Menning

Þrjár bækur um Melrakkasléttu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Níels Árni Lund með bækurnar þrjár.
Níels Árni Lund með bækurnar þrjár. Vísir/Ernir Eyjólfsson.
Sléttungurinn Níels Árni Lund hefur gefið út ritverkið Sléttungu, - safn til sögu Melrakkasléttu og Raufarhafnar. Þetta eru þrjár bækur í setti, rúmlega þrjúhundruð síður hver bók, með um eittþúsund ljósmyndum. 

„Markmiðið var að taka saman og skrá og varðveita sögur og fróðleik af Melrakkasléttu,“ segir Níels Árni og kveðst sannfærður um að bókin mun „lifa“ lengi.

„Þá vildi ég að sem flestir Sléttungar, og aðrir sem tengjast héraðinu, svo og áhugafólk um sögu lands og þjóðar, ferðaþjónustuaðilar og fleiri, gætu eignast verkið og gluggað í það aftur og aftur,“ segir höfundurinn, sem sjálfur er fæddur og uppalinn í Nýhöfn á Leirhafnartorfunni á Sléttu. 

Í ritinu er kort af Melrakkasléttu með um 1.000 örnefnum, sem ekki hafa áður verið staðsett á landakorti. Ítarleg nafnaskrá með 650 til 1.200 nöfnum er í lok hverrar bókar. 

Í fyrsta bindi; Sléttunga – umhverfi og mannlíf, rita ýmsir sérfræðingar um jarðfræði, náttúru, gróður, fugla, vötn og ár. Kaflar eru um heilsugæslu, félagslíf og skólamál; um skipsströnd við Sléttu og hernámsárin þar nyrðra. Þá er ítarleg leiðarlýsing um Melrakkasléttu og meðal annars sótt efni í þjóðsögur og gamlar sagnir. 

Í öðru bindi; Sléttunga – fólk og býli, er 200 ára saga allra jarða Sléttunnar, jafnt stórbýla sem heiðarkota, og sagan sögð frá aldamótunum 1800 til dagsins í dag. 

Í þriðja bindi; Sléttunga – Raufarhöfn, er rakin saga Raufarhafnar aftur úr öldum til ársins 2006 er Raufarhafnarhreppur varð hluti af Norðurþingi. Sagt er frá bújörðinni, verslunarstaðnum, sjávarþorpinu Raufarhöfn; fiskveiðum, síldarárunum og þeim miklu umsvifum sem síldinni fylgdu. Sagt er frá mannlífinu, félögum og þjónustustarfsemi og öðru því sem skapaði Raufarhöfn, nyrsta þorp landsins. 

Níels Árni gefur sjálfur út bækurnar og býðst kaupendum að hafa samband við hann á netfangið [email protected].


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.