Menning

Einvalalið listamanna á styrktartónleikum

Arnhildur Valgarðsdóttir, organisti Lágafellskirkju.
Arnhildur Valgarðsdóttir, organisti Lágafellskirkju. Fréttablaðið/Pjetur
Jólaljós er árlegur viðburður og ágóðinn alltaf notaður til að hjálpa einhverjum sem tengist Mosfellssveitinni og þarfnast aðstoðar," segir Arnhildur Valgarðsdóttir, organisti Lágafellskirkju, um styrktartónleika Kirkjukórs Lágafellssóknar sem að þessu sinni verða í Guðríðarkirkju á sunnudaginn klukkan 16.

Allir listamennirnir sem fram koma gefa vinnu sína og ágóðinn rennur óskiptur til eftirlifandi barna Hönnu Lilju Valsdóttur, sem lést af barnsförum 14. ágúst síðastliðinn.

Einvalalið listamanna kemur fram á tónleikunum og Arnhildur segist ekki nógsamlega geta tjáð þakklæti sitt til tónlistarmannanna sem allir hafi sagt já um leið og ekki talið eftir sér að gefa vinnu sína. „Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er tilbúið til að leggja svona góðum málefnum lið," segir hún. „Í fyrra fylltum við Guðríðarkirkju og ég vonast til að það verði eins núna."

Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum eru Ragnar Bjarnason, KK og Ellen, Jónsi í Svörtum fötum, Védís Hervör, Matthías Stefánsson, Karlakór Kjalnesinga, og fleiri auk Kirkjukórs Lágafellssóknar og Arnhildar sjálfrar.

„Þetta verða stórir tónleikar," segir hún „og óhætt að lofa góðri skemmtun auk þess sem fólk styrkir þetta góða málefni með því að mæta."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.