Menning

Fýsn frumsýnd í kvöld

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann leikskáld.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann leikskáld. MYND/e.ól.

Annað kvöld frumsýnir Leikfélag Reykjavíkur á Nýja sviði Borgarleikhússins nýtt íslenskt verk, Fýsn eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann. Leikritið vann leikritasamkeppnina „Sakamál á svið“ sem LR stóð fyrir árið 2006. Var valið úr hópi rúmlega þrjátíu aðsendra leikrita í keppninni. Er þetta fyrsta verk Þórdísar sem Leikfélagið sýnir og þriðja verkið í þríleik eftir Þórdísi sem óhætt er að kalla eitt af athyglisverðustu leikskáldum af yngri kynslóðinni. Fyrsta verk þríleiksins, Brotið, var sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2005, og í kjölfarið kom Hungur, sem var sýnt á litla sviði Borgarleikhússins 2006. Og nú lýkur þríleiknum með Fýsn.

Marta Nordal, leikkona hjá Leikfélaginu, þreytir hér frumraun sína sem leikstjóri en þær Þórdís hafa unnið að uppsetningunni um nokkurt skeið. Að auki hefur Þórdís unnið að þróun verksins í samstarfi við leikhús í Ástralíu og Bretlandi. Til stóð að sýna verkið á síðasta leikári en því var frestað vegna þrengsla á Nýja sviðinu.

Lífið virðist dans á rósum hjá ungum nýgiftum hjónum en fyrr en varir þurfa þau að horfast í augu við ógnvekjandi leyndarmál, segir í tilkynningu frá Leikfélaginu um efni verksins. Hversu vel þekkir maður maka sinn í raun?

Leikmynd og búninga vinnur Rebekka A. Ingimundardóttir, tónmynd er eftir Elísabetu Indru Ragnarsdóttur, en lýsing er í höndum Þórðar Orra Péturssonar. Fjórir leikarar koma fram í verkinu: Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Víðir Guðmundsson, og Theodór Júlíusson.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.