Menning

Rústað á svið

Ingvar E. Sigurðsson leikur stærsta hlutverkið í Rústað, blaðamanninn hundingslega sem mætir örlögum sínum á hótelherbergi í ótilgreindri borg.
Ingvar E. Sigurðsson leikur stærsta hlutverkið í Rústað, blaðamanninn hundingslega sem mætir örlögum sínum á hótelherbergi í ótilgreindri borg.

Í vikunni hófust æfingar á verki Söru Kane, Rústað (Blasted) sem frumsýnt verður á Nýja sviði Borgarleikhússins 30. janúar. Sýning verksins markaði tímamót þegar það var frumsýnt 1995 í Royal Court-leikhúsinu í London. Kane var þá 24 ára gömul og skiptust gagnrýnendur og leikhúsáhugafólk í tvær fylkingar um ágæti verksins. Sumir spöruðu ekki gífuryrðin og býsnuðust yfir því að verkið væri ekki boðlegt. Aðrir hömpuðu leikskáldinu unga. Margt í viðtökunum minnti á harkalegar viðtökur fyrstu verka Pinters og Osbornes á sjötta áratugnum og viðtökunum sem Saved eftir Edward Bond fékk á sínum tíma á sjöunda áratugnum. Framlag Söru Kane til leikhúsbókmenntanna er í dag talið einstakt og verk hennar sem voru partur af bresku „In-yer-face"- bylgjunni hristu duglega upp í bresku leikhúslífi og voru sýnd víða.

Íslensk leikhús hafa ekki til þessa ráðist í sviðsetningar á verkum Söru Kane. Þar til nú. Auk Rústað mun Borgarleikhúsið standa fyrir leiklestrum á öllum verkum hennar á starfsárinu. Í samstarfi við Endurmenntunarstofnun verður hleypt af stokkunum námskeiði í santímaleikritun með höfuð-áherslu á verk skáldsins.

Blasted, eða Rústað, eins og það heitir í íslenskri þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur, gerist á hóteli í vestrænni borg þar sem borgarastyrjöld er í uppsiglingu. Það er ofbeldiskennt svo ekki sé meira sagt og ofboðslegt þótt atburðir á sviðinu eigi sér margar samsvaranir í sígildum verkum, einkum Grikkja. Ingvar E. Sigurðsson leikur burðarhlutverk sýningarinnar en auk þess munu Björn Thors og Kristín Þóra Haraldsdóttir leika í sýningunni. Kristín Eysteinsdóttir hlaut Grímuna sem leikstjóri ársins árið 2008 og setur nú upp sitt fyrsta verk sem fastráðinn leikstjóri við Borgarleikhúsið. Leikmynd og búninga gerir Börkur Jónsson en Þórður Orri Pétursson lýsir. Tónlist gerir Frank Hall.

Námskeið um samtímaleikritun í samstarfi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands

Í tengslum við sýninguna býður Endurmenntunarstofnun í samvinnu við Borgarleikhúsið, upp á námskeið í samtímaleikritun með sérstaka áherslu á verk Söru Kane. Una Þorleifsdóttir listaháskólakennari fjallar á námskeiðinu almennt um Söru Kane, einkenni verka hennar og áhrif þeirra á leikritun og leikhúsið almennt. Magnús Þór Þorbergsson, leiklistarfræðingur, tekur síðan sérstaklega fyrir hvernig „in-yer-face"-bylgjan sem fylgdi í kjölfar Rústað náði fótfestu í Berlín og víðs vegar um Evrópu. Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri fjallar svo um Rústað og uppfærslu sína.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.