Erlent

Fleiri árásir voru í bígerð

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sprengjueyðingarsveit lögreglunnar í Brussel vinnur að því að eyðileggja sprengibúnað í bakpoka á sporvagnsstöð skammt frá Meiser-torgi.
Sprengjueyðingarsveit lögreglunnar í Brussel vinnur að því að eyðileggja sprengibúnað í bakpoka á sporvagnsstöð skammt frá Meiser-torgi. Nordicphotos/AFP
Tólf manns, grunaðir um aðild að hryðjuverkunum í Brussel og París, hafa síðan á fimmtudag verið handteknir. Níu í Brussel, tveir í Þýskalandi og einn í Frakklandi.

Ljóst þykir orðið að árásirnar í París í nóvember og árásirnar í Brussel nú í vikunni hafi verið skipulagðar og framkvæmdar af sama hópnum, af mönnum sem flestir hafa alist upp í Brussel eða verið með tengsl þangað. Þá hefur verið upplýst að í tengslum við handtökurnar í gær og á fimmtudag hafi lögreglunni í Belgíu og Frakklandi tekist að koma í veg fyrir nýja árás, sem til stóð að gera í París á næstunni.

FranÇois Hollande Frakklandsforseti sagði í gær, að þar með hafi hryðjuverkahópurinn, sem stóð að árásunum í París í nóvember og í Brussel nú í vikunni, verið tekinn úr umferð. Hins vegar sé enn hætta á ferðum: „Við vitum að það eru fleiri hópar,“ sagði hann.

Sprengingar heyrðust þegar lögreglan í Brussel lét til skarar skríða við sporvagnsstöð nálægt Meiser-torgi í Schaarbeek-hverfi borgarinnar í gær. Einn særðist þegar lögregla skaut á hann. Hann var með bakpoka sem reyndist innihalda sprengibúnað, og tókst að leggja hann yfir sporvagnsteinana. Sprengjunni var eytt.

Þá er komið í ljós að lögreglu í Belgíu hafi fyrir nokkrum mánuðum borist gögn um Salah Abdeslam, sem hefðu getað leitt til handtöku hans.

Hann var samt ekki handtekinn fyrr en föstudaginn 18. mars, fyrir rúmri viku. Fjórum dögum síðar gerðu þrír félagar hans sjálfsvígsárásir á Zaventem-flugvellinum í Brussel og Maelbeek-lestarstöðinni. Sprengingarnar kostuðu 31 mann lífið.

Abdeslam var samvinnuþýður í yfirheyrslum fram að árásunum á þriðjudag. Eftir það hefur hann engar upplýsingar viljað gefa, að því er Koen Geens dómsmálaráðherra segir.

Geens viðurkenndi á fimmtudag að lögreglan hafi gert mistök með því að handtaka ekki Ibrahim el Bakraoui þegar upplýsingar um hann bárust í júní á síðasta ári frá lögreglunni í Tyrklandi. Hann hafði verið handtekinn þar, grunaður um að hafa barist með Íslamska ríkinu í Sýrlandi, og sendur til Belgíu.

Nú er einnig komið í ljós að Najim Laachraoui hafi ekki horfið af vettvangi árásarinnar á flugvellinum á þriðjudag, eins og yfirvöld héldu fram í fyrstu, heldur hafi hann sprengt sig þar ásamt öðrum Bakraoui-bróðurnum. [email protected]

Sjálfsvígsárásarmennirnir á flugvellinum í Brussel á þriðjudag. Sá ljósklæddi með húfuna hefur ekki verið nafngreindur, en skildi sprengju sína eftir og komst undan. Hinir tveir sprengdu sig.Nordicphotos/AFP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×