Erlent

Lokuðu ólöglegum síðum

[email protected] skrifar
Toy story er vinsæl meðal niðurhalara.
Toy story er vinsæl meðal niðurhalara.

Níu bandarískum vefsíðum sem buðu upp á ólöglegt niðurhal á kvikmyndum var lokað í gær. Síðurnar höfðu sumar boðið upp á niðurhal á glænýjum myndum eins og Toy Story 3 og Iron Man 2 innan sólarhrings frá því að þær voru frumsýndar.

Lokun síðnanna er stærsta aðgerð sinnar tegundar og liður í stórum aðgerðum bandarískra stjórnvalda til að stemma stigu við ólöglegu niðurhali á sjónvarpsefni, kvikmyndum og tónlist. Samanlagt heimsóttu 6,7 milljónir manna heimasíðurnar níu í hverjum mánuði.

Auk þess sem síðunum var lokað voru eignir á fimmtán banka- og fjárfestingareikningum gerðar upptækar og húsleitir gerðar í Norður-Karólínu, New York, New Jersey og Washington. Rannsókn lögreglunnar fór fram í ellefu ríkjum og einnig í Hollandi. Rúmlega 100 manns unnu að rannsókninni.

Aðgerðin í gær er sú fyrsta sinnar tegundar, en hingað til hefur sjónum mest verið beint að ólöglegum DVD-diskum. Nú var í fyrsta sinn ráðist af fullum krafti á heimasíður sem bjóða ólöglegt niðurhal og græða ýmist á sölu auglýsinga eða frjálsum framlögum. Nú stendur aðeins á síðunum níu að þeim hafi verið lokað af yfirvöldum.

John Morton, yfirmaður innflytjenda- og tollastofnunarinnar ICE, sagði málið upphafið að löngu ferli þar sem reynt verði að ráða niðurlögum ólöglegra niðurhalssíðna. Hann sagði jafnframt að hann vissi vel að það hefði ekki tekist með þessari einu aðgerð. „En ef einhver síða kemur upp aftur, þá komum við aftur."

Stjórnvöld hafa sagst ætla að grípa til frekari aðgerða, mögulega með lögsóknum og fangelsisdómum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×