara svona frík en ég fór í barnaafmæli í Brooklyn og í svoleiðis afmælum hittir maður alla vega fólk en allt Íslendinga, fólk úr öllum áttum. Þar var skrifstofufólk sem vann á Manhattan og sagði frá því að eftir einhverjar vikur í vinnunni hafi það orðið að komast burt, kallað á leigubíl og beðið: „Keyrðu mig að sjó, sama hvert er, alveg sama hvað það kostar." Að búa í borginni er því meira að heyra gjálfur og geta á kvöldin eða um helgar siglt burt - út á hafið. Það er ekki svo langt og þá er maður kominn út á Atlantshaf - það er stutt í það sko. Bumban og bomba Ég spyr hana um lagið Hope þar sem hún líkir saman bumbu og bomu: tilefnið var kona í Palestínu sem klæddi sig eins og hún væri vanfær en bar á sér sprengju. Allir hneyksluðust á aðferð hennar en sljákkaði í þeim þegar í ljós kom að hún var í raun vanfær: „Ég krotaði þennan texta hjá mér. Það var eiginlega fréttaflutningurinn sem furðaði mig, viðbrögðin. Þetta eru svo undarleg stríð sem við upplifum núna. Landamærin eru ekki lengur til, það er orðið svo loðið hver er með og hver er á móti. Hvernig gat þessi kona leikið sér með eitthvað jafn heilagt og líf, sögðu menn. Svo nokkrum dögum seinna þegar hið sanna kom í ljós þá var henni fyrirgefið. Ég skildi þetta ekki." Það er margt að finna á Volta: söng um óttann og hvernig þroskinn getur yfirunnið hann (Innocence), ástaróður (I See Who You Are), sjálfstæðishvöt við þéttan danstakt (Declare Independence), blíðukvæði (Dull Flame of Desire) sem hún syngur með Antony, og lag um unglingsárin, slit milli móður og barns: „Þegar maður er unglingur er maður ósigrandi. Það getur ekkert komið fyrir mann. Svo gerist eitthvað og maður reynir að fá það inn í hausinn á sér. Sakleysi er svo afstrakt orð. Það er mikill hroki að segja ég er ekki saklaus lengur. Heimurinn er svo flókinn og margbreytilegur. Ég veit ekkert um hindúisma. Þar er ég saklaus. Eða í skrifstofuhaldi í Víetnam. Þar yrði ég mjög saklaus. Þessi plata er svolítið um það, að fara út og prófa nýja hluti. Maður getur verið saklaus þangað til maður deyr, ef maður prófar ekki nýja hluti." „Þegar ég vissi hvað ég vildi..." Björk viðurkennir að hún yrki á plötunni um Sindra son sinn og samband sitt við hann, textinn er aftur ekki sértækur heldur almennur um samband foreldra og unglings. Svo er komið í lífi Bjarkar að yrkisefni hennar eru sótt í þá reynslu líka að eiga son sem er fullorðinn maður orðinn. Á nýju plötunni er talsvert um blásaraútsetningar, en hún segist vera að færa sig upp á skaftið í útsetningum fyrir flóknari skipan stærri sveita. Raunar er margt á Volta sem vísar beint í bigband-tónlist en með afar nútímalegu sniði. Í tímahraki viðtalsbilsins spyr ég hana hvernig standi á að hún sé að leggja í langferð með tíu manna blásarasveit skipaða ungum konum íslenskum. Það stendur ekki á svari: hljómsveitin hafi í grunn verið skipuð körlum eingöngu - því hafi hún kosið að kalla til blásarasveit skipaða konum og það hafi tekist að manna hana hér á landi: hún sjái líka formlega heild kórsins sem mikilvæga í tónleikahaldinu sem fram undan er. Rétt eins og í óperunni, R&B-tónlistinni og grískum harmleikjum sé nauðsynlegt að hafa kórinn einsleitan: af sama kyni, af svipuðum aldri og í útliti. Það fari best í útliti tónleikaferðarinnar. Tíminn okkar er búinn: margt mætti spyrja Björk um. Volta er enn eitt skrefið á þroskaferli hennar sem manneskju og listamanns. Hún sýnir okkur þann heiður að hefja hana hér á landi, fyrst með upptroðslu á tónleikum til styrktar samtökum gegn átröskun, og síðar með fullskipaðri sveit og öllum búnaði heimsferðarinnar í Laugardal annan í páskum. Þá verður stutt í að Volta komi út hinn 7. maí
Mest lesið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Ragnhildur og Hanna Katrín kveðja Búseta Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Fleiri fréttir Kunna ekki að slaka á og heyrðu í Svölu Björgvins Live in a fishbowl: Dr. Gunni alltaf á leiðinni til að drepa þig „Látið jólaljós ykkar skína skært“ Auður einhleypur og skýtur á yfirvöld vegna Yazans Fyrstur kemur, fyrstur fær: Magnúsi Eiríkssyni fagnað og þjóðinni boðið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Daði Freyr tekur stefnuna til Íslands eftir áratug úti Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ HAM reið á vaðið í fiskabúri X-ins 977 Létu ævintýrið loksins rætast í fiskabúrinu á X-inu „Stórir hlutir að koma og fólk þarf að vera tilbúið“ Emilíana Torrini heillaði tónleikagesti upp úr skónum Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Rétta harmonikkan er í harmonikkuverksmiðju í harmonikkuþorpi Iceland Airwaves ýtt úr vör á Grund Fagna tuttugu ára afmæli og troða upp á Grund Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Young Thug játar sök en losnar úr fangelsi Sjá meira