Skoðun

Eru byssur meira full­orðins?

Oddný G. Harðardóttir skrifar

Almenn sátt hefur ríkt um að Íslendingar, sem herlaus þjóð, taki þátt í varnarsamstarfi með öðrum NATÓ-ríkjum á borgaralegum forsendum, þ.e.a.s. með mannúðaraðstoð og aðstoð við uppbyggingu nauðsynlegra innviða á stríðhrjáðum svæðum. Þannig höfum við sent stoðtæki og teppi til Úkraínu, tekið þar þátt í að byggja upp færanleg neyðarsjúkrahús og þannig má áfram telja. Hjá núverandi ríkisstjórn hefur átt sér stað stefnubreyting sem ekki ríkir sátt um. Við sinnum ekki lengur aðstoð á borgaralegum forsendum en kaupum í staðinn vopn til að nota í stríðsátökunum.

Utanríkisráðherra kallar eftir því að við Íslendingar fulltorðnumst í varnarmálum og setur það ákall í samhengi við friðarboðskap og aðstoð á borgaralegum forsendum, sem ég skil sem svo að fullorðið fólk eigi ekki að standa í nú um stundir. Byssur til að drepa fólk sé meira fullorðins. Við þurfum að fullorðnast og horfast í augu við hvernig staðan er í heiminum, segir utanríkisráðherrann íslenski. Þetta er ótrúlegur málflutningur sem hlýtur að hljóma skelfilega í eyrum sumra stjórnarliða. Við vitum hitt, að friður er forsenda velferðar, frelsis og mannréttinda, og að allir menn þrá að lifa við frið og öryggi.

Þegar Ísland gegndi formennsku í norrænu ráðherranefndinni bar formennskuáætlun Íslands yfirskriftina: Norðurlönd - afl til friðar. Þetta var í fyrra. Ráðherrarnir hafa greinilega fullorðnast síðan þá.

Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði í ár ber yfirskriftina: Friður og öryggi á Norðri.

Norðurlönd eru þekkt fyrir að vera boðberar friðar, afvopnunar og friðsamlegra lausna. Og við þurfum að halda því áfram ekki síst þegar ástandið er í heiminum eins og það er og allar norrænu þjóðirnar að verða meðlimir í Nató. Ráðamenn eiga aldrei að gera lítið úr þeim sem tala fyrir friðsamlegum lausnum. Boðberar friðar þurfa að vera fleiri en ekki færri.

Í þessu sambandi er líka rétt að rifja það upp að við eigum þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var einróma árið 2016 og endurskoðuð í þverpólitískri sátt í fyrra. Í inngangi hennar er lögð rík áhersla á frið og friðsamlegar lausnir. Þriðji töluliður stefnunnar kveður á um að ,,… aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja."

Hvað merkir að við tökum þátt á borgaralegum forsendum? Felur það í sér að sjá þjóðum fyrir vopnum í stríði? Við þurfum að vera viss um þjóðaröryggisstefnan sé ekki bara orðin tóm og bera ákvarðanir sem varða þjóðaröryggi saman við það sem í henni stendur.

Enginn hörgull er á verkefnum á sviði mannúðaraðstoðar og innviðauppbyggingar í Úkraínu sem mikilvægt er að styðja. Og enginn íslenskur ráðamaður má vera feiminn við að tala fyrir friði og friðsamlegum lausnum.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×