Menning

Tvær sýningar frá Ameríku

Fögur leirlist Keramíkverk frá Níkaragva.
Fögur leirlist Keramíkverk frá Níkaragva.

Tvær áhugaverðar myndlistarsýningar verða opnaðar í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, á laugardaginn kemur. Á báðum sýningunum má sjá listaverk frá Ameríku, en þær eru að öðru leyti afar ólíkar innbyrðis.

Áhugafólk um myndlist hlýtur að taka því fagnandi að fá tækifæri til þess að berja augum samtímalist frá Vesturheimi, enda straumar og stefnur þar oft á skjön við það sem gerist í Evrópu. Önnur sýninganna býður upp á myndlist eftir Bandaríkjamanninn Creighton Michael, en hin er sýning á keramíkverkum frá Níkaragva.

Verk eftir Creighton Michael verða reyndar á tveimur myndlistarsýningum á höfuðborgarsvæðinu næstu vikurnar þar sem auk sýningarinnar í Hafnarborg verður sýning á verkum hans opnuð í StartArt 31. júlí.

Creighton Michael vinnur verk sín í ýmsa miðla, en í öllum verkum sínum leggur hann fyrst og fremst áherslu á teikningu. Hann vinnur með liti og þrykk og teiknar á pappír, auk skúlptúrteikninga í ýmis efni. Á sýningunni í Hafnarborg má þannig sjá bæði skúlptúra og grafíkverk. Listamaðurinn býr og starfar í New York, en hann kemur til Íslands til þess að vera viðstaddur opnanirnar hér.

Níkaragva er stærsta land Mið-Ameríku og keramík þaðan á sér djúpstæða menningarlega sögu. Nú í fyrsta sinn í sögunni er samtímakeramík frá Níkaragva til sýnis í evrópskum söfnum, en sýningin í Hafnarborg kemur hingað frá Eistlandi og hefur áður verið sýnd í þremur dönskum söfnum.

Ýmsir fræðimenn sem rannsakað hafa menningu Níkaragva telja að skrautlegir og fagrir keramíkmunir hafi verið dýrmætasti varningurinn í héraðinu San Juan á öldum áður, líkt og hrafntinna og gull voru í öðrum héruðum. Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að fíngert keramík hafi verið notað í trúarlegum tilgangi í Níkaragva og að pottarnir og ílátin frá þessum tíma hafi meðal annars verið notuð við fórnir.

Fyrir fimm hundruð árum lögðu Evrópumenn Níkaragva undir sig en með sýningu þessari hafa leirkerasmiðir og listamenn frá Níkaragva hafið sína eigin menningarlegu innrás í Evrópu.

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.