Menning

Skrifar ævisögu Villa Vill

Um Vilhjálm hefur verið fjallað á ýmsa lund svo sem í blaða- og tímaritagreinum, minningartónleikum, í útvarpi og sjónvarpi. Og nú er komið að bók um kappann.
Um Vilhjálm hefur verið fjallað á ýmsa lund svo sem í blaða- og tímaritagreinum, minningartónleikum, í útvarpi og sjónvarpi. Og nú er komið að bók um kappann.
„Ég fór með þessa hugmynd til þeirra og átti allt eins von á því að þeir vildu finna einhvern þekktan rithöfund í þetta verkefni. Og ég hefði kyngt þeim rökum. En maður hefur svo sem séð þekkta rithöfunda skrifa um bransann og fundist það uppskrúfað og skrítið," segir Jón Ólafsson tónlistarmaður. Hann hefur nú tekist á hendur það verkefni að rita ævisögu Vilhjálms Vilhjálmssonar heitins, eins ástsælasta söngvara þjóðarinnar. Það er Sena sem gefur út og sætir tíðindum að útgáfufyrirtækið ætli nú að reyna fyrir sér í bókaútgáfu. „Við erum að skoða alla möguleika," segir Ísleifur Þórhallsson hjá Senu.

Sá sem mun halda utan um bókaútgáfu Senu verður Jón Þór Eyþórsson. Að sögn Ísleifs fer Sena varlega af stað í þessum efnum og er ritun ævisögu Villa Vill fyrsta verkefnið. Stefnt er að tveimur til þremur titlum útgefnum fyrir næstu jól. Og munu þeir sverja sig í ætt þeirrar starfsemi sem Sena hefur staðið í. „Of snemmt er um þau að tala en þau eru tengd inn í tónlistarheiminn. Okkur líst mjög vel á Jón. Hann hefur „passion" fyrir þessu.

Svo skiptir miklu máli að sá sem skrifar þessa bók sé með bransann í blóðinu. Þekki það hvernig er að vera í stúdíói og taka upp lög, að standa á sviði… vera tónlistarmaður. Og svo fær hann öflugan ritstjóra í lið með sér," segir Ísleifur. Sá ritstjóri er enginn annar en Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, sem mun vera Senu til ráðgjafar í bókaútgáfunni.

Jón hefur ekki fengist við bókaskriftir áður en segir tíma til kominn að ögra sér. „Ég treysti mér í þetta og er ánægður með að þeir skuli sýna mér þetta traust. Þeir hafa séð eitthvað í gömlu sjónvarpsþáttunum mínum, einhverja glóð sem má breyta í bál."

Jón er byrjaður á þessu verkefni sem krefst gríðarlega mikillar heimildarvinnu og stefnir Jón á að fara á söguslóðir, Akureyri og Lúxemborg þar sem Vilhjálmur bjó, auk þess sem hann ræðir við samferðamenn Vilhjálms. „Ég hef stúderað Vilhjálm og mér finnst sem hann hafi fyrst verið farinn að sýna virkilega hvað í honum bjó þegar hann féll frá. Var orðinn alvöru listamaður en ekki bara söngvari, til dæmis með þessa texta sína. Og farinn að hafa meiri áhrif." [email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.