Matur

Helgarmaturinn - Gómsæt kókoskaka

Hér er uppskrift að sérlega sumarlegri og gómsætri kókosköku í boði Guðríðar Haraldsdóttir, aðstoðarrtitstjóra Vikunnar.

„Þegar ég rakst á hana í nýjasta Gestgjafanum um daginn varð ég að prófa hana og fannst hún æðislega góð! Hún er blautari og meira djúsí (það gera eplin) en kókoskakan sem ég hef stundum bakað og er orðin að nýju uppáhaldskökunni minni úr kókosheimum.

Kókoskaka með eplum og sultu

(8-10 sneiðar)

180 g smjör, mjúkt

160 g sykur

3 egg

180 g hveiti

70 g kókosmjöl

1 tsk. lyftiduft

2 græn súr epli, afhýdd og rifin gróft niður

1 tsk. vanilludropar

150-200 g rabarbarasulta, hindberjasulta eða bara uppáhaldssultan ykkar

Hitið ofninn í 170°C. Hrærið smjör og sykur mjög vel saman. Bætið eggjum út í, einu í einu, og hrærið vel saman við. Blandið hveiti, kókosmjöli og lyftidufti út í og blandið saman við ásamt eplum og vanilludropum. Setjið deigið í tvö smurð form, 22-24 cm, og bakið í 30-40 mín. Látið botnana kólna aðeins og leggið þá síðan saman með sultu. Fallegt er að sigta flórsykur yfir.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.