Handbolti

Sjö ís­lensk mörk í sjötta sigri Veszprém í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson í leiknum gegn Eurofarm Pelister.
Bjarki Már Elísson í leiknum gegn Eurofarm Pelister. epa/Tamas Vasvari

Veszprém náði fjögurra stiga forskoti á toppi A-riðils Meistaradeildar Evrópu með öruggum sigri á Eurofarm Pelister, 33-26, á heimavelli í kvöld.

Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk úr sex skotum fyrir Veszprém. Aðeins Ludovic Fabregas og Sergei Kosorotov skoruðu meira, eða sjö mörk hvor.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Veszprém sem er með sextán stig á toppi A-riðils, fjórum stigum meira en Paris Saint-Germain sem mætir Füchse Berlin seinna í kvöld.

Eftir þrjú töp í röð unnu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í Wisla Plock stórsigur á Fredericia, 30-21, í A-riðli.

Viktor Gísli varði átta skot í marki pólska liðsins, eða 27,5 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Wisla Plock er í 6. sæti riðilsins með fjögur stig, einu stigi meira en Fredericia sem er í áttunda og neðsta sæti.

Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Fredericia og Einar Þorsteinn Ólafsson og Arnór Viðarsson leika með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×