Hjónabandið skammlífa Stefán Pálsson skrifar 13. desember 2015 11:00 Getur nakinn maður að fitla við sig í búri talist list? Við þessa heimspekilegu spurningu glímdi íslenska þjóðin í rúma viku og sitt sýndist hverjum. Margir hölluðust að því að hvað svo sem um athæfið mætti segja, þá væru viðbrögðin, sem það framkallaði og ekki síður hin gríðarlega athygli sem það fékk, svo mikil að um listviðburð hlyti að vera að ræða. Aðrir mótmæltu og sögðu að ekki væri nóg að horfa bara á teljaratölur á jútúb-síðum eða hvort virkir í athugasemdum hafi brugðist ókvæða við. Múgsefjun geti aldrei jafngilt vottorði um listrænt gildi verka. Þeir sem gagnrýna listamenn fyrir að grípa til ódýrra bragða til að fanga athygli fjöldans eru líklega oft hinir sömu og amast við því þegar listum er breytt í keppnisgreinar: ýmist með beinum hætti líkt og í ótal veruleikasjónvarpsþáttum sem ganga út á að gefa fólki einkunn fyrir að syngja eða með óbeinum hætti þegar listaverk á borð við bækur og leiksýningar eru smættaðar niður í einfalda stjörnugjöf. En er í raun hægt að keppa í listum? Margir hafa svarað þeirri spurningu játandi. Þar á meðal var franskur sagnfræðingur með rostungsyfirvaraskegg, Pierre de Frédy. Sagnfræðingurinn, sem fæddist árið 1863, var eins og svo margir evrópskir samtíðarmenn hans, hugfanginn af Grikklandi til forna og menningu þess. En hann var líka sérstakur áhugamaður um menntamál. Bretland var um þær mundir öflugasta iðnveldi heims og drjúgur hluti heimsins laut stjórn Viktoríu Bretlandsdrottningar. Það var því eðlilegt að menntafrömuðir annarra landa hugsuðu sem svo að Bretar væru greinilega að gera eitthvað rétt og vert væri að taka skólakerfi þeirra sér til fyrirmyndar.Ofbeldi eða uppeldi? Deila má um það hvort bresku skólarnir hafi verið vel fallnir til útflutnings. Vegna sögulegra tilviljana og hefða bjuggu Bretar við kerfi þar sem framtíðarleiðtogar voru aldir upp í harðneskjulegum drengjaheimavistarskólum uppi í sveit. Gæði kennslunnar voru rýr en þeim mun meiri orka fór í að halda uppi aga. Snemma uppgötvuðu skólastjórnendur að skynsamlegt væri að láta nemendurna fá útrás fyrir orkuna í gegnum íþróttir, einkum hópíþróttir á borð við krikket og misofbeldisfulla boltaleiki sem að lokum þróuðust yfir í fótbolta og rúbbí. Íþróttaiðkunin var miklu meira en tómstundaiðja milli kennslustunda, heldur varð hún miðlægur þáttur skólastarfsins. Bretar álitu líka að færni í boltaleikjum skilaði sér í klókari herstjórnendum og hlutverk skólanna var öðrum þræði að framleiða yfirmenn í hernum. Pierre de Frédy hélt tvítugur til Englands að kynna sér íþróttakennslu og varð stórhrifinn. Í hans huga þyrfti Frakkland og raunar heimurinn allur á stórátaki að halda í íþróttamálum. Og þegar þessi sannfæring blandaðist saman við forn-grikkjablætið var stutt í rökrétta niðurstöðu. Rétt er að taka fram, áður en lengra er haldið, að enginn þekkir Pierre de Frédy undir hans rétta nafni. Pierre var af aðalsætt og bar mikinn titil: baróninn af Coubertin.saga til næsta bæjarPierre de Coubertin barón er heimskunnur sem stofnandi Ólympíuleika nútímans. Honum tókst að fá grísk stjórnvöld til að halda veglega leika í Aþenu árið 1896 með þátttöku íþróttamanna víðs vegar að úr heiminum. Grikkir höfðu áður gert tilraunir til að endurvekja hina fornu Ólympíuleika, en þessi tilraun varð burðugri, ekki hvað síst vegna rausnarskapar grísku stjórnarinnar sem stefndi um þær mundir lóðbeint í enn eitt þjóðargjaldþrotið. Baróninn franski ákvað þegar í upphafi að leikarnir skyldu, líkt og Ólympíuleikarnir fornu, fara fram á fjögurra ára fresti. Stjórnvöld í Aþenu voru meira en til í að hýsa leikana í hvert sinn, en de Coubertin hafði aðrar hugmyndir. Hann sá fyrir sér að íþróttamótið flakkaði milli stórborga heimsins og drægi sífellt fleiri iðkendur og áhorfendur til sín. Umdeild hugmynd Í fyrstu snerust Ólympíuleikarnir alfarið um íþróttakeppni, þótt vissulega væru sumar greinarnar sérkennilegar, svo sem kafsund, reiptog og skotveiðar á lifandi dúfum. En de Coubertin var með langtímaáætlun. Á Ólympíuleikunum á Grikklandi til forna – hugsaði Fransmaðurinn – höfðu fremstu listamenn einnig mætt til keppni og barist um verðlaun, þannig hefðu listir og íþróttir fallist í faðma og myndað eina heild. Um leið og íþróttaleikarnir máttu heita fastir í sessi og framtíð þeirra trygg, fór de Coubertin að þrýsta á um þetta hugðarefni sitt. Viðbrögðin voru blendin. Engum þótti hugmyndin jafn góð og Ólympíuforsetanum sjálfum, en baróninn var frekjuhundur sem erfitt var að andmæla auk þess sem ýmsum þótti að karlinn ætti það skilið eftir alla vinnuna að fá eins og eitt og eitt gæluverkefni í gegn. Ólympíunefndin samþykkti árið 1906 að taka upp keppni í listum strax á næstu leikum. Þeir áttu að fara fram í Rómaborg, en eldgos í Vesúvíusi sama ár varð til þess að flytja þurfti mótið til Lundúna. Þar sem undirbúningstími Bretanna var ekki nema eitt og hálft ár þótti ekki rétt að demba á þá listgreinakeppni til viðbótar. Leikarnir 1912 fóru fram í Stokkhólmi. Undirbúningstími var nægur og því ekki hægt að nota þá afsökun til að sleppa því að keppa í listum. Sænska Ólympíunefndin fann hins vegar málinu allt til foráttu og reyndi sitt ýtrasta til að losna við þennan dagskrárlið sem þeim virtist flókinn í framkvæmd, kostnaðarsamur og óspennandi. Baróninn lét sig hins vegar ekki og með ofríki og hótunum skikkaði hann Svíana til að standa við sitt. Þeir mögluðu og í hefndarskyni sniðgengu sænskir listamenn keppnina að mestu og jafnvel eru vísbendingar um að sænska nefndin hafi vísað í kyrrþey burt þeim framlögum sem þó bárust.Listgreinaflokkarnir voru fimm: arkitektúr, tónlist, bókmenntir, myndlist og höggmyndalist. Skyldu listaverkin öll fjalla um íþróttir með einum eða öðrum hætti. Þannig ættu arkitektarnir að hanna íþróttamannvirki, myndlistarmennirnir mála íþróttafólk og svo koll af kolli. Þessar sérhæfðu kröfur ýttu ekki undir þátttöku og í mörgum flokkanna voru innsendu verkin fá og gæði þeirra svo misjöfn að dómnefndir treystu sér ekki til að úthluta gull-, silfur- og bronsverðlaunum í öllum flokkum. Þannig fékk enginn silfur eða brons fyrir tónlist, myndlist, arkitektúr og bókmenntir á Stokkhólmsleikunum.Hrokagikkur móðgaður Bókmenntahluti leikanna varð raunar enn meira klúður en flestir gerðu sér grein fyrir á sínum tíma. De Coubertin óttaðist að vandræðalega fá verk bærust til keppni og orti því sjálfur óð til Ólympíuleikanna, sem hann sendi inn undir dulnefninu Georges Hohrod og Martin Eschbath frá Þýskalandi. Dómnefndin komst að þeirri niðurstöðu að kvæðið væri það eina sem verðskuldaði verðlaun. Baróninn var þar með kominn í klemmu, enda liti ekki vel út að forseti Ólympíunefndarinnar hirti sjálfur verðlaunin, hann upplýsti því aldrei um hver stæði í raun á bak við dulnefnið og kom það ekki í ljós fyrr en fræðimenn fóru að gramsa í skjalasafninu að honum látnum. Öðrum manni var ekki skemmt þegar niðurstaðan úr bókmenntakeppninni lá fyrir. Það var ítalska skáldið Gabriele D’Annunzio, sem var stærsta nafnið í ítölskum bókmenntum um þær mundir. D’Annunzio, sem síðar varð ein af helstu hetjum fasista, var mikill oflátungur og fræg er sagan af því þegar hann neitaði að taka við bréfi sem honum var borið með árituninni: „Til mesta skálds Ítala“. Sjálfur kannaðist hann ekki við þá nafnbót – hann væri mesta skáld í heimi?… En D’Annunzio var einn fárra sem urðu við kallinu og sendi ljóð til Ólympíukeppninnar og getur ekki hafa verið kátur þegar það var metið léttvægt og ekki einu sinni verðugt á verðlaunapall. D’Annunzio var langfrægasti listamaðurinn til að tengjast listakeppni Ólympíuleikanna og þykja raunar furðufá hinna verðlaunuðu verka merkileg í dag. Stöku einstaklingar hafa ratað í sögubækur, svo sem Bandaríkjamaðurinn Walter Winans sem var myndhöggvari og skotíþróttamaður, sem náði að vinna til verðlauna á báðum sviðum – og Jack Butler Yeats, bróðir rithöfundarins kunna, sem vann fyrstu gullverðlaun Írska lýðveldisins?… fyrir listmálun. Meðan de Coubertin naut við datt engum í hug að hrófla við listgreinunum og keppnisflokkunum fjölgað fremur en hitt. En fyrir leikana 1952 í Helsinki harðneituðu skipuleggjendur að hafa formlega keppni í listum. Síðar voru verðlaunin fyrir þessar greinar snyrtilega tekin út af listum yfir sigurvegara á Ólympíuleikum. Hjónaband lista og íþrótta sem baróninn sá fyrir sér endaði því með skilnaði að borði og sæng. Og aldrei fór það svo að íslenskir listamenn færðu þjóðinni sitt fyrsta Ólympíugull. Einn Íslendingur keppti í listgreinum á Ólympíuleikum. Það var listmálarinn Ásgeir Bjarnþórsson í Lundúnum 1948. Óðinn má vita hvar framlag hans er niðurkomið nú. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga rifja upp gamla takta í Draumahöllinni Bíó og sjónvarp Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Khalid kemur út úr skápnum Lífið Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira
Getur nakinn maður að fitla við sig í búri talist list? Við þessa heimspekilegu spurningu glímdi íslenska þjóðin í rúma viku og sitt sýndist hverjum. Margir hölluðust að því að hvað svo sem um athæfið mætti segja, þá væru viðbrögðin, sem það framkallaði og ekki síður hin gríðarlega athygli sem það fékk, svo mikil að um listviðburð hlyti að vera að ræða. Aðrir mótmæltu og sögðu að ekki væri nóg að horfa bara á teljaratölur á jútúb-síðum eða hvort virkir í athugasemdum hafi brugðist ókvæða við. Múgsefjun geti aldrei jafngilt vottorði um listrænt gildi verka. Þeir sem gagnrýna listamenn fyrir að grípa til ódýrra bragða til að fanga athygli fjöldans eru líklega oft hinir sömu og amast við því þegar listum er breytt í keppnisgreinar: ýmist með beinum hætti líkt og í ótal veruleikasjónvarpsþáttum sem ganga út á að gefa fólki einkunn fyrir að syngja eða með óbeinum hætti þegar listaverk á borð við bækur og leiksýningar eru smættaðar niður í einfalda stjörnugjöf. En er í raun hægt að keppa í listum? Margir hafa svarað þeirri spurningu játandi. Þar á meðal var franskur sagnfræðingur með rostungsyfirvaraskegg, Pierre de Frédy. Sagnfræðingurinn, sem fæddist árið 1863, var eins og svo margir evrópskir samtíðarmenn hans, hugfanginn af Grikklandi til forna og menningu þess. En hann var líka sérstakur áhugamaður um menntamál. Bretland var um þær mundir öflugasta iðnveldi heims og drjúgur hluti heimsins laut stjórn Viktoríu Bretlandsdrottningar. Það var því eðlilegt að menntafrömuðir annarra landa hugsuðu sem svo að Bretar væru greinilega að gera eitthvað rétt og vert væri að taka skólakerfi þeirra sér til fyrirmyndar.Ofbeldi eða uppeldi? Deila má um það hvort bresku skólarnir hafi verið vel fallnir til útflutnings. Vegna sögulegra tilviljana og hefða bjuggu Bretar við kerfi þar sem framtíðarleiðtogar voru aldir upp í harðneskjulegum drengjaheimavistarskólum uppi í sveit. Gæði kennslunnar voru rýr en þeim mun meiri orka fór í að halda uppi aga. Snemma uppgötvuðu skólastjórnendur að skynsamlegt væri að láta nemendurna fá útrás fyrir orkuna í gegnum íþróttir, einkum hópíþróttir á borð við krikket og misofbeldisfulla boltaleiki sem að lokum þróuðust yfir í fótbolta og rúbbí. Íþróttaiðkunin var miklu meira en tómstundaiðja milli kennslustunda, heldur varð hún miðlægur þáttur skólastarfsins. Bretar álitu líka að færni í boltaleikjum skilaði sér í klókari herstjórnendum og hlutverk skólanna var öðrum þræði að framleiða yfirmenn í hernum. Pierre de Frédy hélt tvítugur til Englands að kynna sér íþróttakennslu og varð stórhrifinn. Í hans huga þyrfti Frakkland og raunar heimurinn allur á stórátaki að halda í íþróttamálum. Og þegar þessi sannfæring blandaðist saman við forn-grikkjablætið var stutt í rökrétta niðurstöðu. Rétt er að taka fram, áður en lengra er haldið, að enginn þekkir Pierre de Frédy undir hans rétta nafni. Pierre var af aðalsætt og bar mikinn titil: baróninn af Coubertin.saga til næsta bæjarPierre de Coubertin barón er heimskunnur sem stofnandi Ólympíuleika nútímans. Honum tókst að fá grísk stjórnvöld til að halda veglega leika í Aþenu árið 1896 með þátttöku íþróttamanna víðs vegar að úr heiminum. Grikkir höfðu áður gert tilraunir til að endurvekja hina fornu Ólympíuleika, en þessi tilraun varð burðugri, ekki hvað síst vegna rausnarskapar grísku stjórnarinnar sem stefndi um þær mundir lóðbeint í enn eitt þjóðargjaldþrotið. Baróninn franski ákvað þegar í upphafi að leikarnir skyldu, líkt og Ólympíuleikarnir fornu, fara fram á fjögurra ára fresti. Stjórnvöld í Aþenu voru meira en til í að hýsa leikana í hvert sinn, en de Coubertin hafði aðrar hugmyndir. Hann sá fyrir sér að íþróttamótið flakkaði milli stórborga heimsins og drægi sífellt fleiri iðkendur og áhorfendur til sín. Umdeild hugmynd Í fyrstu snerust Ólympíuleikarnir alfarið um íþróttakeppni, þótt vissulega væru sumar greinarnar sérkennilegar, svo sem kafsund, reiptog og skotveiðar á lifandi dúfum. En de Coubertin var með langtímaáætlun. Á Ólympíuleikunum á Grikklandi til forna – hugsaði Fransmaðurinn – höfðu fremstu listamenn einnig mætt til keppni og barist um verðlaun, þannig hefðu listir og íþróttir fallist í faðma og myndað eina heild. Um leið og íþróttaleikarnir máttu heita fastir í sessi og framtíð þeirra trygg, fór de Coubertin að þrýsta á um þetta hugðarefni sitt. Viðbrögðin voru blendin. Engum þótti hugmyndin jafn góð og Ólympíuforsetanum sjálfum, en baróninn var frekjuhundur sem erfitt var að andmæla auk þess sem ýmsum þótti að karlinn ætti það skilið eftir alla vinnuna að fá eins og eitt og eitt gæluverkefni í gegn. Ólympíunefndin samþykkti árið 1906 að taka upp keppni í listum strax á næstu leikum. Þeir áttu að fara fram í Rómaborg, en eldgos í Vesúvíusi sama ár varð til þess að flytja þurfti mótið til Lundúna. Þar sem undirbúningstími Bretanna var ekki nema eitt og hálft ár þótti ekki rétt að demba á þá listgreinakeppni til viðbótar. Leikarnir 1912 fóru fram í Stokkhólmi. Undirbúningstími var nægur og því ekki hægt að nota þá afsökun til að sleppa því að keppa í listum. Sænska Ólympíunefndin fann hins vegar málinu allt til foráttu og reyndi sitt ýtrasta til að losna við þennan dagskrárlið sem þeim virtist flókinn í framkvæmd, kostnaðarsamur og óspennandi. Baróninn lét sig hins vegar ekki og með ofríki og hótunum skikkaði hann Svíana til að standa við sitt. Þeir mögluðu og í hefndarskyni sniðgengu sænskir listamenn keppnina að mestu og jafnvel eru vísbendingar um að sænska nefndin hafi vísað í kyrrþey burt þeim framlögum sem þó bárust.Listgreinaflokkarnir voru fimm: arkitektúr, tónlist, bókmenntir, myndlist og höggmyndalist. Skyldu listaverkin öll fjalla um íþróttir með einum eða öðrum hætti. Þannig ættu arkitektarnir að hanna íþróttamannvirki, myndlistarmennirnir mála íþróttafólk og svo koll af kolli. Þessar sérhæfðu kröfur ýttu ekki undir þátttöku og í mörgum flokkanna voru innsendu verkin fá og gæði þeirra svo misjöfn að dómnefndir treystu sér ekki til að úthluta gull-, silfur- og bronsverðlaunum í öllum flokkum. Þannig fékk enginn silfur eða brons fyrir tónlist, myndlist, arkitektúr og bókmenntir á Stokkhólmsleikunum.Hrokagikkur móðgaður Bókmenntahluti leikanna varð raunar enn meira klúður en flestir gerðu sér grein fyrir á sínum tíma. De Coubertin óttaðist að vandræðalega fá verk bærust til keppni og orti því sjálfur óð til Ólympíuleikanna, sem hann sendi inn undir dulnefninu Georges Hohrod og Martin Eschbath frá Þýskalandi. Dómnefndin komst að þeirri niðurstöðu að kvæðið væri það eina sem verðskuldaði verðlaun. Baróninn var þar með kominn í klemmu, enda liti ekki vel út að forseti Ólympíunefndarinnar hirti sjálfur verðlaunin, hann upplýsti því aldrei um hver stæði í raun á bak við dulnefnið og kom það ekki í ljós fyrr en fræðimenn fóru að gramsa í skjalasafninu að honum látnum. Öðrum manni var ekki skemmt þegar niðurstaðan úr bókmenntakeppninni lá fyrir. Það var ítalska skáldið Gabriele D’Annunzio, sem var stærsta nafnið í ítölskum bókmenntum um þær mundir. D’Annunzio, sem síðar varð ein af helstu hetjum fasista, var mikill oflátungur og fræg er sagan af því þegar hann neitaði að taka við bréfi sem honum var borið með árituninni: „Til mesta skálds Ítala“. Sjálfur kannaðist hann ekki við þá nafnbót – hann væri mesta skáld í heimi?… En D’Annunzio var einn fárra sem urðu við kallinu og sendi ljóð til Ólympíukeppninnar og getur ekki hafa verið kátur þegar það var metið léttvægt og ekki einu sinni verðugt á verðlaunapall. D’Annunzio var langfrægasti listamaðurinn til að tengjast listakeppni Ólympíuleikanna og þykja raunar furðufá hinna verðlaunuðu verka merkileg í dag. Stöku einstaklingar hafa ratað í sögubækur, svo sem Bandaríkjamaðurinn Walter Winans sem var myndhöggvari og skotíþróttamaður, sem náði að vinna til verðlauna á báðum sviðum – og Jack Butler Yeats, bróðir rithöfundarins kunna, sem vann fyrstu gullverðlaun Írska lýðveldisins?… fyrir listmálun. Meðan de Coubertin naut við datt engum í hug að hrófla við listgreinunum og keppnisflokkunum fjölgað fremur en hitt. En fyrir leikana 1952 í Helsinki harðneituðu skipuleggjendur að hafa formlega keppni í listum. Síðar voru verðlaunin fyrir þessar greinar snyrtilega tekin út af listum yfir sigurvegara á Ólympíuleikum. Hjónaband lista og íþrótta sem baróninn sá fyrir sér endaði því með skilnaði að borði og sæng. Og aldrei fór það svo að íslenskir listamenn færðu þjóðinni sitt fyrsta Ólympíugull. Einn Íslendingur keppti í listgreinum á Ólympíuleikum. Það var listmálarinn Ásgeir Bjarnþórsson í Lundúnum 1948. Óðinn má vita hvar framlag hans er niðurkomið nú.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga rifja upp gamla takta í Draumahöllinni Bíó og sjónvarp Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Khalid kemur út úr skápnum Lífið Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira