Innlent

Vara við gosmengun á nær­liggjandi svæðum í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirborð hraunsins hefur kólnað en rennslið heldur líklega áfram undir yfirborðinu.
Yfirborð hraunsins hefur kólnað en rennslið heldur líklega áfram undir yfirborðinu. Vísir/Vilhelm

Dregið hefur hægt og lítillega úr gosóróa og sýnilegri virkni á Sundhnúksgígaröðinni frá því um kvöldmatarleytið í gær en gosið náði aftur stöðugleika um klukkan tvö í nótt.

Þetta segir í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands.

„Hraunstraumurinn sem legið hefur til vesturs frá miðju gígunum hefur hægt á sér og kólnað á yfirborði. Enn má þó búast við að hraunrennsli haldi áfram undir yfirborði í átt að varnargörðum við Svartsengi og Bláa Lónið þó svo að dregið hafi töluvert úr framrás þess,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að nyrsti gígurinn sé virkastur og frá honum liggi megin hraunstraumurinn til austurs. Syðsti gígurinn sé enn virkur og af og til sjáist kvika slettast upp fyrir gígbarma hans. 

Veðurstofa segir vindátt munu snúast í dag og verða breytilega. Þannig megi vænta þess að gosmengun gæti dreifst um nærliggjandi svæði á suðvesturhelmingi landsins.

Hér má finna gosdreifingarspá Veðurstofunnar og rauntímamælingar á loftgæðum hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×