Menning

Út með sjálfsmynd þrælsins

Er hægt að búa hér? spyr Tolli um leið og hann vísar til horfinnar kynslóðar sem hugsaði ekki um rassgatið á sjálfri sér heldur uppbyggingu. fréttablaðið/anton
Er hægt að búa hér? spyr Tolli um leið og hann vísar til horfinnar kynslóðar sem hugsaði ekki um rassgatið á sjálfri sér heldur uppbyggingu. fréttablaðið/anton

Á stærstu sýningu Tolla til þessa vísa verkin til kynslóðar sem við miklu verri kost byggði upp almennilegt samfélag.

„Nei, alls ekki. Tímasetningin er snilld," segir myndlistarmaðurinn Tolli spurður hvort ekki sé óðs manns æði að efna til myndlistarsýningar nú á þessum síðustu og verstu.

Í dag opnar Tolli sína stærstu sýningu til þessa í Reykjavík Art Gallerí við Skúlagötu 30 og Gallerí listamenn við Skúlagötu 32. Sýningin er tvískipt. Annars vegar Búdda-myndir Tolla og hins vegar Íslandsmyndir - landslagsmyndir.

„Einmitt á þessari stundu er þörf á Fjölnismönnum. Búdda er auðvitað allra og alls. Miðja hans er kærleikur og hugarró sem er sú orka sem við þurfum til athafna. Ör bogamannsins skeikar ekki þegar hún er hlaðin þessu. Við þurfum að vera vissir núna. Ekki mörg tækifæri sem við fáum," segir Tolli um Búdda-myndir sínar.

Myndirnar hefur Tolli unnið hér heima sem og í Danmörku og Þýskalandi. Íslandsmyndirnar, allt landslagsmyndir, eru að sögn listamannsins tilbeiðsla til landsins: Fegurð - kraftur - kærleikur. „Það er Ísland," segir Tolli. Nokkuð óvænt nú þegar mótmælabylgja og reiðialda ríður yfir landið. Tolli segir að menn megi ekki rugla öllu saman í einn graut. Myndirnar tali og af þeim megi læra. Það má spegla sig í þeim og velta fyrir sér þeirri spurningu af hverju við búum hér á hjara veraldar þrátt fyrir óvinveitt samfélag.

„Ég sá eitt sinn graffití á vegg við Tryggvagötu. Nýbúið er að þrýstiþvo það í burtu: Ég elska þetta land en óttast ríkisstjórnina. Sem lýsir viðhorfum mínum til þess að vera Íslendingur. Á margan hátt er íslenskt samfélag æðislegt en á sínar veiku hliðar. Yfir allan vafa er hafið að ég er þakklátur fyrir að vera fæddur á þessum stað. Vegna náttúrunnar. Hefur ekkert með þjóðsöng eða fána að gera," segir Tolli og málar fjöll og firnindi, nafnlausa staði og eyðibýli sem húka fram á ystu nöf mögulegrar byggðar. Lítið hús undir ægilegu fjalli í faðmi hrikalegrar náttúru. Yfirgefið.

„Þar bjó fólk sem tilheyrði renaissance-kynslóð þessa lands. Fólkið sem byggði háskóla, spítala, lagði vegi og brúaði árnar. Hugsjón þess var ekki að hlaða undir rassgatið á sjálfu sér heldur var málið að koma börnum til mennta. Þess vegna standa þessi eyðibýli sem symból um hvað hægt er að gera. Vitnisburður genginnar kynslóðar sem við miklu verri kost náði að byggja upp samfélag. Sem er „existens" Íslendinga. Er þetta hægt? Er hægt að búa hérna?" spyr Tolli og festir myndir á veggi galleríanna.

Tolli sýndi í Magasin du Nord í Köben þegar svarti október reið yfir. Tolli hefur ekkert upp á Dani að klaga. „Þeir eru eins og þeir eru. Sérstakir. Eins og við erum mark­eraðir af því að hafa verið kúguð nýlenduþjóð eru þeir markeraðir af því að hafa verið nýlenduherrar í x-tíma. Ekkert endilega gott karma en karma sem þeir verða að eiga við. Eins megum við losna við þessa sjálfsmynd þrælsins og ekki láta það slá okkur út af laginu þó að við höfum kinksað í útrásinni."

[email protected]










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.