Menning

Ómælanleg náttúrufegurð

Horfin náttúra Rúrí í innsetningunni Sökkvun.Fréttablaðið/GVA
Horfin náttúra Rúrí í innsetningunni Sökkvun.Fréttablaðið/GVA

Myndlistarkonan Rúrí er höfundur sýningarinnar Sökkvun sem nú stendur yfir í StartArt-listamannahúsi á Laugavegi. Rúrí er þjóðinni vel kunn fyrir verk sín sem oft má finna á óvæntum stöðum í umhverfinu, en á Sökkvun er viðfangsefni hennar náttúran og nýting okkar á henni.

Sýningin opnaði um miðjan síðasta mánuð og er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Titilverk sýningarinnar er myndbandsinnsetning í stærsta sal sýningarrýmisins; myndskeiði er varpað á vegg og á skjám sem komið hefur verið fyrir í rýminu má sjá svipmyndir af gæsahreiðrum og textabrot. Í tveimur minni sölum má svo sjá ljósmyndir og skúlptúr.

„Það er sleginn sami grunntónn í þessum verkum; þau snerta öll á tengslum mannsins við jörðina og umhverfi sitt, en á ólíkan hátt þó," segir Rúrí. „Ljósmyndirnar og myndbandsverkin tengjast nýtingu okkar á vatnsauðlindum, en þriðja verkið er það fyrsta af nýjum verkum sem ég er að vinna að sem kallast Tilvistarleg. Verkið fjallar um þau efnahagslegu gildi sem virðast hafa sérstöðu í nútímanum og sýnir okkur því nokkrar tegundir efna sem hafa mikið vægi í efnahagslífinu: svartolíu, maís, vatn og loft."

Í titilverkinu Sökkvun má sjá myndskeið af náttúrulegu umhverfi sem nú er horfið sjónum. „Verkið er allt tekið á svæðinu í kringum Kárahnjúka fyrir nokkrum árum. Myndskeiðið sýnir hvernig lónið stækkar smám saman og drekkir umhverfinu, fegurðinni og hreiðrum gæsanna. Það voru mörg hundruð hreiður sem fóru undir lónið. Þegar maður verður vitni að þessari atburðarás vekur það upp spurninguna: höfum við heimild til þess að taka svona yfir náttúruna og breyta henni? Það hefur tekið jörðina óratíð að finna vatninu sínu farveg og við ætlum að breyta því á örskotsstundu.

Mannkynið virðist sífellt vilja sigra náttúruna, en það er ekki til neinn sigur gagnvart jörðinni; það eina sem við getum sigrað erum við sjálf með því að finna eitthvert gullið jafnvægi með umhverfi okkar. Það er eini sigurinn sem er raunhæfur."

Myndin sem sýning Rúríar dregur upp af sambýli mannsins við náttúruna er því bæði átakanleg og erfið, en fegurðin er þó aldrei langt undan. „Sökkvun sýnir fyrst og fremst fegurðina í náttúrunni; þetta er fegurð sem ekki er hægt að verðleggja eða mæla á nokkurn hátt."

Sökkvun stendur yfir í StartArt-listamannahúsi, Laugavegi 12b, til 30. júní. [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.