Menning

Game of Thrones-leikari leikstýrir í Þjóðleikhúsinu

Ian McElhinney í Þjóðleikhúsinu þar sem hann leikstýrir ‘‘Með fulla vasa af grjóti„
Ian McElhinney í Þjóðleikhúsinu þar sem hann leikstýrir ‘‘Með fulla vasa af grjóti„
"Þeir eru yndislegir náungar og það er mjög gott að vinna með þeim," segir norður-írski Game of Thrones-leikarinn Ian McElhinney, sem leikstýrir Stefáni Karli Stefánssyni og Hilmi Snæ Guðnasyni í leikritinu Með fulla vasa af grjóti.

Leikritið er að fara aftur á svið eftir langt hlé og sem fyrr leika Stefán Karl og Hilmir Snær öll fjórtán hlutverkin og aftur er McElhinney leikstjóri. Með fulla vasa af grjóti var frumsýnt á Íslandi í árslok 2000 og fékk frábærar viðtökur. Sýningarnar urðu alls 180 og yfir fjörutíu þúsund manns sáu verkið.

"Núna tólf árum síðar erum við mættir aftur. Strákarnir eru eldri en einnig betri og reyndari leikarar. Þeir eru líka á réttari aldri fyrir hlutverkin. Þeir eru báðir mjög hæfileikaríkir og búa yfir miklum aga sem er nauðsynlegt fyrir svona tveggja manna sýningu á stóru sviði," segir McElhinney.

Það var eiginkonan hans, Marie Jones, sem samdi Með fulla vasa af grjóti árið 1996. Fyrst var leikritið sýnt á Írlandi og fékk ágætar viðtökur en þegar McElhinney tók við leikstjórninni þremur árum síðar, eða árið 1999, breyttu þau áherslum og leikritið sló í gegn á Írlandi.

Það var í framhaldinu sýnt á West End í London, á Broadway og víða um heim. Sjálfur hafði McElhinney ekki leikstýrt því í mörg ár, eða fyrr en núna þegar hann sneri aftur í Þjóðleikhúsið.

Auk þess að leika í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones hefur McElhinney leikið í tveimur sjónvarpsþáttaröðum að undanförnu, eða The Fall með Gillian Anderson úr X-Files í aðalhlutverkinu, og í Titanic: Blood and Steel sem fjallar um smíði Titanic-skipsins.

[email protected]







Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.