Börn í sýningarkössum Stefán Pálsson skrifar 21. ágúst 2016 10:00 Börn höfð til sýnis í hitakössum. Þann 10. október 1990 kom fimmtán ára gömul stúlka á fund bandarískrar þingnefndar. Hún hét Nayirah, en eftirnafn hennar var látið liggja á milli hluta af ástæðum sem síðar komu í ljós. Sagan sem hún hafði að segja var áhrifarík og vakti gríðarlega athygli. Nayirah var frá Kúveit en fyrr um haustið hafði Íraksher undir stjórn einræðisherrans Saddams Hussein ráðist inn í landið og hernumið það. Táningsstúlkan lýsti tárvot en með styrkri röddu hvernig íraskir hermenn hefðu farið ránsferðir um sjúkrahús í landinu og stolið þar hvers kyns tækjabúnaði, þar á meðal hita- og súrefniskössum fyrir hvítvoðunga. Ungbörnin hefðu hreinlega verið rifin úr kössunum og lögð á gólfið til að deyja drottni sínum. Fjölmiðlar á Vesturlöndum gerðu vitnisburðinum góð skil og sagan af gripdeildunum á ungbarnaspítölunum var margoft rifjuð upp á næstu vikum og mánuðum í aðdraganda Flóabardaga þar sem alþjóðlegt herlið hrakti Íraka frá Kúveit. Það var ekki fyrr en síðar að blaðamenn fóru að grafast betur fyrir um hina hugrökku, ungu stúlku. Marga þyrsti að fregna meira um sögu hennar. Í ljós kom að hún hét fullu nafni Nayirah al-Sabah og var dóttir sendiherra Kúveits í Bandaríkjunum. Þegar sveitir Saddams Hussein réðust inn í grannríkið var Nayirah í Bandaríkjunum og upplifði sjálf enga þeirra atburða sem hún lýsti í frásögn sinni. Almannatengslaskrifstofa í New York hafði tekið að sér að undirbúa stúlkuna fyrir fund þingnefndarinnar og í raun samið handritið fyrir hana. Eftir á að hyggja var sagan líka tortryggileg. Engin ástæða er til að gera lítið úr ránum og spellvirkjum íraska hersins meðan á hernáminu stóð, en erfitt er að sjá hvers vegna í ósköpunum Írakar hefðu átt að ágirnast tiltölulega ódýran sjúkrahúsbúnað frá grönnum sínum. Sjálfir bjuggu þeir við frekar gott og ágætlega tækjum búið heilbrigðiskerfi, auk þess sem nóg var af verðmætari og meðfærilegri hlutum til að stela. Sagan af stolnu hitakössunum í Kúveit var að öllum líkindum uppspuni frá rótum. Safaríkar frásagnir sem ætlað er að leggja áherslu á fólsku óvinarins eru kunnar úr öllum styrjöldum, þannig gengu miklar sögur af ódæðum Þjóðverja í Belgíu í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar. Samkvæmt þeim hafði þýska innrásarliðið einkum varið tímanum í að misþyrma prestum og nunnum, þótt erfitt sé að skilja hvaða hernaðarlega ávinningi slík hermdarverk ættu að skila. Hugmyndin um deyjandi hvítvoðunga sem teknir hafa verið úr hitakössunum er sterk. Raunar er erfitt að gera sér í hugarlund grimmúðlegri verknað. En sú var tíðin að kassar þessir, sem bjargað hafa lífi tugþúsunda fyrirbura um víða veröld, voru ekki jafn sjálfsagðir gripir á sjúkrahúsum. Saga þeirra er forvitnileg og hefur óvænta tengingu við sögu skemmtana- og afþreyingariðnaðar í Bandaríkjunum.Auglýsing um sýningu á börnum fæddum fyrir tímann.Frakkar í útrýmingarhættu Það voru franskir læknar sem lögðu grunn að vísindunum að baki hitakassatækninni. Áhugi þeirra á ungbarnavernd var af pólitískum og efnahagslegum rótum. Á nítjándu öld snarminnkaði frjósemi Frakka miðað við grannþjóðirnar. Franskar konur eignuðust sífellt færri börn og þótt Frökkum fjölgaði vissulega, þá var vöxturinn ekkert í líkingu við það sem gerðist hjá nágrönnum þeirra Þjóðverjum. Franskir ráðamenn höfðu af þessu þungar áhyggjur, enda sáu þeir fram á að valdahlutföll í álfunni myndu með þessu áframhaldi breytast innan fárra áratuga og Þjóðverjar styrkjast á kostnað Frakklands. Stjórnvöld brugðust við þessu á fyrirsjáanlegan hátt og reyndu að hvetja konur til barneigna með því að höfða til ættjarðarástar. Jafnframt hugkvæmdist heilbrigðisyfirvöldum að rétt væri að reyna að draga úr barnadauða, þannig að fleiri þeirra barna sem þó fæddust kæmust til manns. Með því var nýr tónn sleginn í heilbrigðissögunni, því fram að þessu höfðu flestir litið á skelfilega háa dánartíðni ungbarna sem náttúrulegt og óhjákvæmilegt fyrirbæri. Fæðingarlæknirinn Stéphane Étienne Tarnier komst að þeirri niðurstöðu að bjarga mætti lífi fyrirbura með réttri næringu og því að halda þeim í röku og hlýju umhverfi. Í því skyni var t.d. reynt að vefja börnin þétt inn í rök teppi og láta þau liggja sem næst heitum ofni. Þegar Tarnier kynntist útungunarkössum sem franskir kjúklingabændur voru að gera tilraunir með, sá hann strax möguleika tækninnar. Árið 1881 lét hann útbúa og setja upp búnað við stærstu fæðingardeildina í Parísarborg. Um var að ræða trékassa með glerloki. Á kassanum voru loftgöt og rými fyrir flösku með heitu vatni til að mynda raka og ylja kornabörnunum sem þar lágu. Tarnier getur ekki talist uppfinningamaður hitakassans, því nokkrir aðrir læknar höfðu gert svipaðar tilraunir. Hann var hins vegar sá fyrsti til að beita uppfinningunni á markvissan hátt og á fáeinum misserum minnkaði barnadauðinn á fæðingardeildinni um þriðjung. Aðstoðarmaður Tarniers og eftirmaður í embætti, Pierre-Constant Budin, hélt áfram á sömu braut. Hans kunnasta framlag í baráttunni við barnadauða voru rannsóknir á kostum brjóstamjólkur, en áður höfðu flestir hallast að því að kúamjólk væri kornabörnum hollari en brjóstamjólk. Budin þróaði hitakassatæknina áfram og var óþreytandi að reyna að vekja athygli fræðasamfélagsins og stjórnmálamanna á henni. Í því skyni ákvað hann að senda ungan þýskan aðstoðarmann sinn á iðnsýninguna í Berlín árið 1896, sem var ógnarmikil að vöxtum og vakti heimsathygli. Ferðin átti eftir að valda straumhvörfum í lífi aðstoðarmannsins, sem síðar tók sér nafnið Martin Arthur Couney.Atriði sem slær í gegn Hitakassarnir voru settir upp í þeim hluta sýningarinnar sem helgaður var heilbrigðisvísindum og dró helst til sín lækna og læknastúdenta. Til að sýna betur hvernig tækin virkuðu í notkun voru fengnir fyrirburar af nálægum spítölum til að liggja í þeim meðan á sýningunni stóð. Afleiðingarnar voru óvæntar. Frá fyrsta degi lá stríður straumur gesta í sýningarskálann, einkum kvenna sem drógust að brjóstumkennanlegum og agnarsmáum krílunum. Aðstoðarmaðurinn ungi sá þegar í stað viðskiptatækifæri og hélt ekki aftur til yfirmanns síns í París. Þess í stað sneri hann sér alfarið að því að smíða sína eigin hitakassa og ferðast á milli heimssýninga vestan hafs og austan til að sýna þá. Couney settist að í New York og rétt eftir aldamótin 1900 setti hann upp sýningu í skemmtigarði á Coney Island og rak næstu áratugina. Sú sýning gerði hann frægan í heilbrigðissögunni, sumir myndu þó frekar segja alræmdan. Yfir sýningarskála Martins Couney á Coney Island var risastór borði með áletruninni: „All the World Loves a Baby“ og það mátti til sanns vegar færa. Gegn því að greiða aðgangseyri gátu gestir fengið að skoða fyrirbura í hitakössum, börn sem óvíst var að myndu lifa mikið lengur en sem áttu þó möguleika á að þrauka með tilstilli tækninnar. Börnin voru í flestum tilvikum fengin frá foreldrum sem ekki höfðu ráð á að leita á náðir barnaspítala, sem þess utan höfðu sjaldnast yfir slíkum búnaði að ráða. Sýningin var óheflað tilfinningaklám og minnti helst á furðufuglasýningar fortíðarinnar, þar sem áhorfendur keyptu sig inn til að sjá dverga, fatlað fólk eða manneskjur af öðrum kynþáttum. Ýmsir kollegar doktors Couneys töldu það gróft brot á siðareglum lækna að nota sjúklinga sem sýningargripi og töldu það ámælisvert að tækjabúnaðurinn væri einungis í notkun þá mánuði ársins sem skemmtigarðarnir á Coney Island voru starfræktir. Sýningarstjórinn skellti þó skollaeyrum við slíkri gagnrýni. Sjálfur leit hann á sig sem bjargvætt gríðarlegs fjölda barna sem að öðrum kosti hefðu ekki átt langt líf fyrir höndum. Hvað sem flóknum siðferðisspurningum líður er óumdeilt að sýningin í New York og sambærilegar sýningar á stórum heims- og tæknisýningum víða um lönd áttu stóran þátt í að kynna hitakassatæknina og breiða hana út. Arthur Couney lést árið 1950, um það leyti sem súrefnis- og rakastýrðir hitakassar fyrir kornabörn urðu staðalbúnaður á bandarískum sjúkrahúsum. Ári síðar kom fyrsti slíki kassinn til Íslands og var settur upp á sjúkrahúsi bandaríska setuliðsins á Keflavíkurflugvelli. Fáeinum misserum síðar fylgdu íslenskar sjúkrastofnanir í kjölfarið. Árið 1956 fékk Sjúkrahús Vestmannaeyja hitakassa að gjöf með samskotum velunnara. Af því tilefni ritaði sjúkrahúslæknirinn Einar Guttormsson blaðagrein til að útskýra hið nýja tæki, sem enskumælandi menn kölluðu „incubator“ en hann nefndi bæði „útungunarvél“ og „fóður móður“. Löngu fyrr hafði vestur-íslenska blaðið Heimskringla látið sér detta í hug nýyrðin „vermiból“ eða „vermirekkja“. Eru það allt ágætis tillögur. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga rifja upp gamla takta í Draumahöllinni Bíó og sjónvarp Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Frambjóðendur stigu trylltan dans með unga fólkinu Lífið Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira
Þann 10. október 1990 kom fimmtán ára gömul stúlka á fund bandarískrar þingnefndar. Hún hét Nayirah, en eftirnafn hennar var látið liggja á milli hluta af ástæðum sem síðar komu í ljós. Sagan sem hún hafði að segja var áhrifarík og vakti gríðarlega athygli. Nayirah var frá Kúveit en fyrr um haustið hafði Íraksher undir stjórn einræðisherrans Saddams Hussein ráðist inn í landið og hernumið það. Táningsstúlkan lýsti tárvot en með styrkri röddu hvernig íraskir hermenn hefðu farið ránsferðir um sjúkrahús í landinu og stolið þar hvers kyns tækjabúnaði, þar á meðal hita- og súrefniskössum fyrir hvítvoðunga. Ungbörnin hefðu hreinlega verið rifin úr kössunum og lögð á gólfið til að deyja drottni sínum. Fjölmiðlar á Vesturlöndum gerðu vitnisburðinum góð skil og sagan af gripdeildunum á ungbarnaspítölunum var margoft rifjuð upp á næstu vikum og mánuðum í aðdraganda Flóabardaga þar sem alþjóðlegt herlið hrakti Íraka frá Kúveit. Það var ekki fyrr en síðar að blaðamenn fóru að grafast betur fyrir um hina hugrökku, ungu stúlku. Marga þyrsti að fregna meira um sögu hennar. Í ljós kom að hún hét fullu nafni Nayirah al-Sabah og var dóttir sendiherra Kúveits í Bandaríkjunum. Þegar sveitir Saddams Hussein réðust inn í grannríkið var Nayirah í Bandaríkjunum og upplifði sjálf enga þeirra atburða sem hún lýsti í frásögn sinni. Almannatengslaskrifstofa í New York hafði tekið að sér að undirbúa stúlkuna fyrir fund þingnefndarinnar og í raun samið handritið fyrir hana. Eftir á að hyggja var sagan líka tortryggileg. Engin ástæða er til að gera lítið úr ránum og spellvirkjum íraska hersins meðan á hernáminu stóð, en erfitt er að sjá hvers vegna í ósköpunum Írakar hefðu átt að ágirnast tiltölulega ódýran sjúkrahúsbúnað frá grönnum sínum. Sjálfir bjuggu þeir við frekar gott og ágætlega tækjum búið heilbrigðiskerfi, auk þess sem nóg var af verðmætari og meðfærilegri hlutum til að stela. Sagan af stolnu hitakössunum í Kúveit var að öllum líkindum uppspuni frá rótum. Safaríkar frásagnir sem ætlað er að leggja áherslu á fólsku óvinarins eru kunnar úr öllum styrjöldum, þannig gengu miklar sögur af ódæðum Þjóðverja í Belgíu í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar. Samkvæmt þeim hafði þýska innrásarliðið einkum varið tímanum í að misþyrma prestum og nunnum, þótt erfitt sé að skilja hvaða hernaðarlega ávinningi slík hermdarverk ættu að skila. Hugmyndin um deyjandi hvítvoðunga sem teknir hafa verið úr hitakössunum er sterk. Raunar er erfitt að gera sér í hugarlund grimmúðlegri verknað. En sú var tíðin að kassar þessir, sem bjargað hafa lífi tugþúsunda fyrirbura um víða veröld, voru ekki jafn sjálfsagðir gripir á sjúkrahúsum. Saga þeirra er forvitnileg og hefur óvænta tengingu við sögu skemmtana- og afþreyingariðnaðar í Bandaríkjunum.Auglýsing um sýningu á börnum fæddum fyrir tímann.Frakkar í útrýmingarhættu Það voru franskir læknar sem lögðu grunn að vísindunum að baki hitakassatækninni. Áhugi þeirra á ungbarnavernd var af pólitískum og efnahagslegum rótum. Á nítjándu öld snarminnkaði frjósemi Frakka miðað við grannþjóðirnar. Franskar konur eignuðust sífellt færri börn og þótt Frökkum fjölgaði vissulega, þá var vöxturinn ekkert í líkingu við það sem gerðist hjá nágrönnum þeirra Þjóðverjum. Franskir ráðamenn höfðu af þessu þungar áhyggjur, enda sáu þeir fram á að valdahlutföll í álfunni myndu með þessu áframhaldi breytast innan fárra áratuga og Þjóðverjar styrkjast á kostnað Frakklands. Stjórnvöld brugðust við þessu á fyrirsjáanlegan hátt og reyndu að hvetja konur til barneigna með því að höfða til ættjarðarástar. Jafnframt hugkvæmdist heilbrigðisyfirvöldum að rétt væri að reyna að draga úr barnadauða, þannig að fleiri þeirra barna sem þó fæddust kæmust til manns. Með því var nýr tónn sleginn í heilbrigðissögunni, því fram að þessu höfðu flestir litið á skelfilega háa dánartíðni ungbarna sem náttúrulegt og óhjákvæmilegt fyrirbæri. Fæðingarlæknirinn Stéphane Étienne Tarnier komst að þeirri niðurstöðu að bjarga mætti lífi fyrirbura með réttri næringu og því að halda þeim í röku og hlýju umhverfi. Í því skyni var t.d. reynt að vefja börnin þétt inn í rök teppi og láta þau liggja sem næst heitum ofni. Þegar Tarnier kynntist útungunarkössum sem franskir kjúklingabændur voru að gera tilraunir með, sá hann strax möguleika tækninnar. Árið 1881 lét hann útbúa og setja upp búnað við stærstu fæðingardeildina í Parísarborg. Um var að ræða trékassa með glerloki. Á kassanum voru loftgöt og rými fyrir flösku með heitu vatni til að mynda raka og ylja kornabörnunum sem þar lágu. Tarnier getur ekki talist uppfinningamaður hitakassans, því nokkrir aðrir læknar höfðu gert svipaðar tilraunir. Hann var hins vegar sá fyrsti til að beita uppfinningunni á markvissan hátt og á fáeinum misserum minnkaði barnadauðinn á fæðingardeildinni um þriðjung. Aðstoðarmaður Tarniers og eftirmaður í embætti, Pierre-Constant Budin, hélt áfram á sömu braut. Hans kunnasta framlag í baráttunni við barnadauða voru rannsóknir á kostum brjóstamjólkur, en áður höfðu flestir hallast að því að kúamjólk væri kornabörnum hollari en brjóstamjólk. Budin þróaði hitakassatæknina áfram og var óþreytandi að reyna að vekja athygli fræðasamfélagsins og stjórnmálamanna á henni. Í því skyni ákvað hann að senda ungan þýskan aðstoðarmann sinn á iðnsýninguna í Berlín árið 1896, sem var ógnarmikil að vöxtum og vakti heimsathygli. Ferðin átti eftir að valda straumhvörfum í lífi aðstoðarmannsins, sem síðar tók sér nafnið Martin Arthur Couney.Atriði sem slær í gegn Hitakassarnir voru settir upp í þeim hluta sýningarinnar sem helgaður var heilbrigðisvísindum og dró helst til sín lækna og læknastúdenta. Til að sýna betur hvernig tækin virkuðu í notkun voru fengnir fyrirburar af nálægum spítölum til að liggja í þeim meðan á sýningunni stóð. Afleiðingarnar voru óvæntar. Frá fyrsta degi lá stríður straumur gesta í sýningarskálann, einkum kvenna sem drógust að brjóstumkennanlegum og agnarsmáum krílunum. Aðstoðarmaðurinn ungi sá þegar í stað viðskiptatækifæri og hélt ekki aftur til yfirmanns síns í París. Þess í stað sneri hann sér alfarið að því að smíða sína eigin hitakassa og ferðast á milli heimssýninga vestan hafs og austan til að sýna þá. Couney settist að í New York og rétt eftir aldamótin 1900 setti hann upp sýningu í skemmtigarði á Coney Island og rak næstu áratugina. Sú sýning gerði hann frægan í heilbrigðissögunni, sumir myndu þó frekar segja alræmdan. Yfir sýningarskála Martins Couney á Coney Island var risastór borði með áletruninni: „All the World Loves a Baby“ og það mátti til sanns vegar færa. Gegn því að greiða aðgangseyri gátu gestir fengið að skoða fyrirbura í hitakössum, börn sem óvíst var að myndu lifa mikið lengur en sem áttu þó möguleika á að þrauka með tilstilli tækninnar. Börnin voru í flestum tilvikum fengin frá foreldrum sem ekki höfðu ráð á að leita á náðir barnaspítala, sem þess utan höfðu sjaldnast yfir slíkum búnaði að ráða. Sýningin var óheflað tilfinningaklám og minnti helst á furðufuglasýningar fortíðarinnar, þar sem áhorfendur keyptu sig inn til að sjá dverga, fatlað fólk eða manneskjur af öðrum kynþáttum. Ýmsir kollegar doktors Couneys töldu það gróft brot á siðareglum lækna að nota sjúklinga sem sýningargripi og töldu það ámælisvert að tækjabúnaðurinn væri einungis í notkun þá mánuði ársins sem skemmtigarðarnir á Coney Island voru starfræktir. Sýningarstjórinn skellti þó skollaeyrum við slíkri gagnrýni. Sjálfur leit hann á sig sem bjargvætt gríðarlegs fjölda barna sem að öðrum kosti hefðu ekki átt langt líf fyrir höndum. Hvað sem flóknum siðferðisspurningum líður er óumdeilt að sýningin í New York og sambærilegar sýningar á stórum heims- og tæknisýningum víða um lönd áttu stóran þátt í að kynna hitakassatæknina og breiða hana út. Arthur Couney lést árið 1950, um það leyti sem súrefnis- og rakastýrðir hitakassar fyrir kornabörn urðu staðalbúnaður á bandarískum sjúkrahúsum. Ári síðar kom fyrsti slíki kassinn til Íslands og var settur upp á sjúkrahúsi bandaríska setuliðsins á Keflavíkurflugvelli. Fáeinum misserum síðar fylgdu íslenskar sjúkrastofnanir í kjölfarið. Árið 1956 fékk Sjúkrahús Vestmannaeyja hitakassa að gjöf með samskotum velunnara. Af því tilefni ritaði sjúkrahúslæknirinn Einar Guttormsson blaðagrein til að útskýra hið nýja tæki, sem enskumælandi menn kölluðu „incubator“ en hann nefndi bæði „útungunarvél“ og „fóður móður“. Löngu fyrr hafði vestur-íslenska blaðið Heimskringla látið sér detta í hug nýyrðin „vermiból“ eða „vermirekkja“. Eru það allt ágætis tillögur.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga rifja upp gamla takta í Draumahöllinni Bíó og sjónvarp Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Frambjóðendur stigu trylltan dans með unga fólkinu Lífið Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira