Menning

Opnað fyrir umsóknir um Eyrarrósina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá afhendingu Eyrarrósarinnar árið 2012.
Frá afhendingu Eyrarrósarinnar árið 2012. vísir/sigurjón
Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar, verður veitt í ellefta sinn sinn í mars 2015. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi.

Handhafi Eyrarrósarinnar hlýtur 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Tíu verkefni verða valin á Eyrarrósarlistann en af þeim hljóta þrjú verkefni tilnefningu til Eyrarrósarinnar og fá í sinn hlut bæði peningaverðlaun og flugmiða frá Flugfélagi Íslands. Eitt þeirra hlýtur Eyrarrósina sem Dorrit Moussaieff forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar, afhendir.

Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Verðlaunin eru mikilvæg enda um veglega upphæð að ræða, en tilnefning til Eyrarrósar er einnig mikilsverður gæðastimpill fyrir þau afburða menningarverkefni sem hana hljóta.

Umsækjendur geta meðal annars verið stofnanir, tímabundin verkefni, söfn og menningarhátíðir.

Fyrri Eyrarrósarhafar eru: Áhöfnin á Húna, Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, tónlistarhátíðin Bræðslan, Landnámssetrið í Borgarnesi, rokkhátíðin Aldrei fór ég suður, Strandagaldur á Hólmavík, LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði.

Umsóknarfrestur um Eyrarrósina 2015 er til miðnættis þann 8. febrúar 2015 og skulu umsóknir sendar rafrænt á [email protected].






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.