Skoðun

Tals­menn ein­faldara skatt­kerfis og lækkun skatta, koma á fót nýjum og flóknum skatti

Jónas Godsk Rögnvaldsson skrifar

Hvati stjórnvalda, til kaupa á hreinorkubílum, breytist í refsingu um áramótin. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn, fremstur í flokki, kemur á fót nýjum skatti, sem þekkist hvergi í Evrópu. 

Kílómetragjald á hreinorkubíla er grófur landsbyggðarskattur, sem er flókinn í framkvæmd, auðvelt að sneiða hjá og/eða fresta afborgunum af. Rafbílaeigendur sem aka um langan veg til að sækja þjónustu og atvinnu fá nú á baukinn fyrir að vera framsýnir. Þeim er refsað fyrir að aka á hreinni íslenskri orku og að spara gjaldeyri landsmanna sem annars færi til olíukaupa. Svo ekki sé minnst á framlag þeirra til orkuskipta. 

Yfirlýst markmið er að fjármagna vegakerfið þegar það liggur í augum uppi að hvorki þessar fjárhæðir verða eyrnamerktar vegakerfinu né þær sem fást með olíugjöldum - þetta er einfaldlega ný og aukin skattheimta. Miklu nær væri að þrepaskipta bifreiðagjöldunum í takt við þyngd bifreiða, enda hefur hún mikil áhrif á slit vega. Ef menn vilja halda áfram á braut sérstakrar gjaldtöku á hreinorkubílum, þá má hækka bifreiðargjöldin á þeim. 

Hver mun sinna eftirliti á því að einstaklingurinn skrái fjölda ekna kílómetra rétt? Kemur starfsmaður skattsins í eftirlit í heimahús einu sinni á ári? Hver er kostnaðurinn við hinn nýja skatt í eftirlit og innheimtu? Mörgum spurningum er enn ósvarað. Einnig má bæta við að fyrir einstaklinga með ágætis tölvukunnáttu og leiðbeiningum er hægðarleikur að breyta kílómetrastöðu bílsins. Íslendingar hafa áður haft kílómetragjald (á olíuknúnum fólksbílum) og gáfust upp á því fyrirkomulagi. Er ástæða til að endurtaka leikinn? 

Eigendur hreinorkubíla eru ekki mótfallnir aukinni gjaldtöku en þessi áform eru illa ígrunduð og taka ekkert tillit til loftslagsmála.

Höfundur er rafbílaeigandi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×