Handbolti

Ótrú­legur Óðinn í stór­sigri Kadet­ten sem skipti þó engu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óðinn Þór átti frábæran leik í kvöld.
Óðinn Þór átti frábæran leik í kvöld. Kadetten

Óðinn Þór Ríkharðsson var hreint út sagt magnaður þegar lið hans Kadetten vann stórsigur á Tatran Prešov frá Slóvakíu í Evrópudeild karla í handbolta.

Íslenski hornamaðurinn fór mikinn í leiknum sem Kadetten vann með 13 marka mun, lokatölur 39-26. Óðinn Þór var eins og svo oft áður markahæstur allra á vellinum en að þessu sinni var hann langmarkahæstur. Skoraði hann 10 mörk úr horninu, tvöfalt meira en næstu menn.

Í hinum leik C-riðils vann Limoges átta marka sigur á Benfica, lokatölur 36-28. Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir gestina frá Portúgal.

Þrátt fyrir tapið vinnur Benfica riðilinn með fimm sigra og eitt tap í sex leikjum. Limoges er með átta stig og fer einnig áfram upp úr riðlinum. Kadetten endar með sex stig í 3. sæti á meðan Tatran Prešov lýkur leik án stiga.

Í H-riðli vann Gummersbach þriggja marka útisigur á Sävehof frá Svíþjóð, lokatölur 25-28. Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach á meðan Tryggvi Þórisson skoraði eitt fyrir Sävehof.

Gummersbach vinnur riðilinn með 10 stig á meðan Toulouse, sem mætir FH í Kaplakrika í kvöld, endar í 2. sæti þar sem liðið er með sex stig en Sävehof aðeins fjögur. FH situr svo í botnsætinu með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×